Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Erla Jónsdóttir við plöntun trjáa á góðum degi.
Erla Jónsdóttir við plöntun trjáa á góðum degi.
Líf og starf 31. maí 2021

Þar sem glyttir í gróna meli morgundagsins

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Erla Jónsdóttir, rekstrarfræðingur og bóndi með meiru, býr ásamt fjölskyldu sinni á samliggjandi jörðum, Kambakoti og Hafursstöðum í Skagabyggð, en auk þess að framleiða afurðir úr folalda-, lamba- og ærkjöti eru þau skógræktarbændur, kolefnisjafna þannig alla sína framleiðslu og selja að hluta, beint undir nafninu Grilllausnir. Enn fremur rekur Erla bókhalds- og ráðgjafarfyrirtækið Lausnamið á Skagaströnd. Við lögðum land undir fót og tókum Erlu tali.

Aðspurð segir Erla að meðfram skógræktinni séu þau náttúrlega í landgræðslu líka.
„Við eigum gífurlega mikið land, báðar jarðirnar Hafursstaði og Kambakot. Upphaflega var ákveðið að fara í skógræktina með það fyrir augum að fá börnin okkar í „unglingavinnu“ þegar þar að kæmi – því þegar maður býr í svona litlu sveitarfélagi er í raun engin unglingavinna. Þá var fínt að fara í þetta, gera ljótu melana fallegri og búa til verkefni þar sem þau gætu farið í vinnu niður á mel. Þessi hugsjón klúðraðist þó því miður, þar sem dóttir okkar greindist með frjókornaofnæmi.

En þá kom þessi mikla umræða um að nú vildu allir kolefnisjafna allt, kolefnisjafnað lambakjöt var það sem „allir myndu vilja“ og með það í huga ákváðum við bara að grípa tækifærið. Skógræktin var til staðar, við vorum að græða upp mela og í kjölfarið fékk ég Stefán Gíslason, stofnanda og eiganda UMÍS ehf., til að staðfesta kolefnisjöfnun framleiðslunnar með það fyrir augum að athuga hvernig neytendur tækju við,“ segir Erla. „Framleiðsluna okkar, sem má finna undir merkinu Grilllausnir – Kambakoti, er því merkt kolefnisjöfnuð beint frá bónda.“

Undir merki Grilllausna

- Finnst þér almenningur taka vel við kolefnisjöfnuðu kjöti?
„Nei, ekki beint. Fólki er í raun alveg sama því það er frekar buddan sem ræður, það velur kannski frekar kjötið mitt af því það treystir þeim gæðum. En ég hef ekki gefist upp. Ég fékk smá styrk frá Markaðssjóði sauðfjárafurða í fyrra til þess að vinna með veitingastöðum, búa til steikur sem yrðu seldar sem kolefnisjafnaðar steikur fyrir þá betur borgandi markað. Það er nefnilega mun dýrara fyrir mig að vinna mitt kjöt ein, í heimavinnslu hérna í Vörusmiðju BioPol – heldur en kjötvinnslurnar ná að gera. En þetta eru stuttar leiðir hjá mér. Með því að vera svona rétt hjá vinnslunni getur fólk verið visst um að fá gott kjöt. Við t.d. smölum alltaf annaðhvort kvöldið eða morguninn áður, en féð fer í sláturhús og erum því ekki að svelta það fyrir slátrun sem ég tel mikilvægt upp á gæði kjötsins að gera.

Það er gaman að geta þess, þegar ég var að afhenda vörur í smáframleiðendabílinn um daginn, þá komu tveir og vildu fá kótilettur. Þeir lýstu því yfir að það væru bara ekkert sömu kótiletturnar frá smáframleiðanda og það sem keypt væri úti í búð, það væri bara svart og hvítt! Matgæðingar vita að það er munur. Þú getur betur treyst því að þú fáir alltaf gott kjöt hjá smáframleiðanda á meðan hinir, þessir stóru, bara geta ekki tryggt sömu gæði.“

