Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 mánaða.
Solis 90 XL er ný dráttarvél á afar hagstæðu verði. Hún er búin öllum þeim helsta útbúnaði sem dráttarvélar þurfa í flest verk. Þú færð hins vegar það sem þú borgar fyrir og í þessu tilfelli fara fáar krónur í lúxus.
Solis 90 XL er ný dráttarvél á afar hagstæðu verði. Hún er búin öllum þeim helsta útbúnaði sem dráttarvélar þurfa í flest verk. Þú færð hins vegar það sem þú borgar fyrir og í þessu tilfelli fara fáar krónur í lúxus.
Mynd / ál
Vélabásinn 4. apríl 2024

Allt sem margir þurfa

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Bændablaðið fékk til prufu nýjasta útspil indverska dráttarvélaframleiðandans Solis, sem er fullvaxinn níutíu hestafla traktor sem kæmi til greina við landbúnaðarstörf. Hér er komið gerðarlegt tæki sem ætti að ráða við flest verk og er án flókins tölvubúnaðar.

Framleiðandinn hefur greinilega lagst í mikla vinnu þegar kemur að hönnun á ytra útliti 90 XL, því nú er loksins komin Solis dráttarvél sem er sannarlega aðlaðandi. Þegar traktorinn er skoðaður að utan er ekkert sem gefur til kynna að hér sé um ódýra vél að ræða. Þessi tiltekni traktor er blár að lit, þó Solis traktorar hafi sést í öðrum litum, eins og svörtum. Þá eru felgurnar kolsvartar sem er ekki algengt í heimi dráttarvéla.

Útsýnið er nánast óskert í allar áttir nema upp.
Lítill en ekki agnarsmár

Eitt helsta einkenni Solis 90 XL er hversu lítill hann er. Þetta er alls ekki smátraktor eins og sveitarfélög nota í snjómokstur á gangstéttum, heldur er hann frekar á stærð við þær hefðbundnu 80 til 90 hestafla dráttarvélar sem voru algengar í kringum aldamótin.

Helsti aukahluturinn á vélinni sem blaðamaður fékk að reyna voru ámoksturstæki að framan. Vallarbraut mun flytja þessa traktora inn með tveimur dekkjastærðum og var vélin í þessum prufuakstri á þeim stærri. Þau eru frá framleiðandanum BTK, sem hefur getið sér gott orðspor. Þá er búnaðurinn að aftan ósköp hefðbundinn. Þessi vél er ekki útbúin útskjótanlegum krók, þó það sé aukabúnaður sem stendur til boða. Heldur er vélin með svokallaðan þýskan krók sem situr ofar ásamt einföldu vagnabeisli neðst sem auðvelt er að fjarlægja. Þá eru þrjár vökvasneiðar og þrítengibeisli með opnum beislisendum ásamt úrtaki fyrir vagnbremsur. Það helsta sem vantar eru takkar á brettunum til að stjórna aflúrtaki og hæð beislisins.

Allt mekanískt

Hið hagstæða verð vélarinnar skilst ágætlega þegar stigið er um borð. Umhverfið er hrátt og einkennist af þykku og gráu plasti, stöngum með björtum litum og tökkum sem gerðir eru fyrir mikla vinnu. Fyrir utan útvarp, loftkælingu og sæti á gormafjöðrun er ekkert sem hægt er að telja sem lúxus. Þá er ökumannshúsið það lítið að ekki er hægt að koma fyrir farþega.

Þrengslin finnast þegar gengið er inn og út úr vélinni, en beint fyrir innan dyrnar er stöng fyrir aflúrtakshraðann og andspænis henni er stöngin fyrir vendigírinn. Auðvelt er að reka sig í þær, sérstaklega ef stýrinu hefur ekki verið ýtt upp.

Þegar kemur að notandanum er enginn tölvubúnaður inni í vélinni, fyrir utan litla aksturstölvu í mælaborðinu. Hér er öllu stjórnað með mekanískum stöngum eða einföldum on/off rofum. Þeir sem hafa kynnst tækjum frá gamalli tíð ættu að rata um þetta umhverfi án mikillar umhugsunar.

Vökvasneiðarnar að aftan eru allar stangarstýrðar og kemur rafmagn ekkert þar við sögu. Stýripinninn fyrir ámoksturstækin er barkastýrður og með hnappa til að virkja þriðja sviðið. Stöngin er stíf og staðsett nokkuð langt frá ökumanninum og má því reikna með að hægri höndin verði þreytt eftir langa notkun.

Ökumannshúsið er nógu stórt fyrir einn. Tölvubúnaður er svo gott sem enginn.

Einfaldur vendigír

Solis 90 XL er með vendigír við stýrið sem er ekki kúplingsfrír. Til að skaða ekki gírkassann þarf vélin að vera svo gott sem kyrr áður en skipt er um akstursstefnu. Stöngin er staðsett heldur langt frá ökumanninum, sérstaklega ef sætið er aftarlega, en þá þarf að teygja sig nokkuð til að venda stönginni fram. Allt virkar þetta samt eins og það á að gera. Notkunin á gírkassanum er ekki ólík því sem fylgir að keyra beinskiptan fólksbíl, en til að skipta um gír þarf að stíga á kúplinguna og hreyfa gírstöng. Aðalgírarnir eru fjórir, en með annarri stöng er hægt að velja hátt, miðlungs eða lágt drif. Í fyrsta gír í lága drifinu hreyfist vélin varla, en samkvæmt framleiðanda er lágmarkshraðinn 1,22 kílómetrar á klukkustund.

Að aftan er allt mjög hefðbundið fyrir utan að þessi vél var útbúin þýskum krók.

