Einstakur sexhyrndur lambhrútur
Það er náttúrulegast að sauðfé hafi ekkert, tvö eða fjögur horn. Stundum heyrast fréttir af þrem eða fimm hornum og einstöku sinnum skýtur upp sögu af einu horni. En sex horn er trúlegast einsdæmi.
Páll Imsland er mikill áhugamaður um liti og aðra breytileika í íslensku búfé. Hann segist hvorki hafa séð né heyrt um sexhyrndan hrút fyrr en í Reykjaréttum á Skeiðum nú í haust. Þar var sexhyrndur lambhrútur svartgolsubotnóttur, sem hefur hlotið nafnið Sexi og er frá Ósabakka og ræktaður af Jökli Helgasyni. Um þetta segir Páll:
„Það er náttúrulegast að hornafjöldinn standi á pari vegna þess að sauðkindin er, eins og flest æðri dýr, tvíhliða byggð, „bilateral“, eins og það kallast í dýrafræðinni. Það merkir að báðir helmingar dýrsins séu eins gerðir, speglist samhverft um miðflöt. Þess vegna eru eitt, þrjú eða fimm horn eiginlega útilokuð og koma ekki fyrir nema sem einhvers konar vanskapnaður eða afbrigði. Algengast er líklega að þau komi fyrir sem afbrigði í svokallaðri klashyrningu.
Klashyrnt kallast það þegar horn eru samvaxin að hluta eða öllu leyti. Þannig mátti á mynd sem birtist fyrir ekki svo ýkja löngu (einu ári eða tveim) sjá einhyrndan hrút að því er virtist. Hornið var í raun tvö samvaxin horn. Hann var klashyrndur tvíhyrningur. Hornin stóðu svo þétt út úr höfuðkúpunni að þau klösuðust. Þríhyrnt getur líka komið fyrir vegna þess að tvö horn eru samvaxin og þá lítur fljótt á litið út eins og um eitt horn sé að ræða og framkallast þannig stök tala. Þá er í raun um að ræða ferhyrnda kind sem er klashyrnd öðrum megin en stakhyrnd hinum megin,“ segir Páll.
Sexi á húsi þurr og vær.
Sexhyrndur Sexi
„Sexi er hins vegar sexhyrndur og því ekki að brjóta regluna um speglun helminganna, þess hægri og vinstri, enda hornin þrjú á hvorri hlið. Hornin eru að nokkru leyti samvaxin, þ.e.a.s. hann er að hluta til klashyrndur. Það eru takmörk fyrir því hversu höfuðplássið leyfir mörg horn og þegar þrengist um þau er náttúrulegt að þau myndi klasa. Sexi er af ferhyrndu kyni en á í nærættum kollótta, tvíhyrnda og ferhynda forfeður í flókinni fléttu, eins og sjá má af meðfylgjandi ættartölu.“
Líka með sjaldgæft litmynstur
Sexi ber auk þess sjaldgæft litmynstur. Hann er svartur að grunnlit, en ber bæði golsótt og botnótt mynstur, er svartgolsubotnóttur. Hann er ekki lamb af einhverri ónytjugerð, því hann er stigaður upp á 84 stig. Hann hefur verið settur á og mun líklega fá að spreyta sig við fjölgun fjárins á Ósabakka með nokkrum ám um jólin. Gaman verður að sjá hvað kemur út úr því, ekki síst hvað varðar hornagerð og fjölda horna,“ segir Páll.
Sexi er frá bænum Ósabakka og er ræktaður af Jökli Helgasyni.
Sexi, hausinn séður aftan frá.
Ættartala Sexa
Sexi Ósabakka 2021, svartgolsubotnóttur, sexhyrndur með 84 stig.
- F: Oddur Ósabakka 2020, svartgolsóttur, ferhyrndur
- FF: Hálfur Ósabakka 2019, hvítur, ferukollóttur
- FFF: Kollur Árbæ 2015, hvítur, kollóttur
- FFM: Hæra Ósabakka 2009, svartgolsótt, ferhyrnd með brúsk
- FM: Punta Ósabakka 2015, svartbotnótt, ferukollótt
- FMF: Töffi Ósabakka 2014, svartgolsóttur, ferhyrndur
- FMM: Smart Ósabakka 2010, svartflekkótt, kollótt
- M: Undra Ósabakka 2019, svartgolsubotnótt, tvíhyrnd
- MF: NN fæddur 2016, svartbotnóttur, tvíhyrndur
- MFF: Drífandi Hesti 2011, svartur, tvíhyrndur
- MFM: NN fædd 2012, svartbotnótt, tvíhyrnd
- MM: Klumsa Ósabakka 2014, morgolsótt, ferhyrnd
- MMF: Höttur Ósabakka 2010, morarnhöfðóttur, tvíhyrndur
- MMM: Geit Ósabakka 2011, svartgolsótt, ferhyrnd
Samhverf hornaröð. Ferhyrndur hrútur, svartgolsóttur.