Eiginlega enginn kvóti

„Eins og staðan er þá erum við hjónin með rúmlega 300 kindur segir Erla, og aðeins rúmlega 100 ærgildi sem við keyptum nýlega – sem er bara kostnaður eins og er – þannig að við erum að auki í annarri vinnu. Ef við ætlum að þróa kjötvinnsluna eitthvað meira þá verðum við annaðhvort að taka okkur frí eða gera það í okkar frítíma því búið stendur engan veginn undir okkar framfærslu. Þannig að það er svolítið erfitt að vinna þetta upp. En ég fékk sem sagt styrkinn til að vinna þetta kolefnisjöfnunarverkefni mitt, fá staðfestinguna og í kjölfarið vinna með einhverjum veitingastöðum. En svo kom Covid og þá lokuðu allir veitingastaðir. Þeir hafa þó sýnt þessari hugmynd áhuga í kjölfar aukins fjölda erlendra ferðamanna og þegar hægt væri þá að hafa veitingahúsin meira opin. Eins og er eru því ekki komið á fullan skrið enn þá. Að auki hef ég ekkert haft tíma aflögu fyrir verkefnið en það breytist þó vonandi í sumar. Við eigum kjöt inni á sláturhúsi síðan sl. haust sem ég myndi vilja vinna, og ef það næst núna í sumar væri hægt að koma því til veitingahúsa.

Þeir gætu prófað að setja það á matseðilinn hjá sér og þá gætum við mögulega séð hver markaðurinn væri fyrir haustið –einna helst með komu ferðamanna sem eru vel borgandi allt árið og vilja oft bæta kolefnissporið sitt. Það ætti ekki að vera vandamál upp á að kanna hvort sé markaður fyrir kolefnisjafnað kjöt eða ekki. En það var líka pælingin – að fá borgað fyrir vinnuna og selja það því dýrara.

En ég finn þó að það er það sem fólki er efst í huga í dag – bara buddan þegar á hólminn er komið. Frá mínum bæjardyrum séð er samt heilmikill kostnaður við vinnuna sem liggur að baki. Við erum með 300 kinda bú, 35 hektara af skógi sem er verið að koma upp og erum með því að festa það land til næstu 40 ára. Auk þess er hellings land sem er friðað vegna uppgræðslu. Þannig að það er ekkert sjálfgefið að allir bændur, til dæmis þeir sem eru með 800 kinda bú, geti kolefnisjafnað sína framleiðslu! Þeir ættu þá að vera með um 80 hektara ætlaða skógrækt. Vinna við slíkt er ekki raunhæf held ég og landrými sjaldnast til staðar.“

- Nú kom fram á aðalfundi 2017 að áætlað sé að kolefnisjafna allt sauðfé sem fyrst. Telur þú það raunhæft? Fær fólk styrki almennt – til skógræktunar til dæmis?

„Ekki ef hver og einn bóndi á að gera þetta sjálfur. Í okkar tilfelli gerðum við samning við Norðurlandsskóga, þannig að við fáum plönturnar og eitthvað smávegis upp í vinnuna. En við fáum ekkert fyrir landið nema að sjálfsögðu kolefnisbindingu sem við ættum að geta ráðstafað og fallegra land. En þetta landsvæði er þinglýst undir skógrækt í 40 ár.

- Hvað telur þú bændur helst víla fyrir sér þegar kemur að kolefnisjöfnun?
„Enn og aftur bara landsvæðið. Að „fórna“ landinu í skógrækt, geta ekki notað það til annars, þurfa að viðhalda girðingum til að friða ræktunina ágangi og hafa samt beitiland fyrir sauðféð. Auðvitað væri ágætt ef allir bændur í sveitinni væru opnir fyrir samstarfi sín á milli. Að bóndinn sem vill ekki vera með kindur myndi þá kannski vera til í að kolefnisjafna granna sinn með því að vera með skóg eða landrækt.