Svart tauáklæði er á sætinu og armpúðar beggja vegna. Fyrir utan að bjóða upp á nokkrar grunnstillingar, þá myndi sætið teljast afar einfalt. Í þann stutta tíma sem undirritaður sat í þessu sæti var ekkert sem gaf til kynna annað en að það væri þægilegt, fyrir utan einfaldan fjöðrunarbúnaðinn.

Hér er á ferðinni gormafjöðrun og virknin því ekki eins fáguð og loftpúðafjöðrun í dýrari sætum. Það er eflaust hægt að fínstilla sætið eitthvað, en þeim sem þetta ritar fannst hreyfingar þess full kvikar, sérstaklega þegar ekið var á hámarkshraða (rúmlega 30 kílómetrar á klukkustund) á holóttum vegi.

Engin fjöðrun er á vélinni og finnst það í akstri. Við eitt tilfelli í þessum prufuakstri lyftist ökumaðurinn úr sætinu þegar ekið var ofan í djúpa holu á miklum hraða. Því er ekki hægt að gera væntingar til þess að geta brunað yfir ójöfnur á þessum traktor án mikils hamagangs.

Takmörkuð hljóðeinangrun

Annað atriði sem hugsanlegir kaupendur Solis 90 XL þurfa að hafa í huga er að hljóðeinangrunin er merkjanlega minni en á stærri og dýrari dráttarvélum. Vélar- og dekkjahljóð berst býsna vel inn í ökumannshúsið, en það ætti ekki að skipta miklu máli ef unnið er í styttri lotum. Standi til að fara í harða vinnu í lengri tíma gæti Peltorinn komið í veg fyrir þreytu í eyrunum.

Útsýnið fram fyrir húddið er prýðilegt og er lítið mál að átta sig á hvað er í gangi þegar ámoksturstækin eru í lægstu stöðu. Öðru gegnir þegar ámoksturstækjunum er lyft alla leið upp í topp, en þá þarf að beygja sig nokkuð fram til að fá þau í sjónlínu. Annars eru gluggabogarnir þunnir og er lítið um blinda punkta.

Niðurstaða

Þeir sem lesa þennan dóm gætu álitið að undirritaður hafi ekki kunnað að meta Solis 90 XL. Því fer hins vegar fjarri lagi, því þetta er mikilhæfur traktor sem er uppfullur af karakter og vegna hins hagstæða verðs er auðvelt að fyrirgefa gallana. Ekki skemmir fyrir að dráttarvélin kemur með fimm ára verksmiðjuábyrgð. Þeir sem þurfa að sitja heilu dægrin í traktor við mikla vinnu ættu kannski að skoða aðra kosti, en fyrir alla aðra er þetta hið fínasta tæki með öllum þeim búnaði sem dráttarvélar þurfa til að sinna sínum helstu skyldum.

Vélin í þessum prufuakstri er fjórhjóladrifin og með 90 hestafla, fjögurra strokka, 4.087 rúmsentímetra mótor. Helstu mál án ámoksturstækja eru: Hæð, 2.720 millímetrar; breidd, 2.050 millímetrar; lengd, 4.205 millímetrar. Eigin þyngd er 4.035 kílógrömm. Umrædd vél með ámoksturstækjum og skóflum fæst á 7.980.000 krónur (öll verð án vsk.) hjá Vallarbraut ehf. í Hafnarfirði. Bændablaðið gerði örlitla verðkönnun hjá öðrum vélasölum og virðast sambærilegir traktorar frá þekktari dráttarvélaframleiðendum kosta í kringum níu milljónir króna. Ódýrasta útgáfan á Solis 90 XL án ámoksturstækja er á 6.700.000.

Ytra útlit Solis 90 XL er aðlaðandi og mikil framför frá því sem áður var hjá þessum framleiðanda.

Flytur fjölskyldur með stæl
Vélabásinn 13. desember 2024

Flytur fjölskyldur með stæl

Hér er á ferðinni nýr rafmagnsbíll frá Renault sem hefur fengið mikið lof hjá ev...

Traustur fararskjóti endurnýjaður
Vélabásinn 28. nóvember 2024

Traustur fararskjóti endurnýjaður

Bændablaðið fékk til prufu nýjustu gerðina af Honda CR-V e:PHEV Advance Tech, se...

Með öfluga bensínvél og stórt batterí
Vélabásinn 14. nóvember 2024

Með öfluga bensínvél og stórt batterí

Bændablaðið fékk til prufu Audi Q7 sem er stór og vel útbúinn jepplingur frá Þýs...

Alveg eins og sportbíll
Vélabásinn 17. október 2024

Alveg eins og sportbíll

Bændablaðið fékk til prufu Hyundai Ioniq 6 sem er stór rafknúinn fólksbíll með a...

Fjölskyldubíll með stæla
Vélabásinn 3. október 2024

Fjölskyldubíll með stæla

Hér er á ferðinni praktískur fjölskyldubíll sem er ekki nema 2,6 sekúndur frá ky...

Snarpur borgarbíll
Vélabásinn 19. september 2024

Snarpur borgarbíll

Bændablaðið fékk til prufu smart #3, miðlungsstóran rafmagnsbíl sem sameinar ýms...

Óviðjafnanleg fágun
Vélabásinn 5. september 2024

Óviðjafnanleg fágun

Bændablaðið fékk til prufu EQE SUV rafmagnsbílinn frá Mercedes Benz. Um er að ræ...

Sjálfkeyrandi ítölsk kerra
Vélabásinn 22. ágúst 2024

Sjálfkeyrandi ítölsk kerra

Bændablaðið fékk til prufu vinnubíl af gerðinni Piaggio Porter sem er nánast óþe...