Fislétt húfa í göngutúrinn
Þessari er gott að stinga í vasann þegar það verður of heitt í veðri
Húfan Heiða
Stærð: M – L
Efni: Einfaldur Þingborgarlopi 40 gr.
Prjónastærð: Hringprjónn 40 sm langur nr. 3.5 og 5.5
Húfan er prjónuð í hring, garðaprjón, ein umf. slétt og ein brugðin.
Svo er líka hægt að prjóna hana fram og til baka, þá þarf ekki að prjóna brugðnar lykkjur, en í staðinn þarf að sauma hana saman að loknu prjóni.
Húfan:
Fitjið upp 88 lykkjur á prjón nr 3.5. Prjónið 11 sm. Skiptið yfir á prjón nr 5.5 og prjónið u.þ.b. 9-10 sm.
Þá byrjar úrtaka.
Prjónið 9 lykkjur, prjónið 2 lykkjur saman. Endurtakið út umferðina, alls er tekið úr 8 X á hringnum.
Gott er að merkja þar sem úrtakan er. Takið úr í annarri hverri umf. þar til 16 lykkjur eru eftir á prjóninum, takið þær saman í kollinn og gangið frá endum.
Þvoið húfuna í höndunum við 30 °C með mildu þvottaefni eða sjampói og leggið til þerris.