Minnast 90 ára afmælis frumkvöðuls safnsins
Iðnaðarsafnið á Akureyri býður í sumar upp á fyrirlestra og myndbandasýningar sem tengjast iðnaði á Akureyri, fimmtudagsviðburðir nefnast þeir og verða í boði á fimmtudögum. Alls verða haldnir fimm fyrirlestrar, tveir í júlí og þrír í ágúst, en myndasýningar verða alla fimmtudaga bæði kl. 13 og 15. Fyrirlesarar eru þeir Jón Hjaltason, Sigurgeir Guðjónsson, Þórarinn Hjartarson og Jóna Sigurlaug Friðriksdóttir ásamt Ullarvinnslunni Gilhaga.
„Við reynum að bjóða upp á fræðandi og skemmtilega dagskrá, fólk hefur alltaf gaman af því sem gerðist í fyrri tíð og við mætum því með þessari sumardagskrá,“ segir Þorsteinn E. Arnórsson, safnstjóri Iðnaðarsafnsins. Hann hljóp í skarðið í byrjun árs – og ekki í fyrsta sinn þegar svo var komið í rekstri safnsins að segja þurfti safnstjóra upp störfum sökum peningaleysis. Þorsteinn hefur setið í stjórn Iðnaðarsafnsins frá upphafi.
Pláss- og peningaleysi Iðnaðarsafnsins birtist m.a. í því að geyma þarf fjölda muna í gámum á útisvæði.
Terra fyrir herra
Auk þess sem Iðnaðarsafnið býður upp á sumardagskrá í formi fyrirlestra og myndasýningar var í liðinni viku opnuð lítil sýning til að minnast Jóns S. Arnþórssonar, frumkvöðuls og stofnanda Iðnaðarsafnsins, en í ár verða liðin 90 ár frá fæðingu hans. Jón lést árið 2011. Hann gegndi ýmsum störfum hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga, var sölustjóri, fulltrúi forstjóra, deildarstjóra, fulltrúi verksmiðjustjóra og markaðsfulltrúi. Jón var framkvæmdastjóri við iðnsýningar samvinnumanna frá 1957 til 1973. Hann sá um verkefnið Handverk heimilanna sem síðar varð að Hugmyndabankanum.
Gulur Bragi þótti nú aldeilis fínn hér á árum áður.
Fálkaorða fyrir framlag við varðveislu íslenskrar verkmenningar
Sýningin, sem opnuð var 17. júní síðastliðinn, sækir nafn sitt í slagorð til saumastofu Gefjunar, Terra fyrir Herra. Fyrstu störf Jóns fyrir Sambandið voru einmitt á saumastofu Gefjunar. Jón var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 2009 fyrir framlag til varðveislu íslenskrar verkkunnáttu og safnamenningar, en hann hóf markvissa söfnun iðnminja árið 1993. Sambandið var á sinni tíð stór atvinnurekandi á Akureyri, en þegar umsvif þess voru hvað mest voru um eða yfir 1.000 manns á launaskrá við margvísleg störf á verksmiðjunum á Gleráreyrum. Með tímanum fór þó að fjara undan, umsvif minnkuðu og ein og ein deild lagði upp laupana þar til allri starfsemi var hætt árið 2005.
Kökukeflið sem hangir neðst var í eigu bakarans Axels Schiöt sem rak bakarí á Akureyri á árunum frá 1900 til 1930.
Báru sjálf hita og þunga af rekstri safnsins
Jón hóf markvisst að safna saman munum sem tengdust verksmiðjurekstrinum árið 1993. Iðnaðarsafnið var stofnað fáum árum síðar, á þjóðhátíðardaginn 17. júní árið 1998. Það var í fyrstu til húsa í fyrrum fataverksmiðju Heklu á Gleráreyrum en flutti síðar í Sjafnarhúsið við Austursíðu þar sem það hafði um 300 fermetra sýningar- og geymsluhúsnæði til umráða. Jón og eiginkona hans, Gisela Rabe-Stephan, báru lengi framan af hita og þunga af rekstri safnsins og ráku það á eigin vegum með styrkjum frá opinberum aðilum, sjóðum, félögum og fyrirtækjum. Núverandi húsnæði Iðnaðarsafnsins er við Krókeyri 6 þar sem áður var áhaldahús umhverfisdeildar Akureyrarbæjar. Að loknum endurbótum var flutt inn í það húsnæði vorið 2004. Við flutninginn á safnasvæðið á Krókeyri varð safnið gert að sjálfseignarstofnun.
Skór sem Pétur skósmiður á Akureyri saumaði á Inga son sinn.
Fjórir salir á tveimur hæðum
Húsnæði Iðnaðarsafnsins er 557 fermetrar að stærð, sýningarplássið nær yfir 467 fermetra. Húsið er á tveimur hæðum og eru sýningar þess settar upp í fjórum sölum. Þar er að finna muni sem tengjast iðnaði og iðnframleiðslu liðinna tíma, smjörlíkisgerð, prentvélar, rennibekki og saumavélar af ýmsu tagi, áhöld til úrsmíði og lyfjagerðar, matvælaframleiðslu margs konar, líkön af bátum og skipum, umfangsmiklum fataiðnaði um árin eru gerð skil, líta má augum rómaða náttkjóla frá Fatagerðinni Írisi, Duffys gallabuxur, Skinnu mokkajakka og Iðunnar skó. Fjölda sýnishorna um öflugan húsgagnaiðnað er að finna á safninu. Þar eru líka tæki og vélar sem notuð voru til að framleiða Saxbauta, Santonskaffi og Flórusmjörlíki.
