200 tonn af lambakjöti seld til Spánar
Kjötafurðastöð Kaupfélags Skagfirðinga hefur endurnýjað kjötsölusamning við spænska kjötkaupendur. Um er að ræða 200 tonn af lambakjöti í hlutum.
Ágúst Andrésson, forstöðumaður Kjötafurðastöðvar KS, segir að Spánverjarnir sem um ræðir hafi verið í viðskiptum við KS frá árinu 2004 og því tryggir viðskiptavinir.
„Samningurinn gildir fyrir sláturtíðina í haust eða framleiðslu 2019 og áþekkur samningnum frá síðasta ári hvað varðar magn. Samanlagt eru KS og Sláturhúsið á Hvammstanga að selja þeim rúm tvö hundruð tonn af lambakjöti í hlutum og mest af bógum en minna af hryggjum og verður allt magnið afgreitt í sláturtíð,“ segir Ágúst.