Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Fé í Þingvallasveit. Vönduð og skipuleg vinnubrögð við val ásetnings-lamba munu ávallt skila sér í betri og meiri afurðum á búinu.
Fé í Þingvallasveit. Vönduð og skipuleg vinnubrögð við val ásetnings-lamba munu ávallt skila sér í betri og meiri afurðum á búinu.
Mynd / SH
Skoðun 22. ágúst 2016

Sauðfjárræktin og haustverkin

Höfundur: Jón Viðar Jónmundsson
Nýverið fann forysta BÍ það út að óheppilegt væri að ég leiðbeindi bændum um búfjárrækt sem ég hef oft fengist við á rúmlega 40 ára starfsferli í tengslum við BÍ. Ég verð því að biðja lesendur að hafa þetta bann forystumannanna í huga þegar þið lesið þennan pistil. 
 
Áhugi minn á búfjárræktinni hefur hins vegar ekki minnkað neitt við þessa ákvörðun þeirra. Ég hef enn sama áhuga á að reyna að miðla nýjum og gömlum hlutum til bænda sem ég ætla að séu umhugsunarverðir fyrir þá og jafnvel geti bætt búrekstur einhverra. 
 
Hugleiðingar mínar að þessu sinni eru til komnar vegna verkefnis sem ég hef verið að undirbúa störf við sem snýr að hagrænu vægi eiginleika í sauðfjár- og nautgriparækt hér á landi. Til að takast á við slíkt verkefni er nauðsynlegt að byrja á að mynda sér heildarsýn um framkvæmd ræktunarstarfsins, sem að ég tel mig eitthvað þekkja til eftir rúmlega 40 ára starf við það. Um leið verður að reyna að horfa á framkvæmd eins og hún hefur verið og er með gagnrýnum augum. Mögulega er það erfiðara fyrir mig þar sem ég hef staðið að því að koma flestum þessum þáttum í framkvæmd. Engu að síður vil ég reyna. 
Í sauðfjárræktinni í dag er þetta í raun ekki mjög flókið þar sem ræktunarmarkmið endurspeglast í kynbótaeinkunn sem þið notið á þann hátt að lögð er þriðjungs áhersla á kjötgæði, frjósemi og mjólkurlagni. Kjötgæðin eru í þessu byggða upp með því að leggja að jöfnu kynbótamat fyrir gerð og fitu úr kjötmatinu. 
 
Árangur ræktunarstarfsins ræðst m.a. af því hversu vel bændum tekst að vinna úrval ásetningsgripanna á þessum grunni. Þetta er sú vinna sem nú er framundan hjá sauðfjárbændum og því mjög gott að velta örfáum atriðum fyrir sér. 
 
Á undanförnum tveim áratugum hafa bændur unnið verulega árangursríkt ræktunarstarf í sauðfjárræktinni. Staðfestingu þess er hvað auðveldast að finna í frábæru lokaverkefni Jóns Hjalta Eiríkssonar frá LBHÍ nýverið. Hugleiðingar mínar snúa m.a. að því að sjálfar ræktunaráherslurnar þurfi ef til vill að endurskoða til að gera starfið enn markvissara. Ef við minnkum áherslur á einn þátt þá skapast um leið möguleikar á að auka áherslurnar fyrir hina þættina svo fremi að ekki komi til nýir þættir í ræktunarmarkmiðin m.a. nýir eiginleikar að velja fyrir. Rýnum nú aðeins nánar í þessa þætti og gerum það skipulega. 
 