Ég var einmitt að lesa nýju landbúnaðarstefnuna og þar er svolítið verið að tala um að ef þú vilt búa á jörðinni – að þá sé þér gert það kleift, ekki bara til þess að vera með sauðfé eða mjólkurframleiðslu. Ríkisvaldið þyrfti að komast að niðurstöðu um hvort það ætli að halda öllu landinu í byggð eða ekki. Og hvaða starfsemi eigi að vera hvar. Þannig varðandi sauðfjárræktina – það er í rauninni ekkert raunhæft að vera með sauðfjárrækt um allt land. Það vilja flestir að sauðfénu verði fækkað, en bara til þess að hægt sé að manna göngur og annað slíkt verður að hafa ákveðinn fjölda sauðfjárbænda til þess að sameinast um þau verkefni. Svo erum við með fjöllin hérna hjá okkur sem við getum ekkert endilega girt af, hver og einn bóndi fyrir sig. Ég sæi fyrir mér að það væru bara ákveðin svæði sem væru undir sauðfjárrækt og önnur sem væru ekki ætluð sauðfjárrækt,“ segir Erla.

Tók þátt í tilraunaverkefninu um heimaslátrun

- Þegar kemur að heimaslátrun, telur þú það komast undir hatt kolefnisjöfnunar?
„Já og nei, í rauninni ekkert endilega. Ég tók þátt í tilraunaverkefninu um heimaslátrun þegar það var, en ætla mér ekkert endilega að halda því áfram. Ég myndi frekar vilja að til væru færanleg sláturhús þar sem aðrir slátruðu fyrir mig þannig að ég gæti stýrt meðhöndluninni og fengið allt af skepnunni til minnar vinnslu. En klárlega, þar sem langt er í sláturhús, eins og t.d. á Vestfjörðum, þar gæti það opnað möguleika fyrir fólk að geta unnið sitt kjöt heima, í staðinn fyrir ferlið þar sem lömbin eru keyrð í sláturhús, skrokkarnir svo sóttir og keyrðir til baka. Það tel ég bara ekki geta gengið,“ segir Erla ákveðin.

- Þegar sem hæst lætur í umræðunni um kolefnisjöfnun sauðfjárbænda, gerir fólk sér almennt grein fyrir vinnunni sem stendur að baki?
„Ekki enn þá. Þeir eru fyrst núna í þessari landbúnaðarstefnu að benda á það. Að það væri rétt að taka á kvótakerfinu, eða breyta því, og veita þeim meira sem eru að kolefnisjafna. En það er ekkert í fyrsta skipti núna sem þetta kemur fram – að styðja eigi betur við þá sem fara vel með landið.

Við maðurinn minn keyptum jörðina 2007 og þá stuttu áður var umræða um hvort við myndum ekki kaupa kvóta. Mér leist ekki á þá hugmynd, að borga fyrir rétt til þess að fá áskrift á framlag frá ríkinu. Mér fannst hugmyndin „gæðastýring“ um að fá betur borgað fyrir það að ná góðum afurðum og huga vel að landinu mun áhugaverðari. Það hefur samt ekki orðið raunin en það skiptir rosa miklu máli í þessari kolefnisjöfnun að fá sem mest eftir hvert dýr, mér finnst það svolítið gleymast í umræðunni. Ærin prumpar árlega alveg jafn miklu gasi frá sér, hvort heldur sem hún skilar 25 kg eða 40 kg af kjöti.

En þeir sem áttu kvótann risu náttúrlega upp og vörðu sig. Því var svo lítið sem fór í gæðastýringuna, sem átti í rauninni að vera stjórntæki. Þú værir að fara vel með allt land og allt væri vel um hirt á jörðunum ... ég hef ekki séð það gerast. Ég held að allir séu að fá greitt, þeir sem fylla út rétta pappíra auk þess að skila inn í Fjárvís öllum upplýsingum. Ég hef að minnsta kosti ekki heyrt um neinn sem ekki fær gæðastýringarálag vegna ásýndar,“ segir Erla.

