Ágúst verður forstöðumaður
Ágúst Sigurðsson hefur verið skipaður forstöðumaður Lands og skógar, nýrrar stofnunar sem verður til við sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktarinnar.
Í tilkynningu frá matvælaráðuneytinu segir að Ágúst hafi verið sveitarstjóri Rangárþings ytra frá árinu 2014 til 2022 og rektor við Landbúnaðarháskóla Íslands frá 2004 til 2014, þar sem hann stýrði m.a. sameiningu Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Garðyrkjuskóla ríkisins. Þá starfaði Ágúst sem landsráðsnautur í búfjárerfðafræði og hrossarækt hjá Bændasamtökum Íslands frá árinu 1996 til 2004. Ágúst hefur setið í stjórnum, ráðum, nefndum og hópum tengdum meðal annars landbúnaði, landgræðslu, hrossarækt og háskólamálum. Hann hefur ritað fjölda vísindagreina í alþjóðlegum ritrýndum vísinda og ráðstefnuritum ásamt greinum í fagtímarit og blöð.
Land og skógur tekur formlega til starfa 1. janúar 2024.