Áhrif á metangasmyndun misjöfn eftir þörungartegundum
Nýverið var ákveðið að halda áfram með verkefnið SeaCH4NGE, en þar er kannað hvort minnka megi losun á metani í nautgripaeldi með því að blanda þörungum í fóðrið. Ásta Heiðrún Pétursdóttir hefur stýrt verkefninu af hálfu Matís, en það hefur verið unnið í samvinnu við háskólana í Reading á Englandi og Hohenheim í Þýskalandi og fyrirtækið ABP Food í Bretlandi. Í fyrri hluta þess var hægt að sýna fram minni losun á metani með notkun á ákveðnum þörungategundum, en ekki jafn mikinn árangur og vonir stóðu til.
Vitað er að nautgriparæktin á stóran þátt í heildarlosun gróðurhúsalofttegunda sem er af manna völdum. Talið er að um rúmlega þrjátíu prósent af þessari losun verði til í meltingarvegi nautgripa sem metangas, sem síðan er ropað upp um öndunarveginn.
Möguleg áhrif þörunga á afurðirnar
Ásta Heiðrún segir að í framhaldshluta verkefnisins, sem nú fer af stað, verði haldið áfram með rannsóknir á mismunandi þörungategundum sem fóðurbæti, auk þess sem skoðað verði hver möguleg áhrif verða á afurðirnar; mjólk og kjöt.
„Þessi hugmynd kom upprunalega frá Matís sem ræddi við samstarfsaðila áður en sótt var um styrk til EIT-Food,“ segir Ásta Heiðrún og vísar til leiðandi nýsköpunarverkefnis í Evrópu sem vinnur meðal annars að markmiðum um sjálfbærara og heilnæmara matvælakerfi.
Fjöldi starfsmanna sem koma að verkefninu
„Þetta er stórt rannsóknarverkefni svo hátt í tuttugu af starfsfólki Matís hefur komið að þessu verkefni enda fjölbreytt verkefni sem við höfum sinnt, svo sem efnamælingum, kynningum og ýmsu öðru. Verkefnið er unnið í samstarfi og kemur fjöldi starfsmanna sem starfa við háskólana í Reading og Hohenheim, auk starfsmanna hjá ABP Food í Bretlandi, að verkefninu. Enda þarf heilmikinn mannafla til að sjá um þau dýr sem unnið er með í fóðurtilraunum og einnig við efnamælingar,“ útskýrir Ásta Heiðrún.
Þegar hún er spurð um hvort þessar rannsóknir séu einstakar að einhverju leyti, segir hún að það séu vissulega fleiri að skoða þörunga þessa dagana með tilliti til metanlosunar í nautgripum. „Það eru sambærilegar rannsóknir í gangi eða að fara í gang í Evrópu til dæmis. Ég veit í raun ekki nákvæmlega hvaða þörungategundir aðrir eru að skoða, en þar eru örugglega snertifletir,“ segir hún.
Ekki jafn afgerandi niðurstöður og í Ástralíu
Áður hefur verið greint frá ástralskri rannsókn í Bændablaðinu, þar sem þörungategundin Asparagopsis taxiformis þótti skila góðum niðurstöðum, eða allt að 99 prósenta minnkun á metangasmyndun, en þeirri tegund var safnað við strönd Queensland í Ástralíu. Ásta Heiðrún segir að hún geti ekki gefið upp þær þörungategundir sem hafi komið best út í fyrri hluta rannsóknarinnar. „Ég get þó sagt að flestar ef ekki allar þörungategundirnar sem við skoðuðum í fyrra finnast á Íslandi. Það var enda lögð sérstök áhersla á evrópska þörunga.
Þegar þetta úrval þörunga var skoðað með rannsóknum í tilraunaglösum sást að áhrif á metanframleiðslu voru misjöfn eftir tegundum og ljóst er að sumar þörungategundir hafa engin áhrif. Við sjáum að þeir þörungar sem við höfum rannsakað hingað til hafa þó ekki haft jafn afgerandi áhrif og ástralskar rannsóknir á þörungategundinni Asparagopsis taxiformis sem hefur verið fjallað um í fjölmiðlum.“
Sex hundruð kýr við Reading- háskóla
Að sögn Ástu Heiðrúnar veitir EIT Food vanalega einungis styrki til eins árs, en nú fær verkefnið SeaCH4NGE heilt ár í viðbót. „Á síðasta ári skoðuðum við fjölda af þörungategundum og völdum áhugaverðustu tegundirnar til að skoða ítarlegar, meðal annars með fóðurtilraun hjá Háskólanum í Reading. Hann er með mjög flotta aðstöðu. Þeir eru með stórt bú og yfir 600 kýr. Þeir eru síðan með sérstaka klefa sem nýta má til að mæla metanlosun. Við notuðum þessa klefa í fóðurrannsóknina sem var framkvæmd í lok síðasta árs. Styrkurinn fyrir þetta ár verður notaður til að skoða áhrif þess að bæta þörungum í fóður á afurðir og einnig til að framkvæma frekari mælingar í tilraunaglösum til að öðlast dýpri skilning á þörungum sem fóðurbæti.“