Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Árið 1962 var Hólmar Bragi Pálsson fenginn til að grafa lagnaskurð á fyrstu Massey Ferguson traktorsgröfu landsins úr Hvanneyrarskál ofan við Siglufjörð. Til þess að grafan myndi ekki hrapa niður hlíðina þurfti að festa í hana kapla sem tengdir voru við jarðýtu uppi í skálinni.
Árið 1962 var Hólmar Bragi Pálsson fenginn til að grafa lagnaskurð á fyrstu Massey Ferguson traktorsgröfu landsins úr Hvanneyrarskál ofan við Siglufjörð. Til þess að grafan myndi ekki hrapa niður hlíðina þurfti að festa í hana kapla sem tengdir voru við jarðýtu uppi í skálinni.
Líf og starf 3. febrúar 2023

Við skurðgröft í snarbrattri hlíð

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Hólmar Bragi Pálsson, áður búsettur á Minni-Borg í Grímsnesi en nú á Selfossi, vann árið 1962 á Massey Ferguson 702, sem var fyrsta traktorsgrafan sem kom til landsins frá þessum framleiðanda.

Þessi vél var frumsýnd á skeiðvellinum í Víðidal í byrjun júní árið 1961 og vakti þar mikla athygli. Á þessum árum voru gröfur með vökvakerfi ekki búnar að ná almennri dreifingu og var þetta því ný tækni.

Verktakafyrirtækið Fjöliðjan í Kópavogi var fyrsti eigandi þessarar traktorsgröfu og vann Hólmar á vélinni þegar hann var starfsmaður þeirra. Helstu verkefni hans sumarið 1962 var vinna við endurbætur á símalögnum Landsímans á ýmsum stöðum, allt frá Borgarfirði norður á Siglufjörð. Þá var Hólmar 22 ára.

Húsið á vélinni var tvískipt. Að framan settu eigendurnir ökumannshús af veghefli og að aftan var örlítið hús sem setið var í þegar unnið var á bakkóinu. Þegar Hólmar var einn á gröfunni þá þurfti hann að hlaupa á milli húsanna tveggja í hvert skipti sem hann færði vélina. „Síminn setti þau skilyrði að það væru strákar með mér – þeim gekk ekkert mjög vel að grafa, en það var ógurlegur flýtir af því að þeir væru frammi í vélinni,“ segir Hólmar, en þeir gátu þá séð um að færa vélina á meðan hann sat við bakkóið.

Misjafnt var hvernig Hólmar fór á milli svæða. Ef um stuttan veg var að fara, þá keyrði hann gröfuna – annars var vörubíll á vegum Landsímans sem gat tekið vélina upp á vagninn. Sumarvinnan byrjaði við endurnýjun símastrengja við Gljúfurá í Borgarfirði, en þaðan fór Hólmar með traktorsgröfuna á vörubílspalli norður á Blönduós.

Vann 91 tíma á viku

Aðsóknin í gröfuna var mjög mikil og vann hann flestar helgar í aukaverkefnum, þegar ekki var unnið fyrir Símann. Hann var fenginn í að grafa fyrir húsgrunnum og lögnum, bæði í sveit og þéttbýli. Eftir 17 vikna útgerð, eða rétt rúma fjóra mánuði, hafði hann notað vélina 1.550 vinnustundir, eða að jafnaði 91 tíma á viku.

„Ég var með skrúfstykki á horninu á henni og helstu slöngur sem gætu farið í poka. Það sprungu þrjár, fjórar,“ segir Hólmar, en að öðru leyti var vélin mjög áreiðanleg og laus við bilanir allt sumarið.

Jarðýtustjórinn lagði ekki í brekkuna

Eftir að hafa verið á Blönduósi um hríð var Hólmar fenginn í verkefni á Siglufirði. Þar stóð til að grafa breiðan lagnaskurð fyrir fjarskiptabúnað í Hvanneyrarskál. Þá var þegar kominn slóði sem fór í sneiðingum upp fjallshlíðina. Lagnaskurðurinn átti ekki að fylgja slóðanum, heldur að fara í miklum bratta niður hlíðina og var lagt upp með að jarðýta færi niður fyrst til að undirbúa jarðveginn. Ýtustjórinn guggnaði hins vegar á verkefninu þegar á hólminn var komið.

„Þá voru góð ráð dýr. Ég ákvað að við skyldum bara reyna þetta en við yrðum með taug í ýtuna sem héldi í mig þegar ég færði mig. Þetta var svo mikill halli,“ segir Hólmar. Til að rétta traktorsgröfuna þá setti hann lappirnar að aftan eins lítið niður og hann gat, en ámoksturstækin eins langt niður og mögulegt til að hún spenntist upp að framan. „Maður náði ekki að gera hana lárétta nema stöku sinnum.“

Eins og áður segir þá var Hólmar oftar en ekki með einhvern með sér sem sá um að færa gröfuna. Aðstoðarmaðurinn var þó svo lofthræddur að þetta verkefni féll í hendur Hólmars á verstu köflunum. Ef þeir voru báðir í vélinni, þá reyndi Hólmar að halda í með arminum.

Lögregla vaktaði grjóthrun

Vökvakerfið var ekki öflugt í þessari MF traktorsgröfu. Því þurfti Hólmar að passa sig sérstaklega að lyfta bakkóinu ekki hátt með fulla skóflu, því þá verkaði þyngdaraflið á það þannig að það skall til hliðar í vinkil. Stundum þurfti að rétta bakkóið með spotta. „Það var á ákveðnum kafla sem ég náði arminum ekki alltaf til baka.“
Nokkurt grjót kom upp við skurðgröftinn sem hrundi niður fjallshlíðina. „Um tíma þurfti að vera með lögreglu niður á vegi fyrir ofan byggðina af því að krakkar voru að forvitnast,“ en Hólmar segir hnullungana hafa getað náð talsverðri ferð í þessari löngu brekku. Ekki var talið mögulegt að fylla ofan í skurðinn með vinnuvélum og segir Hólmar að unglingaflokkar hafi gert það með handafli eftir að hann var farinn.

Í dag er eigandi vélarinnar Jón Árnason, sem rekur verktakafyrirtækið Verktækni. Unnið er að uppgerð hennar á Blikastöðum í Mosfellsbæ og er stefnt að því að koma henni í upprunalegt ástand.

Skylt efni: saga vélar

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...