„Iðnaður af nánast öllu tagi kemur hér við sögu,“ segir Þorsteinn, en bætir við að gullsmíði og tannsmíði hafi þó orðið útundan.
Niðursoðið nautgripakjöt frá Pylsugerð KEA – ómissandi í útileguna.
Munir geymdir í gámum
Þorsteinn segir að vissulega hrjái plássleysi starfsemi safnsins. “Þó við fengjum helmingi meira pláss yrðum við fljót að fylla það,” segir hann. Akureyrarbær á húsnæðið og greiðir að auki hita og rafmagn. Iðnaðarsafnið er löggilt safn og færi styrki en þeir eru það naumt skammtaðir að duga hvergi nærri til. Sem dæmi um pláss- og peningaleysi safnsins má nefna að fjöldi muna er í geymslu í gámum á útisvæði við Iðnaðarsafnið.
Þorsteinn með jakka úr Gefjunarefni sem Elín Sigríður Axelsdóttir frá Ásláksstöðum í Hörgársveit saumaði á Þórð Ingimarsson son sinn þegar hann var þriggja ára árið 1952. Jakkinn er nú til sýnis á sérsýningunni Terra fyrir herra til heiðurs Jóni E. Arnþórssyni.
Þá hefur svonefnt Wathnehús sem staðið fyrir í nær tvo áratugi án sökkuls á lóð við Iðnaðarsafnsins. Húsið á sér ríka sögu og hefur sterka skírskotun til atvinnulífs á Akureyri, en Otto Wathne lét byggja það árið 1895 sem síldartökuhús. Hann varð fyrstur til að taka á móti síld sem veiddist allt frá Pollinum við Akureyri og út á Grímseyjarsund og flytja hana með gufuskipum í land. Erfingjar Ottos tóku við húsinu eftir lát hans 1898, þeir byggðu við og buðu bæjarbúum að geyma þar matvæla. Húsið komst í eigu Hafnarsjóðs Akureyrar árið 1928, KEA eignaðist húsið 1940 og starfrækti þar skipasmíðastöð sína til ársins 1974 þegar hún var lögð niður. Norðlenska eignaðist húsið árið 2000 en tveimur árum síðar var það flutt inn á Krókeyri einkum til að forða því frá glötun þar sem hlutverki þess á Oddeyri var lokið og það átti illa heima þar lengur. Til hefur staðið að það yrði hluti af starfsemi Iðnaðarsafnsins.
Þorsteinn E. Arnórsson safnstjóri hefur setið í stjórn Iðnaðarsafnsins frá upphafi þess.
Byrjaði 13 ára gamall í fágunardeildinni
Þorsteinn er öllum hnútum kunnugur á Iðnaðarsafninu og þekkir vel sögu bæði gömlu Sambandsverksmiðjanna og eins líka annars iðnaðar á Akureyri. Sjálfur hóf hann störf í fágunardeild Gefjunar 13 ára gamall, en sú deild lagði lokahönd á framleiðsluvörur verksmiðjunnar áður en þær voru settar inn á lager.
„Þar var þvegið og litað, ullarband og teppi voru þvegin og ýfð og fataefni, t.d. terlín var lóskorið, pressað og brotið í stranga,“ segir Þorsteinn, sem starfaði á deildinni í fjögur ár áður en hann fór í aðra vinnu um nokkurra ár skeið. Hann hóf svo störf í fataverksmiðjunni Heklu þar sem hann starfaði óslitið í 15 ár, eða þar til Sambandið og Álafoss voru sameinuð í desember 1987 og honum sagt upp störfum.
Fundu vélar á Hvolsvelli
Þorsteinn og félagi hans af Sambandsverksmiðjunum stofnuðu félagið Yrmu og prjónuðu trefla úr gerviefnum. Hekla hætti að nota prjónavélar fyrir fínt garn og föluðust þeir eftir vélunum en var neitað um þær og sagt að hvergi væri slíkar vélar að finna. „Það hljóp smá kergja í okkur og við hóf leit sem endaði með að við fundum sams konar vélar suður á Hvolsvelli sem við keyptum og fluttum norður,“ segir hann. Glófi er einnig annað dæmi um fyrirtæki sem fyrrum starfsmenn á Sambandsverksmiðjum stofnuðu.
„Settu nafnið þitt á blaðið“
Þorsteinn var formaður Iðju, félags verksmiðjufólks á árunum 1995 til 1999, en það ár voru tvö verkalýðsfélög sameinuð, Eining og Iðja sem nú heitir Eining Iðja.
„Jón Arnþórsson kom til mín og sagði mér frá fyrirhugaðri stofnun Iðnaðarsafnsins og nefndi að það væri mitt fólk sem vann þess störf. Sig vantaði þriðja mann í stjórn, „settu nafnið þitt hérna á blaðið,“ sagði hann og rétti mér blað yfir skrifborðið,“ segir Þorsteinn, sem setið hefur í stjórn Iðnaðarsafnsins frá því það var stofnað.