„Sérsniðinn pakki Evrópusambandsins var ekkert annað en blekking“
Dr. Ólaf R. Dýrmundsson lét af störfum sínum sem ráðunautur Bændasamtaka Íslands um nýliðin áramót, eftir 42 ára starf í þágu íslenskra bænda. Í viðtali við hann í Tímariti Bændablaðsins sem kom út í byrjun mars, var stiklað á stóru í starfsferli hans, en þar voru samt ýmis mál sem ekki var pláss til að gera þar skil. Eitt þeirra varðaði umsókn Íslands að Evrópusambandinu.
„Mér hefur aldrei leiðst í vinnunni, alltaf haft næg verkefni og hlakkað til að fara til vinnu á hverjum degi,“ sagði Ólafur í viðtalinu, en ljóst er að samskiptin við ESB voru honum samt ekki auðveld.
Þáttaskil við umsóknina að Evrópusambandinu
„Það urðu töluverð þáttaskil árið 2009 þegar sótt var um aðild að Evrópusambandinu. Þá var ég einn þeirra sem fór inn í nefndir og viðræðuhópa og fenginn til að rýna ákveðnar reglugerðir fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið samhliða mínum störfum hjá Bændasamtökunum. Ég var í samningahóp um Evrópska efnahagssvæðið og hef tekið virkan þátt í umfjöllun um Evrópureglugerðir ásamt Ernu Bjarnadóttur og fleirum. Það snerist ekki bara um lífrænan búskap, heldur ýmislegt annað er varðar landbúnað. Þessu starfi lauk í raun á síðastliðnu ári, en meðan það gekk yfir fór í það mikill tími hjá mér við fundarstörf og fylgdu því nokkur ferðalög til útlanda. Þetta var vissulega lærdómsríkur kafli.“
Sérsniðni pakkinn er blekking
− Eftir alla þessa vinnu, hvernig metur þú stöðuna, er eftirsóknarvert fyrir íslenskan landbúnað að Ísland gangi í ESB?
„Í dag er afstaða mín til Evrópusambandsins sú að það er margt jákvætt sem þar er gert. Því miður, allavega hvað varðar landbúnað og jafnvel fleiri greinar, þá er staðan þannig að við getum ekki sætt okkur við það kerfi sem þar er búið að byggja upp. Vandinn er sá, að þeir eru ekki að taka tillit til sérstakra aðstæðna. Ég hef kynnst þessu mjög rækilega varðandi lífræna geirann. Þar er ég búinn að vera, ásamt fleirum, að reyna á annan áratug, í umboði Bændasamtakanna og fleiri, að reyna að fá undanþágur varðandi nokkur atriði sem þó ættu ekki að vera erfið. Við höfum ekki verið að biðja um undanþágu til að nota tilbúinn áburð í stað lífræns, sem sagt ekki grundvallaratriði. Þetta varðar rými í gripahúsum og hefur snúist um að tekið verði tillit til þess að búfé okkar er smærra en í flestum nálægum löndum. Einnig að tekið verði tillit til þess að við erum ekki með mikla kornrækt og erum m.a. þess vegna að nota grindargólf í fjárhúsum og jafnvel í fjósum í stað þess að nota hálm, sem undirlag.
Nokkur fleiri atriði höfum við verið að vinna með, en ég verð að segja alveg eins og er að úr því ekki er hægt að ná neinum tilslökunum í svo veigalitlum atriðum, þá get ég ekki með nokkru móti séð hvernig menn ætla að fá einhver sérkjör í heilum atvinnugreinum. Það er alveg tómt mál að tala um að ESB bjóði okkur upp á eitthvað sérstakt. Þess vegna tek ég undir það sem fólk segir í dag að allt þetta tal á liðnum árum um að Evrópusambandið komi með einhvern sérsniðinn pakka fyrir okkur var ekkert annað en blekking.“
Ekkert svigrúm fyrir breytileika
„Ég hef kynnt mér landbúnað í mörgum Evrópulöndum, bæði almennan og lífrænan, og skrifað töluvert um þau mál. Staðreyndin er sú að ESB er með kerfi sem miðast við að allir feti í sömu sporin og í takt. Það er því lítið sem ekkert svigrúm til breytileika. Ef það er eitthvert svigrúm, þá er það aðeins í formi undanþága til fáeinna ára.