Ágangur gæsa og álfta á beitarlandi

- Samkvæmt GróLind er 39% af beitilandi Íslands metið í slæmu ástandi. Hvað finnst þér um það?
„Ég hef stundum verið að benda á það, eins og uppi á heiði, að það er alltaf verið að fásinnast yfir einhverjum rollum – en hvað gera gæsirnar og álftirnar? Þær taka allt upp með rótum. Kindurnar gera það ekki nema að þær séu nánast sveltar í einhverjum hólfum. Ef þannig stendur á geta þær farið að ganga mjög nærri landinu – sem þeim annars finnst ekki gott – þær nefnilega klippa bara ofan af stráunum á meðan fuglarnir rífa frekar allt upp og kafa helst niður eftir rótum á vorin. Þar verða skemmdirnar. Svo er áhugavert að líta til rofabarðanna sem sýnd eru í öllum umfjöllunum um sauðfé. Ég átti nú heima alveg niðri við sjó þar sem koma upp sandöldur enda landinu eðlislægt. Sandöldur myndast í ákveðna hæð þar til vindurinn sverfur þær til. Svo um leið og hefur myndast sár, stækkar það, þar til að búið er að éta alla ölduna – það þarf sko enga rollu til!

Fólk lítur oft hvorki til hægri né vinstri þegar það heldur að það sé að koma á framfæri einhverjum staðreyndum um skaðsemi sauðfjár. Bændur eru margir hverjir að gera vel í uppgræðslu og nýta til þess sjóði eins og Landbótasjóð og Bændur græða landið, sem við höfum tekið þátt í auk margra annarra bænda. Svo eru líka margir bændur að græða helling upp án þess að vera sérstakir þátttakendur í einhverjum verkefnum, gera það bara á eigin vegum, nýta úrgangshey og annað frá skepnunum. Það finnst mér oft gleymast líka í umræðunni,“ segir Erla Jónsdóttir að lokum.

Við þökkum Erlu greinargott og áhugavert spjall og sjáum frá bryggjunni á Skagaströnd glytta í melina á Hafursstöðum sem hún, ásamt fjölskyldu sinni hafa ræktað upp – ljósgræna á móti brúnum börðum náttúrunnar. 

Smáframleiðendur á ferðinni

Smáframleiðendur á Norðurlandi vestra og Vörusmiðja BioPol reka sölubíl smáframleiðenda sem býður upp á fjölbreyttar gæðavörur frá framleiðendum af Norðurlandi vestra. Vörusmiðja BioPol er staðsett í gamla frystihúsinu á Skagaströnd, hefur vinnsluleyfi frá Matvælastofnun og þar eru framleiðendur og frumkvöðlar velkomnir til að þróa og framleiða sínar vörur.

Í könnun sem Landssamtök sauðfjárbænda gerðu árið 2017 meðal bænda í greininni kom fram verulegur vilji til aðgerða sem stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Nær 90% íslenskra sauðfjárbænda hafa stundað uppgræðslu á búskaparferli sínum og vilja gera meira af því í framtíðinni. Um 60% vilja rækta skóg.

Nú, með skoðunum um gróðurvana landsvæði vegna ofbeitar og ágangs áa, þykir sumum tilvist hinnar frjálsu íslensku sauðkindar vera ógnað og mögulega sé búfé helsti sökudólgurinn. Beitarnýtingu landsins sé ábótavant og sé lausagöngufé víða að finna á afréttum þar sem ætti og þyrfti að endurheimta landgæðin all verulega með ræktun og landgræðslu.

Samkvæmt Unnsteini Snorra Snorrasyni, framkvæmdastjóra Landssamtaka sauðfjárbænda, í þættinum „Hvað getum við gert?“ telur hann ljóst að bændur vilji tvímælalaust fara í framkvæmdir til þess að endurheimta landgæði og hafa kallað eftir því að takast á við landgræðslu, þá sérstaklega með tilliti til loftslagsmála. Varðandi ástand landgæða eins og staðan er núna sé ekki hægt að leggja ábyrgðina á herðar sauðfjárbænda en þó geti þeir sannarlega verið hluti af lausninni. Kolefnisjöfnun er hátt á baugi.

Veitingastaðurinn Lamb Street Food er til húsa að Grandagarði í vesturhluta Reykjavíkur.

