Öxarfjarðarskóli setur upp hverja stórsýninguna á fætur annarri
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Öxarfjarðarskóli er samrekinn leik- og grunnskóli með alls rúmlega 40 nemendur. Hann er staðsettur í Lundi í Öxarfirði og er því miðsvæðis í skólasamfélaginu sem spannar allt frá Kelduhverfi í vestri út á Melrakkasléttu í austri. Einnig er rekin leikskóladeild á Kópaskeri.
Í Öxarfjarðarskóla er löng hefð fyrir því að á árshátíð séu sett á svið stór og krefjandi verk í fullri lengd, þá gjarnan söngleikir. Fyrst um sinn var það einkum í höndum unglingadeildar að setja á svið stór verk en þau yngri voru þá oftar með stutta þætti, söng og dans.
„Við höfum lagt mikla áherslu á að allir nemendur stígi á svið enda er leiklist kennsluaðferð sem kallar á samstarf og samskiptahæfni. Hún eflir sjálfstraust og sjálfstæðar ákvarðanatökur.
Í leiklistinni eru allir jafnir og rannsóknir benda til að í verkefnum sem þessum auki nemendur orðaforða sem aftur leiðir svo til aukins skilnings á námsefni. Sterk sjálfsmynd og góð félagsfærni stuðlar að bættu skólastarfi, námsárangri og betri líðan barna og unglinga. Það er nefnilega fleira nám en bóknám,“ segir Hrund Ásgeirsdóttir, skólastjóri Öxarfjarðarskóla. Þrjú ár í röð, frá 2013 til 2015, átti skólinn sigurvegara í Stóru upplestrarkeppninni og eflaust hefur þátttaka þeirra nemenda í uppfærslum skólans átt einhvern þátt í því hve vel hefur gengið.
Hrund segir marga kvíða því að þurfa að koma fram fyrir aðra og eiga erfitt með að tjá skoðanir sínar enda er leikni í slíkri framsögn ekki sjálfgefin, heldur krefst bæði mikillar og markvissrar þjálfunar. Það sé því mikilvægt að styrkja þessa þætti hjá nemendum og gefa þeim tækifæri til að stíga á svið og tjá sig með leiklist, dansi, upplestri eða söng.
Dýrin í Hálsaskógi, Bugsy Malone og Ronja ræningjadóttir
Fyrir þremur árum var ákveðið að prófa að setja eitt stórt verk á svið þar sem allir nemendur grunnskólans frá 1.–10. bekk, ásamt elstu nemendum leikskólans, stigu á svið. Fyrir valinu varð hið sígilda verk Dýrin í Hálsaskógi eftir Thorbjörn Egner og tókst það svo glimrandi vel að ákveðið var að prófa sama fyrirkomulag aftur að ári. Í fyrravor var svo settur upp söngleikurinn Bugsy Malone eftir Alan Parker. Enn og aftur stóðu nemendur sig með stakri prýði svo eftir var tekið. Leiksýningin hlaut tilnefningu til Foreldraverðlauna Heimilis og skóla 2015 fyrir árshátíðina og fékk viðurkenningarskjal þess efnis.
„Það varð til þess að efla okkur enn frekar og í ár var svo ráðist í sýninguna Ronju ræningjadóttur eftir Astrid Lindgren og enn sem fyrr tóku allir nemendur þátt,“ segir Hrund en árshátíð skólans var haldin í apríl eftir nokkurra vikna frestun vegna flensu sem herjaði illilega á nemendur og starfsfólk.
Upphaflega var ætlunin að sýna verkið fyrir páska. Aukasýning var haldin og þrátt fyrir leiðindaveðurspá kom þó nokkuð af áhorfendum.
