Hallkelsstaðahlíð
Sigrún Ólafsdóttir og Skúli Lárus Skúlason búa í Hallkelsstaðahlíð í Hnappadal. Þar reka þau sauðfjár- og hrossaræktarbú, en Sigrún er fædd og uppalin á bænum.
Býli: Hallkelsstaðahlíð í Hnappadal.
Staðsett í sveit: Gamla Kolbeinsstaðahreppi, nú Borgarbyggð.
Ábúendur: Sigrún Ólafsdóttir og Skúli Lárus Skúlason. Guðmundur Margeir Skúlason, sonur þeirra og unnusta hans, Brá Atladóttir. Einnig búa í eldra húsinu móðursystkini Sigrúnar, Sveinbjörn og Anna Júlía.
Sigrún er fædd og uppalin í Hallkelsstaðahlíð en móðurfólk hennar hefur búið í Hallkelsstaðahlíð um langa hríð. Sigrún og Skúli flytja að Hallkelsstaðahlíð árið 1992 og hefja búskap fyrst í félagi við móðurfólk hennar en taka síðan fljótlega alveg við búrekstrinum.
Guðmundur Margeir og Brá eru nú komin í búreksturinn með þeim.
Í Hallkelsstaðahlíð hefur í marga áratugi verið rekið stórt sauðfjárbú en auk þess voru kýr til ársins 2000. Hrossarækt hefur verið stunduð í a.m.k. 40 ár.
Við erum með heimasíðuna www.hallkelsstadahlid.is, þar er hægt að fylgjast með.
Fjölskyldustærð (og gæludýra): Sjá hér fyrir ofan.
Snotra, íslenskur fjárhundur, Ófeigur og Ponsa, skoskir fjárhundar. Yfirmeindýraeyðir er svo Lubbi ofurköttur, sem nýtur aðstoðar félaga sinna af sama kynstofni.
Stærð jarðar? Eitthvað á fjórða þúsund hektarar.
Gerð bús? Sauðfjár- og hrossaræktarbú. Auk þess er rekin hestamiðstöð sem býður upp á reiðkennslu, tamningar og alla almenna þjónustu við hestamenn.
Á þessu ári var tekin í notkun ný reiðhöll sem stór bætir alla aðstöðu við kennslu, tamningar og þjálfun.
Sigrún og Skúli hafa rekið tamningastöð frá árinu 1992 og kom Guðmundur Margeir inn í þá starfsemi um leið og hann hafði aldur til. Hann er nú menntaður reiðkennari og tamningamaður frá Háskólanum á Hólum. Brá er búfræðingur frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri og nemur nú hjúkrun.
Einnig erum við að fara af stað með ferðaþjónustu, gistingu í sumarhúsum og hestaleigu. Einnig höfum við um árabil selt veiðileyfi í Hlíðarvatn og boðið upp á tjaldstæði. En Hlíðarvatn er eitt af bestu bleikjuvötnum landsins.
Fjöldi búfjár og tegundir? Um 700 vetrarfóðraðar kindur og hross innan við 100. Hundar og kettir.
Hvernig gengur hefðbundinn vinnudagur fyrir sig á bænum? Yfir vetrartímann fer drjúgur tími í hirðingar og gjafir. Tamningar, þjálfun og kennsla tekur svo megin partinn af deginum.
Þau verkefni sem til falla í fjáhúsunum eru leyst eftir þörfum og í góðu samstarfi.
Yfir sumartímann er enginn dagur eins en flestir dagar bjóða upp á tamningar, heyskap og nánast hvað sem er. Lífið í sveitinni er fjölbreytt.
Skemmtilegustu/leiðinlegustu bústörfin? Hápunktarnir í sauðfjárbúskapnum eru sauðburður og réttir. En í hestamennskunni er það að sjálfsögðu þjálfun og síðast en ekki síst að snúast í kringum ræktunina. Para saman eitthvað spennandi og sjá útkomuna.
Leiðinlegu verkefnin eru svo fá að það tekur því ekki að muna eftir þeim. Tækla þau bara með jákvæðni þegar að þeim kemur.
Við erum samt hætt að sá kartöflum ...
Hvernig sjáið þið búskapinn fyrir ykkur á jörðinni eftir fimm ár? Vonandi sem blómlegastan. Við erum bjartsýn, annað er ekki í boði.
Hvaða skoðun hafið þið á félagsmálum bænda? Forustufólkið er að leggja sig fram en betur má ef duga skal. Við bændur þurfum að auka samstöðuna og standa með þeim sem kjörnir eru til forustu.
Forustan í öllum búgreinum þarf að vera sýnilegri og í meira sambandi við bændur.
Hvernig mun íslenskum landbúnaði vegna í framtíðinni? Ef að íslenskum bændum ber gæfa til að njóta stuðnings íslenskra neytenda eru þeim allir vegir færir. Einnig þarf að leggja höfuðáherslu á að bjóða erlendum gestum hágæða íslenskar landbúnaðarafurðir og gera það með stolti.
Hvar teljið þið að helstu tækifærin séu í útflutningi íslenskra búvara? Tækifærin eru víða og felast helst í því að kynna vöruna með áherslum á hreinleika og það hversu lítil lyfjanotkun er í íslenskum landbúnaði.
Þó svo að Ísland sé „stórasta“ land í heimi vita ekki allir af hreinleika búfjárstofna þar.
Hvað er alltaf til í ísskápnum? Mjólk, algjört ófremdarástand ef að hún er ekki til, smjör, lýsi og Bónus piparsósan.
Hver er vinsælasti maturinn á heimilinu? Léttreyktur lambahryggur og kindalundir berjast um fyrsta sætið. Sigrúnar sveitópitsa er svo skammt undan og laumast kannski fram úr.