Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Viðurkenningin Sproti ársins er veitt ungu fyrirtæki sem hefur skapað eftirtektarverða nýjung í ferðaþjónustu á Norðurlandi. Það fyrirtæki sem fékk verðlaunin í ár er Bjórböðin sem komu með hvelli inn í ferðaþjónustu fyrr á þessu ári.
Viðurkenningin Sproti ársins er veitt ungu fyrirtæki sem hefur skapað eftirtektarverða nýjung í ferðaþjónustu á Norðurlandi. Það fyrirtæki sem fékk verðlaunin í ár er Bjórböðin sem komu með hvelli inn í ferðaþjónustu fyrr á þessu ári.
Mynd / Rögnvaldur Már Helgason/Markaðsskrifstofa Norðurlands
Líf&Starf 29. nóvember 2017

Bjórböðin, Gauksmýri og Ólöf í Vogafjósi hlutu viðurkenningar

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Uppskeruhátíð ferða­þjón­ustunnar á Norðurlandi fór fram í Mývatnssveit nýverið og tókst í alla staði ákaflega vel. 
 
Mývetningar tóku vel á móti sínum kollegum í ferðaþjónustu og farið var í heimsóknir í ýmis fyrirtæki á svæðinu, áður en boðið var upp á kvöldmat og skemmtun í Skjólbrekku. 
 
Venju samkvæmt voru þrjár viðurkenningar veittar, Sproti ársins, Fyrirtæki ársins og viðurkenning fyrir störf í þágu ferðaþjónustunnar. 
 
Bjórböðin Sproti ársins
 
Viðurkenningin Sproti ársins er veitt ungu fyrirtæki sem hefur skapað eftirtektarverða nýjung í ferðaþjónustu á Norðurlandi. Að þessu sinni kom hún í hlut Bjórbaðanna á Árskógsströnd, en þau komu með hvelli inn í ferðaþjónustu fyrr á þessu ári.
 
Böðin voru opnuð í júní og vöktu strax mikla athygli bæði hérlendis sem erlendis. Reyndar hafði hugmyndin um byggingu baðanna vakið athygli löngu áður en ráðist var í framkvæmdir, enda slík böð ekki að finna hvar sem er í heiminum. Fyrirtækið kom því ekki aðeins nýtt inn á markaðinn, heldur kom það inn með glænýja upplifun.
 
Bjórböðin hafa skapað sér ákveðna sérstöðu í ferðaþjónustu og ferðaskrifstofur verið fljótar að taka við sér með því að bjóða upp á ferðir þar sem viðkoma í böðunum er innifalin. 
 
Ferðaþjónusta á Norðurlandi nýtur góðs af þessari nýjung þar sem þarna er komin eftirsóknarverð þjónusta sem önnur ferðaþjónustufyrirtæki geta nýtt sér. Það er reyndar ekki bara vegna sjálfra bjórbaðanna, heldur einnig veitingastaðarins og barsins sem hafa notið vinsælda. Fyrirtækið er þegar orðið mikilvægur hlekkur í uppbyggingu ferðaþjónustu á Norðurlandi.
 
Bjórböðin eru rekin af Ragnhildi Guðjónsdóttur, en hún og maðurinn hennar, bruggmeistarinn Sigurður Bragi Ólafsson, eiga fyrirtækið að stærstum hluta ásamt foreldrum Sigurðar, þeim Agnesi Önnu Sigurðardóttur og Ólafi Þresti Ólafssyni.
 
Gauksmýri er Fyrirtæki ársins
 
Viðurkenningin Fyrirtæki ársins er veitt fyrirtæki sem er búið að slíta barnsskónum og hefur skapað sér sterka stöðu á markaði, fyrirtæki sem hefur unnið að stöðugri uppbyggingu, vöruþróun og nýsköpun og er með höfuðstöðvar á Norðurlandi. Það fyrirtæki sem fær viðurkenninguna í ár er Gauksmýri.
 
Ferðaþjónustan á Gauksmýri er rótgróin og á sér sögu sem teygir sig aftur til síðustu aldar, því hún hófst árið 1999. Árið 2006 var þar opnað nýtt gistiheimili með 18 herbergjum, veitingasal og móttöku. Það voru hjónin Jóhann Albertsson og Sigríður Lárusdóttir sem stofnuðu fyrirtækið á sínum tíma, en Sigríður féll frá árið 2015. Í kjölfarið komu börn þeirra að rekstri fyrirtækisins, þau Hrund Jóhannesdóttir og maður hennar, Gunnar Páll Helgason, sem sjá um reksturinn að mestu leyti.
 
