Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Kanadísk-bandaríski bjórhópurinn frá Beer Lover Tours í Toronto í Kanada sem kom til Íslands í 7 daga ferð á síðasta ári.
Kanadísk-bandaríski bjórhópurinn frá Beer Lover Tours í Toronto í Kanada sem kom til Íslands í 7 daga ferð á síðasta ári.
Líf&Starf 22. febrúar 2017

Brugghúsamenning á Íslandi opnar á möguleika fyrir nýja afþreyingavöru

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
„Það hefur verið mikil gróska í bjórbruggi hér á landi undanfarin áratug, allt frá því Bruggsmiðjan var opnuð fyrir ríflega 10 árum á Árskógssandi. 
 
Síðan hafa tvö brugghús tekið til starfa við Tröllaskagann, Gæðingur í Skagafirði og Segull 67 á Siglufirði, auk þess sem hið rótgróna Viking brugghús á Akureyri hóf framleiðslu á Einstök bjór í viðbót við aðrar framleiðsluvörur undir merkjum Viking,“ segir Karl Jónsson, framkvæmdastjóri hjá ferðaþjónustufyrirtækinu Lamb inn á Öngulsstöðum í Eyjafjarðarsveit. Ferðaskrifstofan Lamb inn Travel var stofnuð árið 2014 í þeim tilgangi að selja pakkaferðir á norðanverðu landinu. Nýjasta afurðin er sala á svonefndum bjórferðum á Norðurlandi, þar sem þemað er bjórsmakk í þeim brugghúsum sem finn má í landshlutanum.
 
Hugmyndin kviknaði með góðu „gúggli“
 
„Eiginlega má segja að hugmyndin hafi kviknað með góðu „gúggli“ eins og svo margt, en ég hef undanfarin tvö ár verið í svolítilli rannsóknarvinnu og skoðað bjórferðamennsku sérstaklega. Ég komst að því að með því að blanda saman dæmigerðum íslenskum náttúruskoðunarferðum og bjórsmakki væri hægt að útbúa einstaka vöru og nú munum við láta á það reyna hvernig til tekst,“ segir Karl. Hann sendi fyrirspurnir til nokkurra bjórferðaskrifstofa árið 2015 og kynnti þá möguleika sem fyrir hendi voru og fékk strax jákvæð viðbrögð frá bjórferðaskipuleggjanda í Toronto í Kanada, Beer Lovers Tour, sem er í eigu Olivers og Lindu Dawson. 
 
„Við settum saman til reynslu eina ferð í fyrra og var almenn ánægja með hana, þátttakendur voru mjög jákvæðir. Kanadíski hópurinn dvaldi hér á landi í viku og heimsótti m.a. bjórhátíðina á Hólum í Hjaltadal, sem Bjórsetur Íslands heldur árlega. Nú hefur annar hópur bókað komu sína og var einum degi bætt við ferðalagið og verður hann nýttur í skoðunarferð um Borgarfjörð, m.a. með viðkomu í brugghúsinu á Steðja.
 
Bjórferðamennska meiri en fólk gerir sér grein fyrir
 
 „Bjórferðamennska í heiminum er mun meiri en fólk almennt gerir sér grein fyrir, það eru hópar á ferð og flugi yfir Atlantshafið til að upplifa bjór og bjórmenningu í öðrum löndum. Sú mikla þróun sem orðið hefur í brugghúsamenningu á Íslandi hefur vakið athygli erlendra ferðamanna og opnað á þann möguleika að þessi tegund af ferðamennsku geti þrifist hér á landi og jafnvel komið sterk inn á afþreyingamarkaðinn sem ný vara,“ segir Karl. Ferðirnar eru í grunninn dæmigerðar náttúruskoðunarferðir um Ísland en með þessu bjórþema.
 
Lengsta ferðin sem verður í boði er 10 tíma ferð þar sem allur Tröllaskagahringurinn verður tekinn með bjórsmakki fjögurra brugghúsa og heimsókn á Bjórsetur Íslands á Hólum. „Þetta er spennandi ferð um Tröllaskagann. En hún er löng og frekar dýr og verður bara í boði sem sérferð fyrir hópa sem panta hana sérstaklega.“
 
Coast Line Beer Tour
 
Stærsta dagsferðin er svokölluð Coast Line Beer Tour. Þar er farið upp og niður ströndina Eyjafjarðarmegin. Komið er við hjá nýju brugghúsi á Siglufirði, Segli 67, þar sem tekið er á móti hópum í gömlu frystihúsi. 
 
