Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Þórður Ingólfsson, læknir í Búðardal, og Sofía B. Krantz sálfræðingur hjá Sálfræðisetrinu ehf. á Hvammstanga og Blönduósi.
Þórður Ingólfsson, læknir í Búðardal, og Sofía B. Krantz sálfræðingur hjá Sálfræðisetrinu ehf. á Hvammstanga og Blönduósi.
Mynd / TB
Fréttir 5. mars 2019

Aðstæður margra bænda eru í raun mjög streituvaldandi

Höfundur: Tjörvi Bjarnason
Sofia B. Krantz, sálfræðingur og sauðfjárbóndi, hélt erindi í Ásbyrgi í Miðfirði 19. febrúar sl. um tilfinningar, þunglyndi, kvíða og streitu. Hún hvatti fundargesti til að tala um tilfinningar sínar. 
 
Sofia var með síðasta erindi kvöldsins en á undan henni höfðu Guðmundur Hallgrímsson fjallað um vinnuverndarverkefnið Búum vel og Þórður Ingólfsson, læknir í Búðardal, rætt um almenna heilsu og vellíðan. 

Soffia B. Krantz sálfræðingur.

 
Sofia byrjaði erindi sitt á því að sýna bændum mynd af mannsheila. „Líkaminn er eins og mallandi vél sem bara gengur og það má segja að í heilanum séu stjórnstöðvarnar. Miðheilinn tengist tilfinningum, hvötum og ósjálfráðum viðbrögðum okkar. Við erum með ákveðnar grunntilfinningar, eins og kvíða og reiði, ekki ólíkt dýrum. En sérkenni mannsheilans er að þar er mjög mikið af svokölluðu tengisvæði, sér í lagi í ytri lögum heilans og framheila, sem gera okkur kleift að hugsa um alls konar hluti. Við getum hugsað óhlutbundið, ímyndað okkur hluti, hugsað fram og til baka í tíma og erum með sjálfsmynd, sem flest dýr eru laus við,“ segir Sofia sem vék síðan orðum sínum að þunglyndi. 

„Það má segja að það slokkni á kerfinu hjá fólki sem er langt leitt af þunglyndi. Megineinkenni þunglyndis er áhugaleysi og depurð. Vonleysi, orkuleysi, þreyta, tregða og framtaksleysi eru allt einkenni þunglyndis, rétt eins og einmanaleiki, tilgangsleysi og úrræðaleysi,“ segir Sofia. Hún bendir á að fordómar séu því miður algengir um ástæður sjálfsvíga. „Vanþekking og fordómar eru verstu óvinir okkar,“ segir hún. 

Fyrsta tilfinning að koma sér úr aðstæðum
 
Sofia segir að allir hafi einhvern tímann upplifað kvíðatilfinningu, svo sem örari hjartslátt, vöðvaspennu, svita, meltingartruflanir og/eða doða í útlimum. Hún segir að fyrsta tilfinning sé að koma sér út úr aðstæðunum. „Að skilja kvíða og hvað hann gerir fyrir okkur getur hjálpað okkur að takast á við vandamálið. Streita stafar af sama líkamskerfi, sem kviknar eðlilega þegar við erum að takast á við einhvers konar verkefni í lífinu. Við getum hins vegar talað um óhóflega streitu þegar streitukerfið er orðið ofvirkt. Streita fylgir gjarnan þegar fólk er undir langvarandi álagi þar sem stjórn okkar er takmörkuð.“ 
 
Sofia bendir á að aðstæður margra bænda séu í raun mjög streituvaldandi um þessar mundir. „Streita getur birst á mjög einstaklingsbundinn hátt. Mótlætisþol okkar minnkar og menn geta orðið viðkvæmir, fljótir í vörn, sveiflast í skapi, verið með stuttan þráð, upplifað lágt sjálfsmat, óöryggi og átt erfitt með að taka ákvarðanir. Streita er stundum fylgifiskur þunglyndis og kvíða en það getur líka verið öfugt. Því er mikilvægt að greina hvert tilfelli fyrir sig til þess að ákveða viðeigandi meðferð,“ segir hún. 
 

Guðmundur Hallgrímsson, verkefnisstjóri í vinnuverndarverkefninu Búum vel, ræðir við bændur.
 
Er munur á kulnun og streitu?
 
Sofia er spurð hver sé munurinn á kulnun (e. burnout) og streitu. „Það má segja að kulnun sé endastöðin, því oft tengist kulnun langvarandi streituvaldandi aðstæðum. Þá snúast viðbrögðin fyrst og fremst um að hlaða batteríin, en það fer jafnframt eftir einstaklingsbundnum þáttum.“
 
Sofia hvetur fólk ávallt til að leita sér læknisaðstoðar og fara í almenna heilsufarsskoðun ef einhvers konar vanlíðan er farin að hafa truflandi áhrif á daglegt líf. „Líkamlegar ástæður geta líka verið orsakavaldur þunglyndis-, kvíða- eða streitueinkenna, t.d. skjaldkirtilsvandi og fleira.“ 
 
Þegar tilfinningar valda vandræðum
 
Sofia segir að nokkur atriði sé hægt að skoða og prófa þegar tilfinningar eru farnar að valda okkur vandræðum. „Við vitum að tilfinningar hafa áhrif á líkamsstarfsemi. Við getum lært að stjórna þessum tengslum og haft áhrif á tilfinningar með því að stjórna líkamsstarfsemi okkar, t.d. öndun. Prófum að anda aðeins hægar, aðeins dýpra, niður í maga, aðeins lengur. Sjáum hvað gerist. Sjáum hvort við getum hægt á önduninni, hægt á líkamanum, og hægt á huganum.“ 
 