Saga um vináttu og hugrekki
Ronja ræningjadóttir fæðist eina þrumuóveðurnótt þegar elding klýfur Matthíasarkastalann í tvennt. Hún verður augasteinn foreldra sinna og allra ræningjanna. Hún kemst svo að því að pabbi hennar er ekki óskeikull og þarf að útskýra fyrir henni hvað ræningi er „í raun og veru“. Margt þarf að varast og leynast víða hættur utan heimilisins. Ein helsta ógn sem steðjar að ríki Matthíasar er þegar Borki, erkióvinur hans, flytur inn í hinn helming Matthíasarkastalans með ræningjaflokk sínum. Þá kynnist Ronja Birki, syni Borka, og með þeim tekst mikil og góð vinátta sem er í óþökk foreldra þeirra. Matthías afneitar dóttur sinni í kjölfarið og þau Birkir ákveða að flýja í Bjarnarhelli og dvelja þar um sumarið. Skógurinn er fullur af ævintýrum og kynjaverum eins og rassálfum, grádvergum og skógarnornum. Sagan af Ronju er saga um vináttu og hugrekki barna sem hafa vit fyrir foreldrum sínum þar sem kærleikurinn er öllu sterkari.
Allir stóðu sig með stakri prýði
Nemendur unglingadeildar fara með stærstu hlutverkin sem geta verið mjög krefjandi og tekið á að æfa svo vel takist til. Nemendur mið- og yngstu deildar fá minni hlutverk en ekki síður mikilvæg. Með hlutverk Matthíasar, Lovísu og ræningjanna þeirra fóru nemendur unglingadeildar auk eins nemanda úr miðdeild. Sömu sögu er að segja um Ronju sjálfa og Birki ásamt Borka en miðdeildarnemendur komu þar einnig við sögu. Yngri deildin sá um hlutverk rassálfa og grádverga ásamt miðdeild. Allir stóðu sig með stakri prýði.
Þess má geta að undanfarin þrjú ár hefur Öxarfjarðarskóli verið í samstarfi við Tónlistarskóla Húsavíkur og notið liðsinnis tónlistarkennara þar sem séð hafa um tónlistarstjórn en einnig hafa nemendur tónlistarskólans og velunnarar skólans úr samfélaginu leikið með í hljómsveitinni.
Heilmikil vinna og að mörgu að hyggja
„Heilmikil vinna liggur að baki svona uppfærslum og það er ekki síst áhugi kennara sem drífur þetta áfram ár frá ári enda koma margir að verki sem þessu. Æfingaferlið getur tekið allt upp í 8 vikur og síðustu vikuna fyrir sýningu er skólastarfið fært í félagsheimilið Skúlagarð í Kelduhverfi þar sem sýningar fara fram og eru þá nemendur og starfsfólk þar allan daginn við æfingar,“ segir Hrund.
Í undirbúningnum þurfi að huga að mörgum þáttum. Það þarf að sauma búninga, smíða og mála leikmynd, sjá um ljós og tæknimál, æfa söng, dans og spil. „Allt þetta þarf að vinnast vel og höfum við verið einstaklega heppin með starfsfólk sem hefur verið boðið og búið að leggja sitt af mörkum, langt umfram skyldur. Það er ekki hægt að fara í að vinna svona verk ef telja á allar mínútur sem fara í það og greiða fyrir þær. Auðvitað vakna oft spurningar hvort verjandi sé að eyða öllum þessum tíma í æfingar fyrir eina til tvær sýningar. En leiklistin er mikilvægur hluti af námi og eflingu sjálfsmyndar þannig að við teljum þeim tíma vel varið og svo eru foreldrar líka ánægðir með þessa vinnu.“
Hrund segir gaman að geta tekið þátt í samfélaginu með menningarviðburði sem vakið hafa athygli og fólk komi um langan veg til að sækja sýningarnar. Foreldrafélag skólans hefur veg og vanda af kaffihlaðborði sem boðið er upp á í hléi og að sýningum loknum leggjast allir á eitt með að hjálpast að við frágang.
„Þetta er gefandi og skemmtileg vinna þótt hún taki oft mikið á taugarnar en afraksturinn skilar sér í gleði og stolti nemenda, foreldra og starfsfólks.“