Nýir eiginleikar með kynbótamat
 
Byrjum fyrst á nýjum þáttum í ræktunarstarfinu. Þetta er mál sem alltaf á og verður að vera til umræðu og endurskoðunar hjá bændum. Ég held hins vegar að þarna gerist ekkert alveg á næstu tveim þrem árum og vil aðeins rökstyðja það. Til að geta haft með eiginleika í úrvali er skilyrði að við getum skilgreint hann glöggt og höfum mælingar fyrir hann. Fyrsta stigi er að skilgreina og afla grunnþekkingar með að skrá eiginleikann. Þetta útilokar sjálfsagt næstu fimm til tíu árin fjölmarga eiginleika sem forvitnilegt kann að vera að huga að kynbótum á. Getum nefnt burðarerfiðleika, spenastöðu- og spenalengd hjá ám, júgurbólgu og þannig má áfram telja. Ekki vil ég fara mörgum orðum um 40 ára baráttu mína fyrir að fá bændur til að skrá eiginleika í sambandi við ull. Mín skoðun er að bændur hafi rækilega svarað áhuga sínum um þá eiginleika í ræktunarstarfinu með athafnaleysi sínu við skráningu ullareiginleika. 
 
Miklar þungaupplýsingar er að finna í skráðum gögnum. Því miður hefur mjög dregið úr skráningum á þunga á fullorðnu fé. Þar verður að gera mikið átak til aukinna mælinga og skráninga á allra næstu árum. Þennan eiginleika er nauðsynlegt sem fyrst að geta tekið með í ræktunarstarfið. Þessi eiginleiki snýr mikið bæði að almennri hagkvæmni framleiðslunnar og sömuleiðis umhverfis- og loftslagsmálum, sem framtíðin mun krefjast að horft verði til í ræktunarstarfinu. Eigum við að búa við minni eða stærri ær á komandi árum? 
 
Þungi gripanna
 
Magn þungaupplýsinga fyrir lömb er gríðarlegt. Samt er sá eiginleiki ekki með í ræktunaráherslum okkar sem mældar eru með kynbótamati. Ég vil meina að þar sé ekki stór skaði skeður og vil rökstyðja það. Fyrst má nefna að ræktunaráherslur fyrir þann eiginleika verður að marka með hliðsjón af þunga og stærð fullorðinna gripa. Þrátt fyrir ósköp af rannsóknum okkar á ýmsum þungatölum höfum við enga minnstu hugmynd um þetta samband. 
 
Þunga lambanna að hausti notum við til að meta mjólkurlagni ánna en það er annar þáttur sem vikið verður að síðar. Haustþungi lambanna er hins vegar samsettur bæði af beinum vaxtaráhrifum hjá lambinu og móðureiginleikur ærinnar sem fóstrar lambið. Veruleg erfðaáhrif eru fyrir báða þessa eiginleika auk þess sem vitað er að á milli þeirra er meiri eða minni erfðafylgni. Fyrir meira en þrem áratugum mat ég þessa erfðafylgni nokkuð neikvæða. Ég tel mig nokkuð vissan um að þá var eitthvað vit í þessum niðurstöðum. Á þeim tíma var einfaldlega mögulegt að sjá þetta hjá afkvæmahópum nokkurra þekktra sæðingahrúta. Þetta tel ég mig ekki hafa geta greint eins glöggt á síðari árum Samt finnur Eyþór Einarsson þetta samband enn neikvætt en hans rannsóknir eru mér vitanlega einu rannsóknir hér á landi á þessu á allra síðustu árum. Ég er raunar orðinn þeirrar skoðunar að þetta samband komi menn ekki til að meta af nokkru öryggi á næstu árum. Líkön sem fram hafa verið sett um slíkt mat eru einfaldlega það flókin og með ýmsar óraunhæfar forsendur gagnvart þeim fjölmörgu samböndum sem þar koma til. Ég tel raunar að á næstu árum verði þróuð ný og raunhæfari líkön til að meta erfðaþætti gagnvart þunga gripa í vexti. Ég held að við séum engu að fórna með að þar skapist raunhæfari grunn en við höfum með núverandi þekkingu okkar. 
 