Sofia segir gott ráð að tileinka sér núvitund (e. mindfulness), að vera hér og nú. „Núvitund snýst um að beina athyglinni að augnablikinu, af ásettu ráði, taka eftir án þess að dæma. Það er eðlislægt fyrir huga okkar að vera alltaf að dæma, túlka og meta það sem við tökum eftir, þannig að núvitund þarf að æfa og hún krefst fyrirhafnar og þjálfunar.“
 
Aðstæður og fylgitilfinningar
 
Sofia hvatti fundargesti til þess að skoða aðstæður sínar hverju sinni. „Ákveðnar tilfinningar kvikna eðlilega í ákveðnum aðstæðum. Fólk má gjarnan spyrja sig: Af hverju er streita að þjaka mig? Eru tilfinningar mínar í samræmi við aðstæður? Er kannski skiljanlegt að mér líður eins og mér líður í þessum aðstæðum? Til dæmis eru margir bændur með áhyggjur af því að þeir ná ekki endum saman. Erfiðar tilfinningar eru ekki endilega rangar. Hvaða tilfinningar vakna t.d. í umræðu um innflutning á hráu kjöti og sýklalyfjaofnæmi? Er það ekki dass af reiði? Við viljum samt geta stjórnað tilfinningum okkar og ekki láta þær stjórna okkur. Þær eru ekki alltaf skynsamlegar þegar þær verða mjög sterkar,“ segir Sofia. 
 
Skilningur og samkennd 
 
Hún segir að ef eitthvað geti hjálpað í erfiðum aðstæðum þá er það skilningur og samkennd. „Samkennd (e. compassion) snýst um að vera næmur fyrir sársauka, eigin og annarra, og vilja gera eitthvað til þess að lina hana, s.s. að vilja hjálpa. Við getum veitt okkur hughreystingu, hvatningu og uppbyggilegar leiðbeiningar, en getum líka verið versti óvinur okkar sjálfra. Hvernig tölum við við okkur? Við getum verið ansi harkaleg inn á við og sagt ljóta hluti, sem við myndum aldrei segja við annað fólk. Sjálfsgagnrýni getur verið mjög hamlandi, jafnvel lamandi. Samkennd hins vegar snýst ekki um að bara vera „næs“ við sjálfan sig og útilokar ekki að maður vilji gera betur. Það sem er hjálplegt að gera er ekki alltaf það sem er auðvelt að gera eða það sem við finnum okkur knúin til að gera. Varnarkerfið okkar er alltaf tilbúið að verja okkur, þannig að samkennd krefst oft styrks og hugrekkis,“ segir Sofia.
 
Stjórn, skipulag og markmið
 
„Oft er talað um stjórnsemi á neikvæðum nótum, t.d. sem eins konar frekju. Stjórnsemi getur að vísu orðið óhófleg, en auðvitað er oft jákvætt að taka stjórnina. Horfum á aðstæður okkar og spyrjum: Get ég stjórnað þessu eða ekki? Ef ég get stjórnað þessu, fæ ég virkilega eitthvað út úr því? Það er líka mikilvægt að geta stoppað sig af og sagt „nei“. Það er í lagi. Við þurfum ekki einu sinni að gefa ástæðu. Það er staðreynd að sólarhringurinn er bara 24 klukkutímar og við þurfum að forgangsraða. Hvenær geri ég hvað?“
 
Sofia segir að það hjálpi að setja skipulag og markmið niður á blað, hugsa um rútínur, lífsstíl og hverju við erum að troða inn í sólarhringinn. „Hvernig getum við skipulagt okkur þannig að við komum í veg fyrir að við hrösum? Það er mikilvægt að taka tillit til stöðu og heilsu hverju sinni þegar við setjum okkur markmið. Það er einfaldlega ekki hjálplegt að setja okkur of háleit markmið, sem við stöndum svo ekki undir,“ segir Sofia, sem í lok fundarins hvatti bændur til að tala saman um heilsu og líðan. „Þegar upp er staðið erum við líka hópdýr með meðfædda þörf fyrir að tilheyra, að mynda tengsl, að fá aðstoð og veita aðstoð,“ segir Sofia B. Krantz sálfræðingur. 
 
Eftirfarandi myndir voru teknar á fundarstað:
 
 
 
 
 

Sjá einnig umfjöllun frá fundinum: "Töluðu um heilsuna í Húnaþingi".
 
 
Ákvörðun felld úr gildi
Fréttir 21. nóvember 2024

Ákvörðun felld úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að nýlega samþykktar undaþágu...

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...

Pólar hestar fyrirtæki ársins
Fréttir 19. nóvember 2024

Pólar hestar fyrirtæki ársins

Markaðsstofa Norðurlands hefur valið hestaleiguna Pólar hestar sem fyrirtæki árs...

Byggja stóra íþróttamiðstöð
Fréttir 18. nóvember 2024

Byggja stóra íþróttamiðstöð

Í Árnesi er verið að byggja fyrstu íþróttamiðstöðina í Skeiða- og Gnúpverjahrepp...

Afstaða framboða til landbúnaðarmála
Fréttir 15. nóvember 2024

Afstaða framboða til landbúnaðarmála

Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði til alþingiskosninga, sem fram fara 30. ...

Nýjar höfuðstöðvar
Fréttir 15. nóvember 2024

Nýjar höfuðstöðvar

Samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðher...