Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Nautnaseggir þeyta svo auðvitað rjóma með eplakoddunum.
Nautnaseggir þeyta svo auðvitað rjóma með eplakoddunum.
Mynd / Hari
Matarkrókurinn 16. október 2024

Vandamál eplabónda í Kópavogi

Höfundur: Haraldur Jónasson

Ég segi ekki að Bændasamtökin séu á bakinu á mér með að skrá mig í félagið en tæknilega séð á ég þar heima – sem ávaxtabóndi.

Enda stoltur eigandi þriggja eplatrjáa sem tvö gáfu ávöxt þetta sumarið. Vandamálið, fyrir utan að uppskeran var rétt tæplega tvö hundruð og fimmtíu grömm, er að mér finnast epli ekki góð.

Þegar hálf uppskeran var fallin í jörðina eins og hjá Newton forðum var ekki á annað hættandi en að taka restina á hús. Hún komst fyrir í morgunverðarskál og samanstóð af eplum á stærð við útlensk bláber upp í stærð á við plómutómat.

Við fyrstu smökkun komumst við bændurnir á heimilinu að því að þetta eru ekki beinlínis Pink Lady epli. Þau voru súr en þó var eplabragð af þeim. Hvað gera bændur þá? Jú, þeir skella í böku.

Þarf alltaf að vera bras?

En þá var komið að vandamáli númer tvö. Eins og mér finnast fersk epli ekki góð, finnst mér heit og mjúk epli enn þá verri. Eftir að hafa horft á eplaskálina í kæliskápnum í á fjórðu viku var bökugerðin ekki umflúin.

Eitt finnst mér gott við eplabökuhornin. Þau bera smá keim af eplum en engin eiginleg epli. Ég ákvað því að gera sætt eplamauk og pakka því inn í smjördeigskodda.

Þegar ég var búinn að afhýða og skera aldinið frá kjarnanum átti ég 160 grömm af eplum. Til að þau verði ekki brún undir eins er gott að kreista yfir þau sítrónusafa en viti menn! Ég er ekkert sérstaklega hrifinn af honum heldur. Þannig að ég muldi 1/3 af C-vítamín-freyðitöflu (C-vítamín er fullt af sítrussýru) út í nokkrar matskeiðar af eplasafa og velti uppskerunni upp úr blöndunni. Bætti svo við matskeið af sykri og hálfum desílítra af vatni og mallaði blönduna í potti með loki þangað til eplin voru mjúk. Meðan á suðunni stóð bætti ég hálfum desílítra í viðbót út í maukið þegar það var við það að skrælna. Næst stappaði ég eplin með kartöflustappara og smakkaði til með örlítið meiri sykri og klípu af salti. Maukið hepnaðist vel og ef mér þættu epli góð hefði mér svei mér þá þótt það gott.

Deigið

Til að gera deigkoddana þarf smjördeig. Það er hægt að kaupa í frystideild nánast hvers einasta súpermarkaðar á Íslandi. En ef við ætlum að kaupa deigið er alveg eins hægt að sleppa því að rækta eplin og kaupa þau líka. Þannig að við hrærum í deig.

Eða tætum í deig. Því til að koma smjördegi saman er best að nota matvinnsluvél. Út í hana fer 325 grömm af allrahanda hveiti, 125 grömm smjör; best að það sé skorið í bita og ískalt – helst frosið. 20 grömm sykur.

Ég notaði saltað smjör þannig að ég bætti sirka 3 grömmum af salti við. Þeir sem eiga ósalt smjör geta aukið saltmagnið um 2–3 grömm. Þetta er púlsað saman nokkrum sinnum.

Ekki of mikið. Smjörið á að vera í sæmilegum stykkjum. Þá er að hræra 90 grömm af jökulköldu vatni saman við. Deigið á að vera eins og fín möl sem klessist saman milli fingra eins og leir.

Hvolfa deiginu á borð og koma því saman. Einfaldast að gera eins og verið sé að hnoða snjóbolta. Búa til sirka þriggja sentimetra þykkan disk úr deiginu, helst ferkantaðan af því að koddarnir eiga að vera ferkantaðir. Vinna hratt svo deigið hitni ekki mikið af lófunum. Setja svo í kæliskáp í minnst klukkutíma.

Allur þessi kuldi; kalda smjörið, kalda vatnið, kaldar hendur og svo að kæla deigið er til þess að smjörið bráðni ekki og samlagist hveitinu, heldur hangi milli hveitikornanna og rétt haldi því saman. Þannig verður deigið brakandi gott.

Klárt í ofninn

Þegar deigið hefur tekið sig í kæliskápnum er að fletja það út. Þunnt en ekki þannig að hægt sé að lesa Bændablaðið í gegnum það. Skera í ferninga. Sirka 10 cm á kant. Setja slettu af eplamauki í miðjuna, smyrja kantana með pískuðu eggi og brjóta koddann í helming þannig að hann verði þríhyrndur. Klemma samskeytin svo með gaffli. Þegar hér kemur sögu er hægt að kæla koddana aftur og baka þegar hentar. Það er jafn vel ákjósanlegt eða baka þá bara strax.

Píska nokkra dropa af mjólk út í eggið og smyrja koddann með blöndunni, strá kanelsykri yfir. Skera þrjár rendur eða svo í miðjuna á koddanum svo gufan sem kemur af maukinu nái að sleppa út. Baka við 190 gráður í sirka 20 mínútur eða þangað til koddinn verður gullinbrúnn og gljáandi.

Eplamauk

160 grömm af súrum eplum frá eplabónda í Kópavogi
1 dl vatn
2–3 msk. sykur
5 msk. eplasafi
1/3 C-vítamín-freyðitafla
1⁄4 tsk. salt

Smjördeig

325 g hveiti
125 g smjör
90 g vatn
15 g sykur
5 g salt
---
1 egg
Kanilsykur
Nokkrir dropar af mjólk

Grunnsósur fyrir sósuþjóð
Matarkrókurinn 30. október 2024

Grunnsósur fyrir sósuþjóð

Mér er nokk sama hvort tölfræðin er opinberlega skráð, allir kokkar landsins vit...

Vandamál eplabónda í Kópavogi
Matarkrókurinn 16. október 2024

Vandamál eplabónda í Kópavogi

Ég segi ekki að Bændasamtökin séu á bakinu á mér með að skrá mig í félagið en tæ...

Kjötsúpa
Matarkrókurinn 2. október 2024

Kjötsúpa

Íslenska kjötsúpan er í grunninn alltaf eins en samt ekki. Allir og allar fjölsk...

Subbu-Jobbi
Matarkrókurinn 18. september 2024

Subbu-Jobbi

Nú þegar skólarnir eru að byrja veitir ekki af því að æfa sig í frægustu samloku...

Piparosta-grísapasta
Matarkrókurinn 21. ágúst 2024

Piparosta-grísapasta

Eftir gular viðvaranir og alla þessa rigningu hættir sér ekki nokkur út að grill...

Grillréttir, íslenskt nautakjöt og bleikja
Matarkrókurinn 29. júlí 2024

Grillréttir, íslenskt nautakjöt og bleikja

Hásumar á Íslandinu fagra, á góðum degi, sólin skín jafnvel, kannski er ekki háv...

Stórkarlasteik
Matarkrókurinn 5. júlí 2024

Stórkarlasteik

Nú fara jafnvel eldavélafælnustu karlpungar landsins að taka sér stöðu við grill...

Reykt svín og remúlaði
Matarkrókurinn 6. júní 2024

Reykt svín og remúlaði

Munurinn á heitreyktum og kaldreyktum mat er heilmikill.