Aðgengi að hollu mataræði fer versnandi
Á ári hverju gefur Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) út skýrslu um stöðu fæðuöryggis og næringar á heimsvísu sem hefur það markmið að binda enda á hungursneyð og vannæringu í heiminum.
Skýrslan greinir einnig frá þeim áskorunum sem standa í vegi fyrir því að markmiðin náist. Í skýrslunni má lesa um markmið sjálfbærrar þróunar heimsins sem gera ráð fyrir að binda enda á hungursneyð og vannæringu á heimsvísu árið 2030.
Í skýrslunni er greint frá því að um 735 milljónir manna á heimsvísu hafi upplifað hungursneyð árið 2022, sem er aukning um 122 milljónir manna frá árinu 2019. Helstu orsakir eru taldar vera Covid-heimsfaraldurinn, veðurfarsbreytingar og hamfarir ásamt stríðinu í Úkraínu. Þó ber að geta þess að hungursneyð í heiminum hefur ekki aukist milli 2021 og 2022. Ef fram heldur sem horfir munu markmið Sameinuðu þjóðanna um að enda hungursneyð í heiminum fyrir árið 2030 ekki nást og gerir skýrslan nú ráð fyrir að um 600 milljónir manna verði alvarlega vannærðir árið 2030.
Fæðuöryggi ótryggt
Í skýrslunni er sjónum beint að aukinni þéttbýlismyndun sem hefur áhrif á hvernig og hvað fólk borðar. Áætlanir gera ráð fyrir að 7 af hverjum 10 muni búa í stórborgum árið 2050. Þessar breytingar kalla á bæði áskoranir og tækifæri til að tryggja að allir hafi, fjárhagslega og landfræðilega, aðgang að hollu mataræði. Áskoranirnar felast einnig í auknu aðgengi að ódýrum og tilbúnum skyndibita sem er oftar en ekki hitaeiningaríkur, hár í fitu, sykri og/eða salti sem getur leitt til vannæringar. Auk þess er talið að aðgengi að grænmeti og ávöxtum til að mæta daglegum viðmiðum af hollu mataræði sé ekki nægjanlegt. Með aukinni þéttbýlismyndun verður einnig breyting á nýtingu lands sem hefur þar með áhrif á landbúnað.
Fæðuöryggi er skilgreint sem svo að fólk, á öllum tímum, hafi raunverulegan og efnahagslegan aðgang að nægum, heilnæmum og næringarríkum mat sem fullnægir þörfum þess til að lifa virku og heilsusamlegu lífi.
Í skýrslunni er greint frá því að tæplega 30% mannkyns, sem jafngildir 2,4 milljörðum manna, hafi ekki tryggt öryggi að fæðu. Þar af eru um 900 milljón manna sem standa frammi fyrir alvarlegu fæðuóöryggi. Einnig er vakin athygli á því að efnahagslegur aðgangur fólks að hollu mataræði fer versnandi en árið 2021 hafði 42% mannkyns ekki efni á hollu mataræði. Þetta er aukning um 134 milljónir manna frá árinu 2019.