Street Food á íslenska vísu:

Hágæðahráefni og umhverfismeðvitund

Á Grandanum í vesturhluta Reykjavíkurborgar má finna veitingahúsið Lamb Street Food en það þykir í sérflokki þegar kemur að íslensku lambakjöti. Ásamt því að hafa getið sér gott orðspor, þau síðastliðin þrjú ár sem sem staðurinn hefur verið opinn, hefur verið lögð mikil áhersla á ábyrgð gagnvart umhverfinu. Lamb Street Food er plastlaus veitingastaður sem leggur mikið upp úr flokkun og hefur þá sérstöðu að versla einungis með innlent hráefni sem minnkar kolefnsissporið. Sagt er að vefjan „Túnrollan“ sé hvað vinsælasta máltíðin.

„Við erum komin inn á þennan svokallaða streetfood markað og þekkt fyrir góð gæði, en ég hef barist fyrir því að halda öllu á floti hérna síðasta árið með lokunum og öllu sem því fylgdi. Síðastliðið ár var mjög strembið en við náðum að halda opnu allan tímann. Við vorum ekki tilbúin í þennan slag með heimsendingarnar sem hafa þó þróast rólega núna síðustu mánuði,“ segir Rita Didriksen, eigandi staðarins.

- Telur þú flokkun skref sem allir veitingastaðir ættu að geta vanið sig á?
„Í raun er flokkunin eins auðveld og getur verið. Við höfum flokkað allt alveg frá byrjun, en það kemur til vegna þess að fyrir mörgum árum var ég við nám í Þýskalandi þar sem allt er flokkað enda sú þjóð langt á undan Íslendingum í þeim efnum. Þannig að hugsunarhátturinn varðandi það kom alveg sjálfkrafa þegar við vorum að setja veitingastaðinn á laggirnar. Við höfðum samband við Flokku og fengum í kjölfarið þrjár tegundir af tunnum til okkar auk þess sem gosumbúðir fara á sérstakan stað. Getur ekki verið einfaldara. Starfsmenn okkar flokka beint í stampa við frágang sem fer svo beint í tunnurnar þegar farið er út með ruslið. Lífræna poka fyrir lífrænt ... og þetta er eitthvað sem starfsfólkið er mjög meðvitað um að skipti máli.

Einnig pössum við upp á að elda helst ekki meira en okkur sýnist þurfa auk þess sem við höfum alltaf boðið gestum að taka heim með sér það sem þau geta ekki torgað af þeim mat sem þau kaupa hér á staðnum. Setja í öskjur og taka með heim. Ég er svo heppin að starfsfólkið mitt er ungt fólk sem hefur þessa sýn sjálft. Eru meðvituð um kolefnisspor heimsins og hvað hægt er að gera til að minnka þau. Flott að þessi meðvitund sé við lýði, þetta skiptir máli og er einfalt,“ segir Rita.

- Hvað finnst þér skipta máli þegar kemur að gæðum lambakjöts?
„Mér finnst skipta öllu máli hvaðan kjötið kemur. Þá með tilliti til upprunans; bóndinn, sagan þar, handverkið, virðingin og umhyggjan fyrir náttúrunni, ástríðan við það að rækta sitt kjöt. Mér finnst þetta skipta gríðarlega miklu máli og ég hef kallað eftir því alveg síðan ég byrjaði og er núna að skoða leiðir með að fá kannski söguna inn. Útlendingar elska þetta og Íslendingar eru í auknum mæli að kalla eftir þessu líka, fá kjöt frá þessum og þessum bónda, fá að vita upprunann. Á hvaða beitilöndum var dýrið, hve lengi var kjötið látið hanga, allt hefur þetta áhrif á gæðin og þá um leið áhrif á verðið. Mín reynsla er sú að fólk almennt staldrar við og ef gæðin eru mikil þá eru íslendingar sem aðrir tilbúnir að borga fyrir það. Ég held líka að vegna þess hve Ísland býr yfir hreinu vatni og hreinum jurtum og gróðri á beitilandinu sem skepnurnar eru á beit, það skilar sér í hágæða kjöti sem finnst ekki annars staðar í heiminum. Þessi meðvitund er að síast inn hjá Íslendingum, hve hollustan er dýrmæt.“