Finnland er gott dæmi um þetta því að landbúnaður þar í landi er að fara mjög illa og Evrópukerfið er ekki að reynast þeim vel. Finnar eru í miklum vanda og þótt menn hafi verið að vísa til undanþága sem Finnar fengu sem rök fyrir því að við gengjum í ESB, þá erum við ekki einu sinni sambærileg við Finna. Við erum í raun eina svæðið í heiminum sem er með mikla landbúnaðarframleiðslu svo norðarlega. Það er ekkert annað þjóðríki með jafn hlutfallslega mikla landbúnaðarframleiðslu svo norðarlega á hnettinum. Það finnst hvergi annars staðar neitt sambærilegt. Það er staðreynd sem við höfum kynnt fyrir fulltrúum Evrópusambandsins sem hingað hafa komið, án þess að það hafi skilað árangri.
Við erum með tiltölulega mikla heimaframleiðslu sem skiptir miklu máli fyrir fæðuöryggið í landinu og þar erum við með algjöra sérstöðu þjóða á þessari breiddargráðu. Svo erum við líka með algjöra sérstöðu hvað varðar fáa sjúkdóma í búfé. Sú staða gerir okkar búfé mjög viðkvæmt fyrir aðfluttum sjúkdómum eins og dæmin sanna.
Einnig erum við með sérstöðu um nýtingu gamalla búfjárkynja sem við nýtum okkur til gagns en höfum ekki einungis til sýnis í dýragörðum. Flestar þjóðir eru búnar að eyðileggja sambærileg kyn í sínum heimalöndum. Þetta eru gömul kyn með mikla erfðafjölbreytni og afar verðmæt. Þá höfum við náð mjög góðum árangri í að kynbæta gömul kyn. Þar eru nautgripirnir, hrossin og sauðféð góð dæmi. Þar er árangurinn glæsilegur. Það er erfiðara með geitastofninn sem er mjög lítill og sömuleiðis landnámshænsnastofninn.“
Útlendingar átta sig á kostum okkar
„Vorið 2009 var haldinn hér fundur innan ERFP Evrópusamstarfs sem ég hef tekið þátt í frá upphafi, um 20 ára skeið. Það vakti athygli og aðdáun ráðstefnugesta hvað við erum að gera góða hluti hér, svo sem við verndun og ræktun gamalla búfjárkynja. Eins hvernig við framleiðum hér hollar og góðar afurðir með tiltölulega sjálfbærum hætti. Ég hef verið að hitta þetta sama fólk á fundum og ráðstefnum síðan og alltaf minnist það með aðdáun heimsóknar sinnar til Íslands vorið 2009. Það er eins og útlendingarnir átti sig betur á því en við hvað við erum með marga góða kosti í höndunum.“
Óheftur innflutningur gerir út af við okkar landbúnað
„Það er útilokað að við getum haldið þessari stöðu ef hér ætti að vera frjáls innflutningur á hráu kjöti og búfé. Þá væri íslenskur landbúnaður búinn að vera. Sumir virðast ekki átta sig á þessu og að þetta snertir líka fæðuöryggi þjóðarinnar. Fyrir svo utan það að landbúnaðurinn skapar mikla atvinnu í landinu og nýtir ýmis landsgæði svo sem úthagabeit. Það er mjög bagalegt að það skuli ekki vera vitrænni umræða hér á landi um sjálfbæra þróun og hvernig íslenskur landbúnaður kemur þar við sögu.“
Varnaðarorð frá prófessor Dennis L. Meadows
„Hingað kom síðla árs 2013 prófessor Dennis L. Meadows frá Bandaríkjunum og hélt fyrirlestur í hátíðasal Háskóla Íslands fyrir troðfullu húsi. Hann er einn af þeim sem sömdu skýrsluna frægu sem Rómarklúbburinn gaf frá sér snemma á áttunda áratugnum þar sem voru spár um breytingar sem yrðu vegna orkunotkunar, mengunar og fleira. Þá var lítið farið að tala um gróðurhúsaáhrif. Þessi maður lítur á umhverfismálin í víðu samhengi og alls ekki út frá þröngu sjónarhorni landbúnaðar.“
Gætið að fæðuörygginu
„Meadows var spurður að því við lok erindis síns hvað hann vildi segja um Ísland. Hann var heiðarlegur og sagðist ekki hafa ferðast mikið um Ísland og þekkti því ekki vel til en sagði þó:
„Gætið þess að eyðileggja ekki fæðuöryggið.“ Sagði hann að það sem hver þjóð þyrfti að gera væri að tryggja framleiðslu á matvöru, það væri aðalmálið fyrir afkomu þjóðar. Þjóðir yrðu að nýta þá möguleika sem þær hafa til að framleiða eigin matvæli og sem næst markaðnum. Benti hann á að miklir flutningar um langa vegu eru gríðarleg uppspretta gróðurhúsalofttegunda.