Haustþungi lamba hefur ætíð verið með ákveðinn úrvalsþunga sem hefur skapað ákveðnar en líklega fremur takmarkaðar framfarir fyrir eiginleikann. Hjá nágrönnum okkar Norðmönnum hefur þetta verið eiginleiki með miklar áherslur í ræktunarstarfinu. Þeir hafa reiknað sér gríðarmiklar erfðaframfarir vegna eiginleikans. Veikleikinn er aðeins að framfarirnar hafa komið minna fram beint í framleiðslunni en fyrir aðra eiginleika í ræktunarstarfinu. Í slíku ræktunarstarfi eru menn líklega að vaða reyk að hluta sem ég vonast til að geta skýrt í fréttum af norsku sauðfjárræktarstarfi sem vonandi fæst birt í næsta Bændablaði. 
Það sem ég mundi ráðleggja fjárbændun að gera gagnvart þessum eiginleika er eftirfarandi. Nú er hlutur lamba undan veturgömlu hrútunum sívaxandi með hverju árinu hjá flestum. Setjið ekki á ásetningshrúta undan veturgömlum hrútum nema þeir séu að skila vel yfir meðalfallþunga sem þið eigið auðvelt með að meta útfrá niðurstöðum í Fjárvís. Takmarkið líka frekar gimbraásetning undan veturgömlu hrútunum sem skila fallþunga undir meðaltali búsins. Með þessum reglum held ég að þið náið í flestum tilvikum fram nægum úrvalsþrýstingi á þunga lambanna í hlutfalli við aðra eiginleika. 
 
Skrokkgæði
 
Þá skulum við snúa okkur að eiginleikunum sem eru í heildarkynbótaeinkunnum sem þið hafið til að framkvæma valið eftir. Lítum fyrst á kjötgæðaeinkunn. Mikil fita hefur verið fjarlægð af íslenska fénu með skipulegri ræktun á innan við tveimur áratugum. Ég sagði ykkur fyrir mörgum árum og allar rannsóknir og athuganir síðustu ára styðja það að allar þessar framfarir hafa orðið í gegnum skipulegt val sæðingahrúta um árabil. Flest bendir til að stofninn hafi náð því fituleysi sem æskilegt er. Það þýðir að miklu fituleysi er ekki lengur gefið full vægi í kynbótamatinu. Fyrir bændur breytir þetta ef til vill ekki öllu því að eins og áður segir úrvalið hefur allt verið á sæðingahrútunum. Þetta þýðir hins vegar að ekki þarf eins og áður að horfa til fitunnar við val stöðvarhrútanna og þann valþrýsting sem þar var er því mögulegt að færa með auknu vægi á aðra eiginleika við val þeirra hrúta. Í almenna ræktunarstarfinu þarf fyrst og fremst að standa vörð um að fituhnallar komist ekki að nýju inn í stofninn. Það tryggið þið með ómmælingu og skoðun á kynbótamati fyrir eiginleikann við val á öllum ásetningshrútum. 
 
Fyrir gerð í kjötmati hafa verið meiri erfðaframfarir í stofninum á síðustu tveim áratugum en fyrir aðra eiginleika. Þar hafa ræktunaráherslur ykkar bænda í heild tvímælalaust verið mestar. Ekkert bendir til annars en þar séu allir möguleikar samt enn til umtalsverðra framfara. Ræktunarstarfið þar er í góðum farvegi og framhald framfara verður öðru fremur eins og verið hefur tryggt með áframhaldi ómmælinga á mögulegum ásetningslömbum og notkun á niðurstöðunum úr kjötmatinu. Það eina sem nauðsynlegt er að koma til framkvæmda er að nýta einnig tölur úr ómmælingum við útreikning kynbótamatsins fyrir gerð og fitu. Þær bæta þá útreikninga með að bestu lömbin, ásetningslömbin, fara að telja með mælingum í kynbótamatinu en þau hafa til þessa staðið utan þess. Það sem skorti voru erfðastuðlar en þeir komu með áðurnefndu verkefni Jóns Hjalta þannig að nú er aðeins að framkvæma hlutina. 
 
