Alþjóðlegt samstarf mikilvægt
Deild hrossabænda leggur áherslu á kynningu á starfi hrossabænda og aukna þátttöku þeirra sem stunda hrossabúskap. Fyrir Búnaðarþinginu liggur tillaga frá deildinni er lýtur að mikilvægi WorldFengs, upprunaættbókar íslenska hestsins.
„Eitt af því sem við í deild hrossabænda þurfum að gera og er aðkallandi er að auka þátttöku þeirra sem eru að stunda hrossabúskap í stórum og smáum stíl til að efla okkar búgreinadeild. Það á reyndar ekki bara við um hrossabændur en auka þarf þátttöku allra bænda í Bændasamtökunum,“ segir Sveinn Steinarsson, formaður deildar hrossabænda.
„Helstu áherslur hrossabænda í tengslum við komandi Búnaðarþing er að kynna hvað starfið okkar gengur út á og hvaða þættir í okkar starfi eru mikilvægastir. Fyrir þingið mun koma tillaga sem samþykkt var á Búgreinaþinginu og varða mikilvægi þess að staðið sé vörð um ættbók íslenska hestsins, Worldfeng, en ættbókin er alger miðja í öllu okkar starfi og varðar ræktun hestsins um víða veröld,“ segir Sveinn.
„Þá má einnig nefna, þó að ekki liggi fyrir beint tillaga þess efnis, að þátttaka okkar í alþjóðlegu samstarfi um ræktun hestsins er afar mikilvæg enda er Ísland upprunalandið og mikilvægt að við stöndum vörð um það.“
Þá segir Sveinn að þátttaka hrossabænda í markaðsverkefninu Horses of Iceland sé farvegur þeirra í kynningu á hestinum og hestamennskunni. „Ánægjulegt að segja frá því að nú er búið að tryggja samstarfið út árið 2025, sem við erum ákaflega stolt af og ánægð með.“