Aðspurður um hvað hann gerði þegar hann væri að ljúka starfsferli sínum sagðist hann vera að leiðbeina fólki í heimabæ sínum hvernig það gæti ræktað grænmeti í görðunum heima.“
Neyðarfundur haustið 2008
Ólafur segir ljóst að það friðsamlega ástand sem ríkt hefur í okkar heimshluta um skeið væri fallvalt. Ekki þyrfti einu sinni stríð eða náttúruhamfarir til að fæðuöryggið yrði aðalmálið. Efnahagsleg áföll geti hæglega valdið okkur vandræðum.
„Þetta gerðist hér haustið 2008, þegar lokaðist fyrir gjaldeyrisviðskipti. Þá stefndi hér í kornskort. Það voru ekki til birgðir í landinu nema í mesta lagi til eins mánaðar. Þar með var allur svína- og alifuglastofninn í hættu auk þess sem stefndi í skort á matvælum almennt fyrir íbúa landsins. Þetta gerðist eingöngu vegna þess að það var lokað fyrir bankastarfsemi.
Hér var haldinn neyðarfundur í Bændahöllinni sem ég stýrði fyrir hönd Bændasamtakanna. Þar kölluðum við saman fulltrúa frá ráðuneytunum, Almannavörnum, fóðurvörufyrirtækjunum og bændum þar sem rætt var hvað þyrfti að gera. Þá fór fjármálaráðherra í það að finna sérstaka undanþáguleið til að tryggja gjaldeyri fyrir einum skipsfarmi af korni. Það tók nærri viku að finna út leið en á meðan höfðu menn miklar áhyggjur.
Þótt við séum háð innflutningi ýmissa aðfanga svo sem korns, áburðar og olíu skiptir samt innlend matvælaframleiðsla mjög miklu máli og stuðlar vissulega að auknu fæðuöryggi.
Staða neytenda yrði allt önnur og ótryggari ef nær öll matvæli væru háð innflutningi. Þetta er í raun þjóðaröryggismál,mjög vanmetið því miður.“
Getum auðveldlega glatað sjálfsbjargarmöguleikum okkar
„Það þarf því ekki náttúruhamfarir, hryðjuverk eða stríð til að við getum lent í miklum vandræðum á stuttum tíma. Því þarf að ræða fæðuöryggismálin af miklu meiri alvöru en nú er gert. Það er líf heillar þjóðar í húfi. Þetta snertir Evrópusambandið og mögulega aðild okkar að því. Með frjálsu vöruflæði milli landa stenst íslenskur landbúnaður ekki samkeppni við niðurgreidda stórframleiðslu annarra landa. Því myndi íslenskur landbúnaður leggjast af að mestu og Íslendingar hefðu þá litla möguleika á að bjarga sér sjálfir með landbúnaðarafurðir ef landið lokaðist fyrir innflutningi.
Um leið og við sköðuðum fæðuöryggið gerist annað varðandi innflutning. Um leið og innlend samkeppni er úr sögunni lendum við mjög fljótt í fákeppni á markaði. Reynslan sýnir að þá mun verð á innflutningi hækka. Þá verður vandinn sá að þegar búið er að leggja af einhverjar greinar í landbúnaði, þá endurreisa menn þær ekki svo auðveldlega. Landbúnaður er langtímaferli og mjög auðvelt að eyðileggja hann með innflutningi.