Frjósemi ánna
 
Gagnvart frjósemi ánna eru mörg atriði sem áhugavert er að ræða. Hins vegar hef ég oft rætt marga hluti þess þannig að ég vil aðeins nefna örfá önnur atriði. Í fyrsta lagi held ég ástæða sé til að velta fyrir sér áherslum á þennan eiginleika í ræktunarstarfinu. Ég hef orðið meira og meira sannfærður um að fyrir meginþorra bænda hér á landi hefur þessi eiginleiki ákveðið kjörgildi. Bændum hentar ær með tvö lömb, fleiri lömb krefjast aukinnar vinnu og til að hagnaður skili sér verður að skipuleggja framleiðsluna á annan hátt en flestir hafa gert til þessa. Í sambandi við fund um áðurnefnt verkefni um hagrænt gildi eiginleika varpaði ég því fram þeirri hugmynd að áhersla á frjósemi væri fall að því hve langt búið ætti í þetta mark. Þannig vill síðan til að fyrir um mánuði þá birta helstu kynbótafræðingar Nýja-Sjálands, meðal annars Amer sem mest hefur skrifað í heiminum síðasta áratuginn um ýmis efni tengd hagrænu vægi eiginleika, grein þar sem þeir rannsaka mismunandi möguleika á að leggja hagrænt vægi á frjósemi í ræktunarstarfinu. Þeir skoða m.a. þá hugmynd sem ég ræddi að framan og niðurstaða þeirra er að þetta sé langsamlega árangursríkasta leiðin við aðstæður þar í landi og er því það sem nú verður notað í nýsjálenskri sauðfjárrækt á næstu árum. Þannig held ég líka að við eigum að vinna. Í framkvæmd þýðir þetta að á búum þar sem frjósemin hjá ánum er komin um eða yfir tvö lömb er engin ástæða lengur til að leggja þriðjungsvægi á frjósemina við val ásetningslambanna. Við það skapast svigrúm fyrir aukið vægi á aðra eiginleika í staðinn eins og ég ræddi í sambandi við fituna. 
 
Annað vandamál sem ég hef oft rætt tengist tilveru stórvirku erfðavísanna fyrir frjósemi í stofninum. Vandamálin sem tengjast kynbótamatinu þar eru því eingöngu bundin búum þar sem eitthvað er um þetta fé. Í vetur skrifaði ég grein þar sem ég skýrði sum þessi vandamál og verður það ekki endurtekið. Fljótlega eftir að þessir erfðavísar fóru að uppgötvast á níunda áratugnum var gerð skýr fræðileg grein fyrir því hvernig leysa ætti þessi mál varðandi BLUP kynbótamatið. Vandamálið er aðeins það að forsendubrestur er gagnvart framkvæmd því að gert er ráð fyrir að þekkja alla einstaklinga sem bera genið. Það gerist ekki fyrr en með erfðagreiningu sem langt er í að verði það almenn í sauðfé og þess vegna er þessu hvergi beitt í reynd. Annað atriði sem rétt er að benda á er að einstaklingar undan arfblendnum hrútum sem ekki fá genið verða alltaf ofmetnir í BLUP útreikningum og skekkja í því mati er því meiri en hjá öðrum einstaklingum. Eins og við Eyjólfur Bjarnason höfum bent á í greinum á síðustu misserum er í framtíðinni langskynsamlegasta og hagnýtasta leiðin til að nýta þessi gen að sækja þau aðeins í gegnum arfhreina hrúta á stöðvunum. Þannig er stjórnin á notkuninni að öllu leyti í höndum hvers og eins bónda fyrir sitt bú. Þennan ærstofn er skynsamlegast að halda aðeins sem framleiðslustofn en virkja ekki í almenna ræktunarstarfinu á búinu. 
 
Mjólkurlagni ánna
 
Þá er aðeins eftir að fjalla um mjólkurlagni eða móðureiginleika ánna. Á grunni þess sem þegar er sagt þá ættu hjá mörgum bændum að gefa þessum eiginleika meira svigrúm í vali ásetningslambanna en verið hefur. Það er einnig áreiðanlegt að þetta er eiginleiki sem getur skilað miklu ef mögulegt er að bæta hann sem er full vissa fyrir að er hægt. Mælingarnar sem við höfum til að byggja valið á er kynbótamatið fyrir þennan eiginleika. Þar eru hins vegar að mínu viti mörg ljón í veginum sem við þurfum að læra meira um hegðun hjá. 
 