- Nú eruð þið meðvituð um flokkun, hvaða sýn hefurðu á matarsóun?
Það er hinn póllinn á þessu sem er mikilvægur. Við hjá Lamb Street Food vinnum með hágæða hráefni bæði í grænmeti og kjöti, auk brauðsins sem við bökum sjálf og höfum við frá upphafi lagt gríðarlega áherslu á að bera virðingu fyrir hráefninu. Ástríðuna í ferlinu á bak við bæði ræktun grænmetis og kjötið sem kemur frá bóndanum. Við reynum eins og við getum – og auðvitað getur það verið erfitt þegar lítið er að gera – en þá framleiðum við aðeins minna, höfum verið það lánsöm að allir sem hér vinna leggjast á eitt um að passa upp á sem minnsta matarsóun. Við erum öll ábyrg fyrir þessu. Meiri gæði og betur farið með hráefnið,“ segir Rita.

„Flokkun, matarsóun, að vera plastlaus, þetta helst allt einhvern veginn í hendur. Hjá mér var það þannig að móðir mín innrætti mér þetta allt frá barnæsku. Þessi gildi fylgja manni út í lífið og annað er bara ekki inni í myndinni. Sérstaklega eins og hefur verið í umræðunni undanfarið, ljósi varpað á þessa miklu sóun sem er til staðar í þjóðfélaginu og heiminum. Veitingahús bera þarna mikla ábyrgð og ég tel vitund varðandi þetta vera að aukast gríðarlega hjá fólki. Sérstaklega er ungt fólk meðvitað og lætur málefnin sig varða auk þess að vera dugleg að minna samfélagið á hvað hægt sé að gera. Oft skemmtileg, þeirra sýn á þessum málum og margar jákvæðar raddir á lofti hvað varðar framtíðina.

Annars vona ég bara að Íslendingar verði duglegir að fara út að borða í sumar,“ segir Rita brosandi, „njóta sumarsins og fá sér kannski eitthvað lítið og nett með lambaívafi ... íslenskur matur í bland við íslenskt sumar!“

Heimsent góðgæt í hæsta gæðaflokki

Lamb Street Food er eitt þeirra fyrirtækja sem eru í samstarfi við útkeyrsluþjónustuna Maul. Maul er fyrirtæki sem gerir starfsmönnum mismunandi vinnustaða, þá oft án mötuneyta, kleift að panta hádegismat víðs vegar að og fá sendan upp að dyrum. Þar til gerðir hitakassar halda matnum heitum þar til matast er.

Smyrill
Líf og starf 20. nóvember 2024

Smyrill

Smyrill er minnsti og jafnframt algengasti ránfuglinn á Íslandi. Hann er nokkuð ...

Róbóti í stuði
Líf og starf 19. nóvember 2024

Róbóti í stuði

Róbótar Internetsins verða betri og betri í bridds. Þeir eru reyndar oft slakir ...

Förum okkur hægar
Líf og starf 18. nóvember 2024

Förum okkur hægar

Mikið hefur verið fjallað um „fast fashion“ eða hraðtísku í fjölmiðlum sl. ár, þ...

Íslandsmót skákfélaga
Líf og starf 15. nóvember 2024

Íslandsmót skákfélaga

Árlega eru haldin tvö mjög fjölmenn skákmót á Íslandi, Íslandsmót skákfélaga og ...

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók
Líf og starf 13. nóvember 2024

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók

Út er komin ljósmyndabókin Á slóðum íslenskra hreindýra í fylgd með Skarphéðni G...

Nautaskankar
Líf og starf 13. nóvember 2024

Nautaskankar

Þverskornir nautaskankar, oft ranglega merktir sem Osso Buco, eru ekki oft í hil...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 11. nóvember 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn hefur sjaldan verið óþreyjufyllri en þarf að hægja á sér ef vel á að...

Metnaðarfullt umhverfi
Líf og starf 8. nóvember 2024

Metnaðarfullt umhverfi

Lífið á garðyrkjustöðinni Espiflöt í Reykholti er litríkt. Næstu daga geta lesen...