Hestamennska í fyrirrúmi
 
Gauksmýri snýst fyrst og fremst um hestamennsku og öll aðstaða á sveitabænum er til fyrirmyndar. Þar er reiðvöllur með glænýrri stúku sem var byggð í sumar, þar sem kostir íslenska hestsins eru tíundaðir og sýndir á sérstökum sýningum sem vel eru sóttar. Gestum er síðan boðið yfir í flotta aðstöðu í hesthúsinu, þar sem þeim gefst kostur á að kynnast hestunum betur.
 
Gauksmýri er mikilvægt fyrirtæki í ferðaþjónustu í Húnaþingi vestra, og hefur lagt sitt af mörkum og gott betur til að stuðla að bættri byggð. Gott dæmi um það er veitingastaðurinn Sjávarborg á Hvammstanga, sem er í eigu fyrirtækisins. Staðurinn var opnaður árið 2015 og hefur eflt bæði ferðaþjónustu á svæðinu sem og atvinnulífið almennt. Matseðillinn endurspeglar umhverfið vel og eins og nafnið gefur til kynna er áherslan lögð á sjávarfang.
 
Viðurkenning fyrir Störf í þágu ferðaþjónustu á Norðurlandi
 
Viðurkenninguna fyrir Störf í þágu ferðaþjónustu á Norðurlandi fær einstaklingur sem hefur haft góð áhrif á ferðaþjónustu á Norðurlandi í heild sinni og hefur starfað beint eða óbeint fyrir ferðaþjónustu á svæðinu. Ólöf Hallgrímsdóttir hlaut viðurkenninguna í ár, hún hefur undanfarin 18 ár sýnt og sannað að áhugi fólks á fjósum er ekki bara takmarkaður við mjólkurafurðir. Vogafjós í Mývatnssveit er nú með bestu veitingastöðum Norðurlands og þótt víðar væri leitað, og hefur haft mjög jákvæð áhrif á þróun ferðaþjónustu í landshlutanum.
 
Ólöf hefur verið brautryðjandi í ferðaþjónustu lengi og svo sannarlega farið sínar eigin leiðir. Hún var snemma byrjuð að selja mat úr héraði, rétti eins og hverabrauð með silungi úr Mývatnssveit, hangikjöt og heimagerðan mozzarella- og fetaost. Sú áhersla hefur skilað sér því  Vogafjós er eitt af þekktari kennileitunum í umhverfi ferðaþjónustu í Mývatnssveit og raunar á Norðurlandi öllu. Auðvitað hefur hin sérstaka samþætting landbúnaðar og veitingareksturs þar einnig áhrif. Hugmyndin, að selja inn á kaffihús til að fylgjast með mjólkun kúa hefur eflaust þótt nokkuð galin á sínum tíma en hún hefur engu að síður slegið í gegn.
 
Gott fordæmi með þjónustu allt árið
 
Það segir nokkuð um hve einstök hugmyndin um Vogafjós er að árið 2003 sá Vegagerðin sér ekki annað fært en að búa til sérstakt skilti fyrir ferðamannafjós, en þá var Vogafjós eini staðurinn á landinu þar sem hægt var að fylgjast með því sem fram fer í fjósi. Slík fjós voru reyndar ekki alveg óþekkt og höfðu bændur opnað fjósin fyrir ferðamönnum bæði í Eyjafirði og Laugarbakka undir Ingólfsfjalli. Í Vogafjósi var hins vegar, og er enn, hægt að fylgjast með mjöltum í gegnum gler og slíkt þótti þá nýstárlegt og snjallt. 
 
Ólöf hefur sýnt af sér einstaka þrautseigju í baráttunni fyrir framleiðslu og sölu á mat beint frá býli. Hún hefur rutt brautina fyrir marga og sýnt fram á að með skýrri framtíðarsýn og stefnu má ná frábærum árangri. Hún hefur einnig sýnt gott fordæmi með því að veita þjónustu allt árið og þannig aukið viðskipti við ferðamenn á Norðurlandi auk þess að efla möguleika annarra fyrirtækja á heilsárs starfsemi. 
Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....