Dýrmæt samvinna
Þórdís Halldórsdóttir bóndi kynnir lesendum búskap sinn á Ytri-Hofdölum í Skagafirði.
„Foreldrar mínir, Halldór Jónasson og Halldóra Lilja Þórarinsdóttir, kaupa jörðina vorið 1986, flytja þá úr Svarfaðardalnum og hafa búið hér óslitið síðan. Við erum þrjú systkinin, Þórarinn, Bjarki og Þórdís. Ég og elsti bróðirinn, Þórarinn, eigum orðið reksturinn á Ytri-Hofdölum. Foreldrar mínir og Þórarinn búa í öðru íbúðarhúsinu á jörðinni og ég í hinu ásamt mínum manni, Herberti Hjálmarssyni, og tveimur börnum. Herbert er sjálfstætt starfandi húsasmíðameistari, en aðstoðar okkur í búskapnum þegar þess þarf. Bjarki, miðjubróðirinn, sér svo um að vinna á vélaúthaldi sem við eigum, sem er grafa, jarðýta og snjómokstursúthald. Búskapurinn hefur vaxið og dafnað síðan foreldrar mínir fluttu hingað fyrir tæpum fjörutíu árum, en m.a. hefur bústofninn stækkað í allar áttir. Ég sest að hér og fer inn í búskapinn í og með frá 2012.“
Býli, staðsetning og stærð jarðar? Býlið er Ytri- Hofdalir í Skagafirði.
Ábúendur, fjölskyldustærð og gæludýr? Halldór Jónasson og Halldóra Lilja Þórarinsdóttir, Þórarinn Halldórsson, Þórdís Halldórsdóttir, Herbert Hjálmarsson, Hjálmar Herbertsson, sex ára og Iðunn Ýr Herbertsdóttir, 9 mánaða. Á bænum er einn gamall köttur en til stendur að hún fái félagsskap tveggja kettinga sem eru væntanlegir. Tveir Border Collie hundar eru svo til að halda öllu á sínum stað. Á bænum búa sumsé sjö manns í tveimur húsum, sem er mjög hentugt á löngum vinnudögum – að hægt sé að hlaupa inn til ömmu, eða afinn bjargi til við fjósverkin, létti undir eða hlaupi í skarðið.
Gerð bús og fjöldi búfjár? Á Ytri-Hofdölum er blandaður búskapur, 31 árskýr í básafjósi með rörmjaltakerfi. Nautgripir, uppeldi á bæði kvígum og svo nautaeldi. 200 kindur og svo rétt tæplega 30 hross sem er blanda af folaldsmerum og reiðhrossum.
Hvers vegna velur þú þessa búgrein? Ástæðan fyrir þessu vali er alls konar, áhugi á alls konar ræktun er aðallega svarið og áhugi á dýrum og búskap almennt.
Hvernig gengur hefðbundinn vinnudagur fyrir sig á bænum? Dagarnir byrja og enda á mjöltum og gjöfum. Síðan er mjög mismunandi hvað hver dagur ber í skauti sér og verkefnin eru ýmis og mismunandi eftir árstíðum.
Skemmtilegustu/leiðinlegustu bústörfin? Skemmtilegustu bústörfin eru þegar fæðist fallegur gripur, hvort sem það er kálfur sem er fallegur á litinn og er kvíga – sem er alltaf plús, eða þegar koma skrautleg og vel gerð lömb í heiminn.
Leiðilegustu bústörfin eru að þurfa að fella veika gripi eða þegar ekki tekst af einhverjum ástæðum að ná afkvæmunum lifandi í heiminn.
Hvað er það jákvæða við að vera bóndi? Það jákvæða við að vera bóndi er tengingin við dýrin, náttúruna og lífið. Enginn dagur er alveg eins, fjölbreytnin er mikil og þótt vinnan sé mikil þá er þetta skemmtilegt í flestum tilfellum og ákveðin forréttindi að vinna við það sem manni finnst skemmtilegt og hefur áhuga á.
Hvernig væri hægt að gera búskapinn ykkar hagkvæmari? Búskapinn er tvímælalaust hægt að gera hagkvæmari með tæknivæðingum á borð við nýtt fjós sem er í bígerð. Þegar að kyngreint sæði í nautgriparæktinni hefur verið innleitt er hægt að ná góðri hagræðingu í framleiðslunni þar.
Hvernig sjáið þið landbúnað á Íslandi þróast næstu árin? Landbúnaður þróast vonandi næstu árin til meiri stöðugleika, sem er kannski bjartsýni, en vonandi verða íslenskar vörur og erlendar vörur betur aðskildar á markaðinum fyrir neytendur.
Eftirminnilegasta atvikið við bústörfin? Fyrstu viðurkenningarnar sem við fengum fyrir afurðirnar okkar bæði í sauðfjárræktinni og mjólkurframleiðslunni.
Instagram-síða:@hofdaladisa