Ég hef séð sjálfur hvernig slíkt gerist, m.a. á Nýfundalandi, í Alaska og víðar. Öll slík jaðarsvæði eiga alltaf í vök að verjast, líkt og Ísland yrði sem jaðarríki í Evrópusambandinu. Innan núverandi stefnu Evrópusambandsins og þeirra samninga sem þeir miða við í landbúnaðarmálum, þá eru engar líkur á að við nytum þar einhverra sérkjara. Við yrðum því jaðarsvæði og háð öðrum að mestu leyti um innflutning á landbúnaðarvörum. Þótt talað sé um að hægt sé að lækka verð á landbúnaðarvörum með óheftum innflutningi, þá áttar fólk sig ekki á að svokölluð frjáls samkeppni hefur aldrei virkað vel á Íslandi. Það getur þó verið að verðið lækki tímabundið meðan innflutningsaðilar eru að ná tökum á markaðinum. Það gerðist t.d. í Finnlandi, en þegar búið er að drepa samkeppnina frá innlendu framleiðslunni með tilheyrandi fækkun starfa, þá hækkar vöruverðið. Við yrðum því verr stödd innan fimm til tíu ára hvað verðlag á landbúnaðarvörum varðar.“
Skammtímahugsunarháttur varðandi lífrænan búskap
„Þarna er á ferðinni allt of mikill skammtímahugsunarháttur. Það sama á við í umhverfismálum og í lífrænum landbúnaði. Það er neytendadrifinn og vaxandi markaður fyrir lífrænar landbúnaðarvörur. Þar gætir aftur á móti mjög mikillar tregðu hjá stjórnvöldum, samtökum bænda og Landbúnaðarháskóla Íslands að átta sig á þeirri þróun. Þótt markaðurinn sé mjög góður þá er verið að gera mun minna hér á landi til að efla þróun á lífrænum landbúnaði en gerist hér í nágrannalöndunum. Þarna ber allt að sama brunni, vandinn er vegna þess að menn eru hér að horfa á skammtímasjónarmið og líta ekki til lengri tíma. Þetta er okkar stóra vandamál við lífrænan landbúnað í dag og ég held að það eigi við fleiri greinar.
Það sem er enn verra er að það er engin stefna í þessum málum. Síðasta ríkisstjórn var þó með drög að stefnu sem birtist í skýrslu sem hét Græna hagkerfið, en nú hefur það verið tekið úr sambandi og fjárveitingarnar notaðar í annað. Þau stefnumið sem voru í Græna hagkerfinu varðandi lífrænan landbúnað eru ekki í gildi lengur. Þetta sýnir að menn eru ekki tilbúnir að fara út í langtímastefnumörkun þótt það sé jákvætt fyrir markaðinn, neytendur og sé atvinnuskapandi. Okkur bráðvantar lífrænt vottað grænmeti og mjólk og nú er talað um að flytja hana inn frá Danmörku sem mér finnst fráleitt. Svo er hér markaður fyrir lífrænt vottaðar kjúklinga- og svínaafurðir. Þarna er vettvangur fyrir nýsköpun sem þarf að sinna.
Lífrænn landbúnaður er jákvæður að öllu leyti hvað varðar umhverfisvernd og mengunarmál og vinnur gegn útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Það er því allt jákvætt við að byggja upp þá grein.
Lífrænn landbúnaður mun fyrst og fremst sinna nærumhverfinu og verður seint stórframleiðsla og til útflutnings nema hugsanlega í einstökum greinum. Við erum þó með dæmi um slíkt en það eru þörungaafurðir, sem eru vottaðar lífrænar afurðir til útflutnings.“
Verksmiðjubúskapur sækir á í Evrópu
Ólafur segir að ef litið sé til baka þá séu viðhorf bænda til umhverfismála mun jákvæðari í dag en þau voru áður. Margir bændur hafi verið að sinna þeim málum mjög vel. Þá séu flestir bændur sammála um að þeir vilji ekki verksmiðjubúskap, enda verði slíkur búskapur sjaldnast flokkaður undir að vera fjölskyldubúskapur. Í Evrópu sé hins vegar mikil þróun í átt til verksmiðjubúskapar enda fari stór hluti styrkja ESB til landbúnaðar til fyrirtækja í stórræktun og verksmiðjubúskap. Þar sé aðal uppgangurinn í dag, en um leið sé verið að spilla landi með ofnýtingu og eiturefnanotkun.
„Það er gríðarlega mikil jarðvegseyðing í gangi og eiturefnamengun auk þess sem líftæknifyrirtæki sækja mjög á að dreifa einkaleyfisvörðum, erfðabreyttum lífverum, einkum fræi. Það hefur sýnt sig að vera stórhættulegt mál þar sem fyrirtæki með einkaleyfi á ákveðnum tegundum geta fljótt náð einokunarstöðu. Sem betur fer er mjög mikil andstaða í Evrópu við slíkt, en stóru fyrirtækin sækja þar mjög á. Mun meira frelsi ríkir í þeim málum í Bandaríkjunum og í Kanada. Þessi þróun heldur áfram þar sem kapítalisminn er mjög sterkur og það er alveg ljóst að Evrópusambandið er útvörður kapítalismans í Evrópu.“
Stórfyrirtækin sölsa undir sig landbúnaðinn
„Þróunin hefur víða verið sú að stórfyrirtækin eru að sölsa undir sig mikið land og byggja stórbú sem ætlað er að skila hagnaði á skömmum tíma. Það er vísir að þessu hér á landi í alifuglarækt og svínarækt og nautgriparæktin gæti orðið næsta búgrein sem fjárfestar herja á. Ef þetta verður ofan á þá mun bæði landbúnaður og byggðamynstur hér á landi breytast mjög mikið þar sem stórbúin verða fremur staðsett nær þéttbýlinu og helstu mörkuðunum. Um leið minnka möguleikarnir á að nýta graslendið víða um land og halda í hinar dreifðu byggðir.“
Ólafur bendir á þróunina í Bretlandi sem dæmi.
