Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 mánaða.
Piaggio Porter er ítalskur vinnubíll sem hefur nýlega hafið innreið sína hingað til lands. Helstu styrkleikar þessa bíls eru lágt verð og mikil nytsemi.
Piaggio Porter er ítalskur vinnubíll sem hefur nýlega hafið innreið sína hingað til lands. Helstu styrkleikar þessa bíls eru lágt verð og mikil nytsemi.
Mynd / ál
Vélabásinn 22. ágúst 2024

Sjálfkeyrandi ítölsk kerra

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Bændablaðið fékk til prufu vinnubíl af gerðinni Piaggio Porter sem er nánast óþekkt bílategund hér á landi. Þetta er lítill og nettur pallbíll þar sem burðargeta, nytsemi og lágt verð eru í fyrirrúmi.

Umræddur vinnubíll er að miklu leyti byggður á kínverskri bifreið, en endurhannaður og framleiddur af Piaggio á Ítalíu. Þessi ökutæki eru algeng í sunnanverðri Evrópu og hefur undirritaður oft undrað sig á því af hverju Piaggio hefur ekki fengist hérlendis hingað til.

Að utan er bíllinn í sjálfu sér ekkert ólíkur Mercedes Benz Sprinter eða Volkswagen Transporter pallbílum, nema Piaggio Porter er nokkrum númerum minni. Smæsta útgáfan er ekki nema 1.680 millimetra breiður, sem er svipað og Toyota Aygo. Stærsta útgáfan með tvöföldu að aftan er hins vegar rúmir fimm metrar að lengd.

Aðalatriði þessa bíls er pallurinn og mætti hugsa um Piaggio Porter sem sjálfkeyrandi kerru. Ökutækið í þessum prufuakstri var minnsti bíllinn sem umboðið flytur inn, en samt sem áður með burðargetu upp á 950 kílógrömm. Þá er pallurinn 1.680 millimetra breiður og 2.800 millimetra langur, en fæst stærri. Skjólborðin eru fellanleg og allt það sem skiptir máli virðist vera sterkbyggt og einfalt í notkun.

Porter er með einfaldri bensínvél sem hentar vel í allt snatt.

Fyrir tvær nánar manneskjur

Þegar stigið er um borð þarf að byrja á því að beita nokkru afli til að loka á eftir sér hurðinni. Þá blasir við innrétting sem gæti þess vegna verið úr ökutæki frá tíunda áratug síðustu aldar. Alls staðar er grjóthart, dökkgrátt plast sem gefur frá sér tómahljóð við bank. Helsti munaðurinn í bílnum er útvarp, rafknúnar rúður og regnskynjari fyrir rúðuþurrkurnar.

Aftan við sætin og við A-bogann blasir við stál í sama lit og bíllinn. Sætin eru með svörtu tauáklæði og á gólfinu eru þykkar gúmmímottur. Í báðum hurðum eru rúmgóðir hurðavasar á meðan hanskahólfið er nokkuð nett. Fyrir framan gírstöngina er lítill bakki fyrir smáhluti, ofan á mælaborðinu er hentugur standur fyrir síma, en hvergi sést augljós glasahaldari. Þá er hægt að troða ýmsu drasli á bak við sætin.

Ökumannshúsið rúmar tvær manneskjur sem þola mikla nánd. Höfuðplássið er í það tæpasta fyrir þá allra hávöxnustu og mun efri brún framrúðunnar lenda í sjónlínu þeirra. Að öðru leyti er útsýnið með besta móti og blindir punktar í lágmarki.

Innréttingin gæti allteins verið úr ökutæki frá síðustu öld.

Hressandi en hastur í akstri

Aksturinn á Piaggio Porter er hressandi tilbreyting frá hefðbundnari ökutækjum. Undirritaður myndi þó aldrei vilja fara á bílnum í langferðir vegna þess að sætin eru nokkuð stíf og öll hljóðeinangrun er í lágmarki. Vélin fer í 3.000 snúninga þegar ekið er í fimmta gír á níutíu kílómetra hraða með tilheyrandi látum.

Innanbæjar er þetta hins vegar skemmtileg græja þar sem Porter er viðbragðssnöggur og með léttan gírkassa. Vandalítið er að leggja í þröng stæði þar sem auðvelt er að átta sig á stærð bílsins og stýrið er létt. Porter er samt sem áður ekki með neina fjarlægðarskynjara, akstursaðstoð eða viðvörunarhljóð. Aksturinn leggst því alfarið á herðar ökumannsins. Eina pípið sem heyrist er þegar ekki er farið í belti.

