Afurðahæsta kúabú landsins 2018 var Hóll í Svarfaðardal
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Hóll í Svarfaðardal er nú afurðahæsta kúabú landsins og var með 8.902 kg að meðaltali eftir hverja árskú 2018. Skákar Hól þar með Brúsastöðum í Vatnsdal sem nokkrum sinnum hefur vermt efsta sætið. Í þriðja sæti var svo Hraunháls í Helgafellssveit.
Það er athyglisvert hvað íslenskir kúabændur hafa verið að ná miklum árangri í ræktun, eldi og umhirðu sinna gripa á undanförnum árum. Sést það best á því að öll tíu afurðahæstu búin eru að skila yfir 8 tonnum að meðaltali á árskú. Þá koma nokkur bú þar á eftir sem eru líka yfir 8.000 kg og enn fleiri sem dansa þar við 8.000 kg mörkin samkvæmt gögnum Ráðgjafarþjónsutu landbúnaðarins (RML).
Að einhverju leyti má trúlega skýra þetta með tilkomu mjaltaþjóna auk þess sem bændur hafa verið að bæta alla aðstöðu og byggja upp ný fjós til að mæta kröfum um bættan aðbúnað á undanförnum árum.