Hluti nautgripanna fær að vera úti allan ársins hring.
Hluti nautgripanna fær að vera úti allan ársins hring.
Bóndinn 25. október 2024

Leigja jörð og rekstur

Nú kynnast lesendur búskapnum á Flugumýri í Blönduhlíð í Skagafirði og geta í kjölfarið fylgst með fjölskyldunni á Instagram-reikningi Bændablaðsins á næstu dögum.

Harpa Ósk Jóhannesdóttir og Helgi Fannar Gestsson tóku jörðina Flugumýri og búrekstur þar á leigu þann 1. ágúst 2023 og stefna að því að vera þar í þrjú ár til viðbótar. Þau eru bæði uppalin í landbúnaði. Harpa Ósk er fædd og uppalin á Herjólfsstöðum í Álftaveri þar sem stundaður er blandaður búskapur með sauðfé, kýr og hross. Helgi Fannar kemur frá Höskuldsstöðum í Blönduhlíð þar sem rekið er sauðfjárbú og tamningarstöð.

Hvenær hófu ábúendur búskap og hvers vegna? 1. ágúst 2023. Okkur dreymdi um að spreyta okkur í búskap og ala börnin okkar upp í sveit.

Fjölskyldan á góðri stundu.

Býli, gerð bús, staðsetning og stærð jarðar? Kúabú í mjólkurframleiðslu á Flugumýri í Blönduhlíð í Skagafirði. Árið 2021 var skipt út tveimur A2 Lely mjaltaþjónum og í staðinn komu tveir A5 Lely mjaltaþjónar. Kýrnar eru fóðraðar í Weeling 2x15. Uppeldis- aðstaðan í fjósinu ber ekki nema um 30 gripi svo við erum með gripi úti allt árið um kring (á bilinu 30–40 stk).

Þeir hafa hálmskýli til að liggja í og eru fóðraðir í rúllugrind. Flugumýri á 79 ha af ræktuðu landi en leigir tún til nytja á þrem jörðum sem eru samtals um 32 ha. Úthagi er mikill og skiptur niður í 13 misstór hólf, þrjú af þeim 25 ha eða stærri.

Ábúendur, fjölskyldustærð (og gæludýr)? Helgi Fannar Gestsson, búfræðingur og vélvirki, og Harpa Ósk Jóhannesdóttir, dýralæknir og doktorsnemi við LbhÍ. Börnin okkar eru tvö, þau Ægir Freyr, 5 ára, og Hugrún Ída, 9 mánaða. Að auki eigum við tvo Border Collie hunda, þau Ringó og Kötlu.

Fjöldi búfjár? Á Flugumýri eru 84 árskýr, 70 kvígur á öllum aldri og 5 nautkálfar. Að auki eigum við nokkur hross okkur til ánægju og matar (fjöldi hrossa er aldrei gefinn í Skagafirði).

Hvers vegna veljið þið þessa búgrein? Vegna þess að okkur bauðst tækifæri til þess að taka reksturinn á leigu svo við ákváðum að slá til. Við vildum sjá hvort þetta væri eitthvað sem okkur myndi hugnast til framtíðar, svona áður en við færum að leita okkur að kúajörð til kaups af einhverri alvöru.

Hvernig gengur hefðbundinn vinnudagur fyrir sig á bænum? Engir dagar eru alveg eins en allir eiga þeir það sameiginlegt að hefjast og enda á mjöltum og eftirliti gripa.

Skemmtilegustu/leiðinlegustu bústörfin? Leiðinlegast er þegar skítaróbótinn stoppar eða þegar aflífa þarf veika eða slasaða gripi. Skemmtilegast er að hleypa gripum út í góðu veðri og fóðrun gripa.

Hvað er það jákvæða við að vera bóndi? Að fá að vinna saman að því sem við höfum bæði brennandi áhuga fyrir og sjá árangur þeirrar vinnu. Einnig eru forréttindi að fylgjast með börnunum okkar blómstra í kringum náttúru og dýr.

Hverjar eru áskoranirnar? Að framleiða sem mesta mjólk á sem ódýrastan máta. Þar spila góð hey stóran þátt og þar með einnig áburðargjöf, tíðarfar, verkun og geymsla.

Nú í sumar tókum við af skarið og fórum í stæðuverkun í fyrsta skipti, það var mikið stress og áskorun en einnig mjög gaman.

Hvernig væri hægt að gera búskapinn ykkar hagkvæmari? Uppeldishús fyrir ungviði væri fjárfesting sem til lengri tíma myndi margborga sig. Eins má lengi gera betur í að auka afurðir eftir hvern grip.

Hvernig sjáið þið landbúnað á Íslandi þróast næstu árin? Það er í sjálfu sér ómögulegt að segja en við erum bjartsýn. Það er margt spennandi í kortunum með tilkomu aukinna rannsókna og tækniframfara. Þó þarf að gæta sérstaklega að innflutningi matvæla og stjórnvöld þurfa að styðja vel við íslenska bændur.

Eftirminnilegasta atvikið við bústörfin? Ætli það standi ekki upp úr þegar Helgi ákvað í morgunmjöltunum þann 20. janúar sl. að nú væri rétti tíminn til þess að skúra mjólkurhúsgólfið. Á meðan beið Harpa þess að komast á fæðingardeildina á Akureyri og var orðið óþarflega stutt á milli hríða þegar Helgi loksins skilaði sér inn úr morgunverkunum. Allt blessaðist þetta þó – sú stutta tolldi í móðurkviði á leiðinni á Akureyri og kom svo heim til að sjá mjólkurhúsgólfið nýskúrað.

Leigja jörð og rekstur
Bóndinn 25. október 2024

Leigja jörð og rekstur

Nú kynnast lesendur búskapnum á Flugumýri í Blönduhlíð í Skagafirði og geta í kj...

Sauðfé passleg stærð
Bóndinn 11. október 2024

Sauðfé passleg stærð

Hjónin Jón Atli Jónsson og Bryndís Karen Pálsdóttir reka sauðfjárbúið Gröf í Ska...

Blómlegt býli
Bóndinn 27. september 2024

Blómlegt býli

Freydís Gunnarsdóttir er tiltölulega nýtekin við rekstri Gróðrarstöðvarinnar Árt...

Göngur og góður reiðtúr
Bóndinn 13. september 2024

Göngur og góður reiðtúr

Á Fjöllum 2 í Kelduhverfi stunda Berglind Ýr Ingvarsdóttir og Jóhannes Guðmundss...

Farsæl gúrkutíð
Bóndinn 30. ágúst 2024

Farsæl gúrkutíð

Gúrkuplantan vex hratt á garðyrkjustöðinni Gufuhlíð í Biskupstungum en fjölskyld...

Endalaus verkefnalisti
Bóndinn 16. ágúst 2024

Endalaus verkefnalisti

Ofaldar hryðjuverkahænur, rótargrænmeti, ferðamenn og kindur þrífast vel á Þurra...

Svín og korn
Bóndinn 12. júlí 2024

Svín og korn

Bændurnir í Laxárdal stunda svína- og kornrækt en lesendur munu geta fylgst með ...

Góð samvinna
Bóndinn 28. júní 2024

Góð samvinna

Þau Eyjólfur Ingvi Bjarnason og Guðbjört Lóa Þorgríms- dóttir tóku við búinu Ásg...