„Það eitt að verið sé að endurnýta frystihús vekur strax áhuga þátttakenda, en húsið á sér langa sögu í öðrum atvinnurekstri.“ Fyrirtækið er yngsta svonefnda craft-brugghúsið hér á landi, en fyrstu framleiðsluvörur þess komu á markað í desember árið 2015. Bruggsmiðjan á Árskógssandi er elsta brugghúsið í hópnum, átti 10 ára afmæli á liðnu ári. Þar er verið að reisa svonefnd bjórböð þar sem bjór og efni til bjórgerðar eru notuð til að endurnæra húðina. Stór pottur verður utandyra fyrir hópa auk þess sem hægt verður að fara ofan í einkapotta inni. Veitingastaður verður einnig á staðnum þar sem þátttakendum gefst kostur á að snæða hádegisverð. „Við eigum frekar von á því að þetta verði vinsælasta ferðin okkar, enda hefur hún upp á margt að bjóða,“ segir Karl
 
Ferðin heldur svo áfram inn eftir Eyjafirði og komið við í gömlu síldarverksmiðjunum á Hjalteyri þar sem þátttakendur smakka á afurðum Viking/Einstök brugghúss. Hluti af síldarverksmiðjunum gegnir nú hlutverki listasmiðju og gallerís. 
 
„Það eykur enn á upplifun ferðamanna að koma við á þessum stað, í gróskumikið og skapandi umhverfi,“ segir Karl.
 
Gamli bærinn á Öngulsstöðum og veitingastaðurinn Lamb inn gegna einnig hlutverki í bjórþemaferðunum, en í boði er gönguferð þar sem í boði er bjórsmakk í Gamla bænum og að því loknu snæddur kvöldverður á veitingastaðnum. Þriðja ferðin sem í boði er felst í heimsókn í Gamla bæinn og máltíð hjá Lamb inn. 
 
Leikum okkur með fleiri hugmyndir
 
„Við vinnum þessar ferðir í nánu samstarfi við brugghúsin sem tekið hafa þessari nýjung í ferðaþjónustu á svæðinu fagnandi. Við erum að leika okkur með ýmsar fleiri hugmyndir sem ef til vill gætu orðið að veruleika síðar á árinu,“ segir Karl, en eitt af því sem til stendur er að efna til málþings um bjórbruggun og bjórmenningu á Norðurlandi og efna til bjórhátíðar þar sem brugghúsin koma vörum sínum á framfæri á eigin forsendum.
 
„Það á þó allt eftir að koma í ljós hvort af verður,“ segir Karl.
Lamb inn hefur alla tíð gert brugghúsunum á svæðinu hátt undir höfði og ætlunin að gera enn betur í þeim efnum á komandi sumri. „Okkar erlendu gestum þykir merkilegt að í nágrenni við okkur séu starfandi fjögur brugghús sem hvert og eitt framleiðir hágæða vöru úr íslensku vatni, sem er undirstaðan í þeirra góðu framleiðslu.“
 
Lengri ferðir á teikniborðinu
 
Karl er nú í sambandi við bandaríska bjórferðaskrifstofu sem hefur áhuga á að efna til bjórferðar til Íslands og segir Karl að með beinu flugi Flugfélags Íslands frá Keflavíkurflugvelli til Akureyrar, sem senn verður í boði, opnist sá möguleiki að ferðamenn geti ferðast beint norður, stoppað þar í nokkra daga og þá m.a. notið þeirrar bjórþematengdu starfsemi sem finna má á svæðinu en haldið að því loknu aftur suður til Keflavíkur.
 
„Við munum áfram vinna í vöruþróun á okkar dagsferðum og að auka og efla samvinnu við brugghúsin á svæðinu með margvísleg verkefni. Þar sem góð reynsla er komin á margra daga bjórferðir okkar á ég von á því að við sækjum fram á mörkuðum þar úti um allan heim,“ segir Karl að lokum. 

6 myndir:

Skylt efni: Lamb Inn Travel

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði
Líf&Starf 16. mars 2022

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði

Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði frumsýndi leikritið „Ekki um ykkur” eftir Gun...