Áhersla lögð á sjálfbæran landbúnað
Stefnumörkun Bændasamtaka Íslands til framtíðar var samþykkt, með smávægilegum breytingum, á Búnaðarþingi sem haldið var dagana 31. mars og 1. apríl síðastliðinn.
Gunnar Þorgeirsson, formaður BÍ, segir að með samþykktinni viti stjórn og starfsmenn samtakanna hvert skuli stefnt næstu vikur og misseri í starfi Bændasamtakanna.
„Að mínu mati stendur það upp úr eftir þingið.“
Í stefnumörkun BÍ er áhersla lögð á sjálfbæran landbúnað
Í stefnumörkun segir meðal annars að áhersla sé lögð á sjálfbæran landbúnað og að landbúnaður auki fjölbreytni atvinnulífs og menningar og sé mikilvægur þáttur í aðdráttarafli sveitanna. Auk þess sem íslenskur landbúnaður sé hluti af þungamiðju í innlendri matvælaframleiðslu. Einnig að umhverfi íslensks landbúnaðar þurfi að vera samkeppnishæft til að standa undir því hlutverki sem greinin gegnir í íslensku samfélagi, meðal annars til að skapa atvinnu og byggðafestu.
Matvælaöryggi á allra vörum
Forseti Íslands, innviðaráðherra og matvælaráðherra voru meðal þeirra sem héldu erindi við setningu Búnaðarþings. Öll voru þau sammála um mikilvægi íslensks landbúnaðar og hversu nauðsynlegt væri að tryggja matvælaöryggi þjóðarinnar með því að styrkja stoðir landbúnaðar í landinu.
Fjölgað í stjórn
Á þinginu var fjölgað í stjórn Bændasamtakanna úr fimm í sjö og segir Gunnar að það hafi verið gert vegna óska og samþykktar búnaðarþingsfulltrúa með bráðabirgðaákvæði á aukabúnaðarþingi í júní 2021.
Landbúnaðarverðlaunin
Auk erinda sem flutt voru við setningu þingsins veitti matvælaráðherra þremur búum Landbúnaðarverðlaunin 2022. Þeir sem hlutu verðlaunin voru bændurnir á Bollastöðum, Borghildur Aðals og Ragnar Ingi Bjarnason, Biobú sem hefur sérhæft sig í framleiðslu á lífrænum mjólkurafurðum og Karólína Elísabetardóttir, sauðfjárbóndi í Hvammshlíð í Skagabyggð.
Vel heppnað Búnaðarþing
„Búnaðarþing var alveg til fyrirmyndar og almennt gerður góður rómur að setningarhátíðinni, enda mjög vel staðið að undirbúningnum af hálfu starfsfólks Bændasamtakanna. Undirbúningurinn fyrir þingið, sem átti sér stað á Búgreinaþingum sem haldin voru fyrir þingið, skiluðu góðri vinnu og auðvelduðu starfið á Búnaðarþingi verulega. Við gátum því á þinginu rætt um stærstu málin sem skipta heildarsamtök bænda mestu máli,“ segir Gunnar.
– Sjá nánar í Bændablaðinu á blaðsíðum. 2, 4 og 10.