Eftir þennan prufuakstur hefur sá sem þetta ritar komist að raun um að stofnbrautir höfuðborgarsvæðisins eru alls ekki eggsléttar, heldur alsettar litlum misfellum sem finnast vel, þökk sé litlum dekkjum og stífri fjöðrun Piaggio Porter. Ekki gafst færi á að prufukeyra bílinn með farmi á pallinum, en ökutæki sem þessi eru yfirleitt mýkri við þær aðstæður.

Sjálfkeyrandi kerra sem krefst ekki aukinna ökuréttinda.

Bensínvél undir sætunum

Piaggio Porter er með 1,5 lítra, fjögurra strokka bensínvél undir sætunum sem skilar 106 hestöflum. Togið er merkilega mikið á lágum snúningum sem gerir að verkum að ökumaðurinn þarf ekki stöðugt að hræra í gírkassanum.

Mörgum gæti fundist undarlegt að vinnubíll sem þessi sé bensínknúinn, enda dísilvélar ráðandi í þessum flokki. Þessi orkugjafi meikar hins vegar fullkomlega sens fyrir ökutæki sem þetta.

Í fyrsta lagi eru bensínvélar ódýrari. Í öðru lagi verður Piaggio Porter ugglaust mest notaður í styttri ferðir sem fara illa með viðkvæmar sótsíur og mengunarvarnarbúnað sem gerð er krafa um í nýjum dísilbílum.

Aðgengi er að vélinni undir sætunum.

Að lokum

Piaggio Porter er góður í því sem honum er ætlað að gera og vegna hins lága verðs er auðvelt að fyrirgefa alla áðurnefnda ókosti og líta á þá frekar sem merki um karakter. Eins og áður segir var grunnútgáfan tekin fyrir í þessum prufuakstri, en möguleikarnir eru hins vegar fjölmargir og er til að mynda hægt að fá sturtupall eða tvöföld dekk að aftan fyrir aukna burðargetu.

Porter fæst sem grindarbíll og sjást ýmsar sértækar lausnir í markaðsefni framleiðandans. Þar má nefna krana tengdan við vökvaaflúrtak, krókhreysi, frystikassa og eldunaraðstöðu. Bíllinn fæst líka sem metanbíll með bæði bensín- og metantanki í fullri stærð. Þá stendur til að hefja sölu á rafmagnsútgáfum næsta vor.

Verðið er frá 3.990.000 krónum án vsk. Helstu mál eru í millimetrum: Lengd, 4.815; breidd, 1.680; hæð, 1.840.

Heildarþyngd með farmi er 2.260. Áðurnefndar tölur eru breytilegar milli útfærslna.

Auðvelt er að mæla með viðfangsefni þessarar greinar sem vinnubíl þar sem starfsfólk þarf að vera í miklu snatti. Nánari upplýsingar er hægt að fá hjá Véltindum, sem hafa nýlega fengið umboðið fyrir Piaggio.

Skylt efni: prufuakstur

Flytur fjölskyldur með stæl
Vélabásinn 13. desember 2024

Flytur fjölskyldur með stæl

Hér er á ferðinni nýr rafmagnsbíll frá Renault sem hefur fengið mikið lof hjá ev...

Traustur fararskjóti endurnýjaður
Vélabásinn 28. nóvember 2024

Traustur fararskjóti endurnýjaður

Bændablaðið fékk til prufu nýjustu gerðina af Honda CR-V e:PHEV Advance Tech, se...

Með öfluga bensínvél og stórt batterí
Vélabásinn 14. nóvember 2024

Með öfluga bensínvél og stórt batterí

Bændablaðið fékk til prufu Audi Q7 sem er stór og vel útbúinn jepplingur frá Þýs...

Alveg eins og sportbíll
Vélabásinn 17. október 2024

Alveg eins og sportbíll

Bændablaðið fékk til prufu Hyundai Ioniq 6 sem er stór rafknúinn fólksbíll með a...

Fjölskyldubíll með stæla
Vélabásinn 3. október 2024

Fjölskyldubíll með stæla

Hér er á ferðinni praktískur fjölskyldubíll sem er ekki nema 2,6 sekúndur frá ky...

Snarpur borgarbíll
Vélabásinn 19. september 2024

Snarpur borgarbíll

Bændablaðið fékk til prufu smart #3, miðlungsstóran rafmagnsbíl sem sameinar ýms...

Óviðjafnanleg fágun
Vélabásinn 5. september 2024

Óviðjafnanleg fágun

Bændablaðið fékk til prufu EQE SUV rafmagnsbílinn frá Mercedes Benz. Um er að ræ...

Sjálfkeyrandi ítölsk kerra
Vélabásinn 22. ágúst 2024

Sjálfkeyrandi ítölsk kerra

Bændablaðið fékk til prufu vinnubíl af gerðinni Piaggio Porter sem er nánast óþe...