Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Strand Jamestowns úti fyrir Höfnum  á Reykjanesi árið 1881
Líf&Starf 8. desember 2021

Strand Jamestowns úti fyrir Höfnum á Reykjanesi árið 1881

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Strand seglskipsins Jamestowns við Hafnir á Reykjanesi árið 1881 og eftirmál þess er stórmerkileg saga sem allt of fáir þekkja. Halldór Svavarsson, seglasaumari og áhugamaður um sögu, hefur undanfarin fjögur ár safnað að sér heimildum um Jamestown og er útkoman einkar áhugaverð bók.

Á bókarkápu segir að varla sé hægt að ímynda sér hvílíkur hvalreki strand þessa 4.000 tonna risastóra skips var fyrir Reyknesinga en það var fulllestað af unnum eðalvið sem átti að fara undir járnbrautarteina á Englandi. Lengd Jamestowns var 110 metrar og hafði enginn á strandstað augum borið jafnstórt skip.

Halldór Svavarsson rithöfundur.

Hér rekur Halldór söguna allt frá smíði skipsins í Bandaríkjunum til nútímans. Hvers vegna var skipið mannlaust? Hvað varð um áhöfnina? Hver átti skipið? Hvaðan kom það? Hvers konar skip var þetta? Hvað varð um timbrið úr skipinu og hvert er þekktasta húsið sem smíðað var úr því? Svörin er að finna í þessari glæsilegu bók Halldórs Svavarssonar.

Jónatan Garðarsson segir í um­sögn um bókina að sögusagnir af strandi Jamestowns hafi fylgt afkomendum þeirra sem mundu þennan atburð.

„Smám saman fennti yfir sagnirnar. Þessi fróðlega bók varpar skýru ljósi á sögu skipsins og verðmætan farmi þess sem átti stóran þátt í því að hægt var að byggja betri og heilsusamlegri hús hér á landi.“

Tómas Knútsson, kafari og áhugamaður um Jamestown, segir:

„Eftir lestur bókarinnar er ég kominn á þá skoðun að þetta strand hafi verið með stærstu atburðum 19. aldar á Íslandi. Ótrúlegt er að ekki hafi verið fjallað meira um þennan atburð í sögubókum. Stórmerkileg saga frá öllum sjónarhornum.“

Smíðað í borginni Richmond 

Í bókinni er kafli um uppruna og útgerð seglskipsins Jamestown, en þar segir:

„Seglskipið Jamestown var smíðað í borginni Richmond í Sagadahoc-sýslu í Maine-ríki í Bandaríkjunum árið 1869. Bærinn stóð sunnarlega við hið mikla Kennebec-fljót en á svæðinu næst árósunum standa einnig bæirnir Bath, Arrowsic, Georgetown og Phippsburg, þar sem margir skipasmiðir bjuggu og stórar útgerðir störfuðu. Það var reyndar engin tilviljun. Í Maine og nágrenni er mikið af góðum málmum til skipasmíða og stórir skógar af góðum trjávið var allt um kring. Skipasmiðir og útgerðarmenn þar um slóðir voru nær undantekningarlaust komnir af innflytjendum frá Bretlandseyjum á 17. og 18. öld og þaðan kom þekking þeirra upphaflega. Vel tókst til með smíðarnar og stóru klipperarnir frá Maine þóttu svo vandaðir og fallegir að talað var um að þeir væru dómkirkjur hafsins.

Jamestown var í eigu farskipaútgerðar lögfræðingsins J. M. Hagars (1822–1897) en hann bjó og starfaði þar í bæ ásamt nokkrum ættingjum sínum, meðal annars við millilandaverslun. Á þessum árum voru mörg skip smíðuð á vegum eldri bróður hans, Marshalls S. Hagars (1810–1862), sem var virtur lögfræðingur, eigandi skipa­smíðastöðvar og útgerðar. James M. Hagar lét smíða fjögur skip eftir að Jamestown komst á flot og var eitt þeirra, Hagarstown (1874), eilítið lengra og breiðara en Jamestown. Það virðist þó hafa verið hannað mjög svipað. Jamestown var því annað af tveimur stærstu skipunum í flota James M. Hagar & Co þegar það hélt í hinstu ferð sína í nóvember 1880.

James Munroe Hagar fæddist í bænum Waltham í Middlesex í Massachusetts hinn 25. júlí 1822 samkvæmt bandarískum manntalsskrám. Hann var af virðulegum ættum en forfaðir hans, William Hagar frá Shropskíri á Englandi, hafði siglt vestur til Massachusetts 1645. Faðir hans, Uriah (1776–1841), var læknir en margir virtir borgarar komu úr Hagar-ættinni, þeirra á meðal skipstjórar, sæfarendur og stríðshetja úr frelsisstríði Bandaríkjanna. Báðir foreldrar James létust í upphafi fimmta áratugar og fluttist hann í kjölfarið til bæjarins Richmond í Maine þar sem hann kvæntist Henriettu Lilly árið 1848. Þau eignuðust sjö börn sem öll nema eitt komust á legg, lengst lifði þó dóttirin Fanny sem fæddist sama ár og smíði Jamestowns lauk og lést árið 1960. Í manntalsskrám og öðrum heimildum kemur í ljós að ekkert skorti upp á efni og aðbúnað fjölskyldunnar.

Seglskipið Jamestown fór víða á þeim ellefu árum sem það sigldi um höfin og kom mikil burðargeta skipsins sér vel í löngum ferðum. Flest stærri þriggjamastra millilandaskip voru hönnuð og smíðuð til að vera hraðskreið og kölluðust klipperar (e. clippers). Hraðinn skipti þó minna máli fyrir klippera sem sigldu um Atlantshaf þar sem meira máli skipti að geta borið þungan varning og staðið af sér ógnir úthafsins. Það átti einmitt við um Jamestown. Hraðskreiðari skipin sigldu hins vegar lengri vegalengdir eins og suður fyrir Afríku og til Indlands og Kína og fluttu léttari varning eins og te, ópíum, postulín, krydd og ýmsar nýlenduvörur á milli staða. Frá Englandi og Bandaríkjunum var löng leið til helstu hafnarborga Indlands og Kína svo að miklu skipti að farmur skipa væri verðmætur og siglingin tæki sem skemmstan tíma. Mikill metingur var á milli útgerða og skipshafna þessara skipa um hvert þeirra gæti farið hraðast milli heimsálfa enda var tími jafngildi peninga þá eins og nú.“

Skylt efni: Jamestown

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....