„Mikil fjölgun stórbúa mun að mínu mati hafa neikvæð áhrif og ég tel að Bændasamtökin
þurfi að hugleiða þessi mál miklu betur. Við höfum góðar upplýsingar um neikvæða þróun til dæmis í Bretlandi þar sem ég stundaði háskólanám mitt í búvísindum og þekki vel til. Þar hefur kúabúskapur verið að færast yfir til fjárfesta í stórar einingar. Mjólkurverðið hefur verið keyrt niður þannig að framleiðsla bænda í fjölskyldubúunum ber sig ekki lengur. Stórar verslanakeðjur og fjölþjóðafyrirtæki hafa verið að ná tökum á framleiðslunni sem er alls ekki lengur sjálfbær.“
Fjarri því að vera sjálfbær landbúnaður
„Þeir þjóðarleiðtogar sem tala um slíka þróun sem sjálfbæran landbúnað eru algerlega úti að aka. Menn eru þar fjarri raunveruleikanum, því að á næstu árum mun aukin krafa verða um umhverfisvernd og sjálfbæran landbúnað. Það verður einnig aukin krafa um gæði matvæla og heilnæmar landbúnaðarvörur. Neytendur vilja ekki hormóna- og lyfjamenguð matvæli sem eru fylgifiskar verksmiðjubúskapar. Þetta varðar lýðheilsu.
Ísland sem ferðamannaland hefur gríðarlega mikla hagsmuni af því að landbúnaður hér sé sjálfbær. Einnig að við höldum okkar dreifðu byggðum og fjölskyldubúum okkar af hóflegri stærð. Þá verða menn að hafa náttúruvernd í hávegum og að bændur taki þátt í þessu öllu. Enn betra væri ef fleiri færu í lífrænan búskap.“
Í viðtalinu í Tímariti Bændablaðsins sendi Ólafur ráðamönnum og þjóðinni allri ákveðin skilaboð á svipuðum nótum og bandaríski vísindamaðurinn Dennis L. Meadows.
Menn hugi að umhverfismálum og gæðum matvæla
„Mín skilaboð inn í framtíðina eru að menn hugi vel að umhverfismálunum og gæðum matvæla. Einnig að huga vel að því hvernig vörurnar eru framleiddar og þá er ekki víst að þegar til lengdar lætur sé alltaf best fyrir þjóðina að miða eingöngu við að vörurnar kosti sem minnst. Slíkt gæti orðið dýrkeypt í framtíðinni. Þeir sem eru í dag að prísa stóru búin og fjárhagslegu hagkvæmnina í slíkum rekstri eru ekki að skoða skuggahliðarnar í þeirri framleiðslu, þær eru gríðarlegar. Það lýtur ekki bara að mengun og röskun byggða, því að verksmiðjubúskaparvæðingin er mjög fjandsamleg velferð dýra. Velferð dýra er orðið stórmál í dag og miklu meira en áður var. Það er alveg klárt að ef byggðirnar út um land og sveitirnar fá ekki að blómstra þá dalar landbúnaðurinn og því þarf að fara að hugsa þessi mál alveg upp á nýtt út frá sjálfbærri þróun, náttúru- og umhverfisvernd. Þá komumst við ekki hjá því að skoða búskaparhættina sem mér finnst ekki vera gert nógu vel í dag.“
Megum ekki kasta frá okkur gulleggjunum
„Við eigum fullt af fólki sem hefur burði til að takast á við þetta. Ef við höldum rétt á málum, þá eigum við hér mjög bjarta framtíð. Pössum upp á fæðuöryggið og matvælaöryggið líka, en það lýtur meira að gæðum afurðanna. Ef við gætum okkar getum við gert þetta mjög vel, en ef við förum yfir í það sem ég vil kalla verksmiðjubúskap, þá töpum við öllum þessum kostum. Þá erum við farin að kasta frá okkur gulleggjunum,“ sagði Ólafur.