Fyrsta vandamálið er augljóslega þetta að við höfum enga beina mælingu fyrir eiginleikann og alls ekki mögulegt að mæla hann hjá ásetningslömbunum sjálfum. Ærnar metum við í dag með útreikningi á afurðastigi. Á því eru líklega jafn margar skoðanir og sauðfjárbændur eru í landinu. Þrátt fyrir áratuga rannsóknir höfum við samt ekki fundið neina betri leið til að mæla þennan eiginleika. Það er samt ekki mjólkurlagnin ein sem við teljum okkur mæla í þunga lambanna hjá ánni sem skiptir máli. Einni er það fjölmargir aðrir þættir hjá ánni sem skipta máli þegar móðureiginleikar þeirra eru metnir t.d. umhyggja þeirra fyrir lömbunum. Ekki vitum við neitt um hvort þessir þættir mögulega endurspeglist að einhverju leyti í afurðastiginu. Sumstaðar erlendis hafa verið farnar þær leiðir að meta mjólkurlagnina á grunni þunga lambanna í sauðburðarlok eða við fjallaferð lambanna. Að hluta sýnist mér að flestum virðist yfirsjást að það er ekki sami eiginleiki varðandi mjólkurlagni sem verið er að mæla að vori og hausti í vænleika lambanna á mismunandi tíma. 
 
Hvort sem um er að ræða mjólkurlagni ánna eða eigin vaxtarhraða lambanna þá reiknum við með að þetta skili sér í vænni lömbum. Svör markaðarins eða sláturleyfishafa hér á landi hafa aftur á móti ávallt verið óljós um hvaða áherslur eigi að leggja um vænleika lambanna. Svarið við auknum vexti lambanna en óbreyttum meðalfallþunga getur þá falist í að ná að slátra dilkunum yngri en almenn gerist nú. Með því erum við mögulega líka að breyta gæðaþáttum hjá kjötinu sem lömbin skila. Einnig sýnist mér ljóst að við framleiðsluaðstæður hér á landi þá munu menn vilja halda sig við sláturaldur á bilinu 120–150 daga hjá lömbunum. Hér getur að sjálfsögðu breytingar í burðar- og sláturtíma einnig komið til sem hliðrunarþættir. 
 
Þessi atriði sem hér eru nefnd sýna að fjölmarga þætti er ástæða fyrir okkur að skoða betur og skilgreina nákvæmar en við höfum gert. 
 
Eftir stendur að ræktunarmöguleikarnir eru áfram miklir. Val ásetningslambanna verður aldrei vandað um of, sérstaklega ásetningshrútanna. 
 
Hugleiddu aðeins þau atriði sem ég ræði um breytilegar ræktunaráherslur á milli búa og metið hvað eigi best við í þínu tilviki. 
 
Notið sömu hjálpartæki og skilað hafa ykkur mestu. Handfjötlun lambanna, stigun og ómsjármælingar þeirra sem koma til greina sem ásetningslömb. Síðan þurfið þið að nota miklu betur en almennt er þá gullkistu sem Fjárvís getur verið í þessu sambandi. Þar finnið þið kynbótamat eða kynbótaspá allra gripa og einnig í haustbókinni. Með því notendavæna umhverfi sem Eyjólfur Bjarnason hefur haft forystu um að þróa fyrir ykkur á síðustu misserum í Fjárvís hafa ykkur verið skapaðir möguleikar til að skoða hvern grip frá mörgum mismunandi hliðum. 
 
Vönduð og skipuleg vinnubrögð við val ásetningslambanna munu ávallt skila sér í betri og meiri afurðum á búinu á komandi árum. 
 
Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir
Skoðun 12. desember 2024

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir

Kvenfélag Akrahrepps var stofnað 20. desember 1919 af bjartsýnum stórhuga konum.

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það
Skoðun 9. desember 2024

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það

Ég fletti Bændablaðinu eins og venjulega. Þar er síðustu misserin mikið skrifað ...

Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...