Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Ár jarðvegsins
Fréttir 30. mars 2015

Ár jarðvegsins

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson

Sameinuðu þjóðirnar hafa ákveðið að helga árið 2015 málefnum jarðvegsverndar og er það virðingarvert. Það er að renna upp fyrir heimsbyggðinni að til þess að fæða milljarða manna í framtíðinni þarf að huga vel að jarðveginum – moldinni og öllu því sem af henni sprettur.

„Heilbrigður jarðvegur – heilbrigt líf“eru einkunnarorð þessa framtaks Sameinuðu þjóðanna. Jarðvegur er undirstaða stórs hluta matvælaframleiðslu í heiminum hvort sem það er ræktun matjurta eða búfjár.

Þurfum að taka okkur á

Afleiðingar aukins mannfjölda og umhverfisáhrif vegna ræktunar og loftslagsbreytinga eru með stærstu viðfangsefnum framtíðarinnar. Til þess að jörðin sé byggileg þurfum við mennirnir að taka okkur á og meðal annars finna lausnir til að framleiða meiri mat. Þær lausnir mega þó ekki vera á kostnað jarðarinnar.

Jarðvegurinn er undirstaða landbúnaðarins, nauðsynlegur lífkerfinu og fæðuöryggi jarðarbúa. Sjálfbær nýting og virðing fyrir því sem jörðin gefur af sér er lykillinn að því að tryggja fæðuöryggi til framtíðar.

Bændur um víða veröld berjast við vandamál sem má meðal annars rekja til þess að ekki hefur verið gætt nægilega vel að jarðvegsgæðum.  Loftslagsbreytingar og breytt veðurfar hafa vissulega haft sitt að segja í því efni, en þær breytingar eru líka af mannavöldum, þó með öðrum hætti sé. Of mikið ræktunarálag, mengun, ofnotkun á áburði, varnarefnum og einhæf ræktun hafa víða leitt menn í ógöngur. Við höfum því miður rýrt gæði jarðarinnar verulega og það er eitt stærsta sameiginlega viðfangsefni okkar allra að snúa þeirri þróun við. Það er og verður erfitt, en ekki útilokað.

Hér á landi elds og ísa þekkjum við vel hvað jarðvegurinn er mikilvægur og viðkvæmur.
Íslenskir bændur hafa gert sitt til þess að vernda og byggja upp heilbrigðan og gjöfulan jarðveg. Þó svo að hér sé nægt landrými til ræktunar, miðað við þann landbúnað sem nú er rekinn í landinu, þá verðum við að hafa í huga að við erum með takmarkaða auðlind í höndunum og verðum að fara vel með hana. Þar má nefna tvennt sem bændum er hugleikið: landgræðslu og beitarstjórnun.
Saga skipulegrar landgræðslu á Íslandi nær aftur til ársins 1907 þegar fyrstu lög um landgræðslu og skógrækt voru samþykkt á Alþingi. Við þekkjum öll árangur sem náðst hefur við að endurheimta fyrri landgæði, til dæmis á Skeiðunum í Árnessýslu þar sem nú er blómlegur landbúnaður en svartir sandar ógnuðu búskap um tíma.

Bændur hafa tekið fullan þátt í baráttunni gegn landeyðingunni

Íslenskir bændur hafa tekið fullan þátt í baráttunni gegn landeyðingunni. Um 600 taka nú  þátt í landgræðsluverkefninu „Bændur græða landið“ með Landgræðslu ríkisins. Verkefnið hefur verið starfrækt  frá 1990, auk þess sem ýmsir sinna afmörkuðum verkefnum í samstarfi við landbótafélög, nágranna- eða sveitarfélög. Þessir aðilar hafa með ötulu starfi á viðkvæmum svæðum náð að hefta jarðvegseyðingu og klæða landið gróðri á ný. Nú er talið að meira grói upp en það sem eyðist og landið því í framför. Það er mikið ánægjuefni. Bændur eru eins og að framan greinir fjölmennur hópur landgræðslufólks hérlendis. Miklu skiptir að það starf haldi áfram og eflist. Því miður hefur oft komið upp núningur á milli bænda og Landgræðslunnar í þessum verkefnum eins og til dæmis hefur komið fram á síðum Bændablaðsins. Það er höfuðnauðsyn að Landgræðslan geri allt sem í hennar valdi stendur til að hafa bændur með sér í þessum verkefnum. Á það hefur stundum skort og það þarf að breytast.  Landbótastarfið þarf á því að halda.

Náttúruöflin stórtæk

Umfjöllun um þessi mál hefur vaxið í kringum jarðhræringar og eldgos síðustu ára. Þar höfum við séð hvernig milljónir tonna af jarð- og gosefnum hafa fokið um hálendið, um ræktarlönd bænda og út í hafsauga á stuttum tíma. Fyrirgangur náttúrunnar hefur spillt stórum svæðum og valdið margháttuðum vandamálum í búskap.  Nú í vikunni  var haldið vel heppnað málþing í Bændahöllinni um gosið í Holuhrauni og afleiðingar þess. Þar kom meðal annars fram að gosið var eitt af 10 stærstu eldgosum sem þekkt eru í sögunni. Afleiðingar og áhrif þess eru enn ekki ljós nema að litlu leyti og fjölmargar rannsóknir eru enn í gangi, en fyrstu niðurstöður benda til að neikvæð áhrif hafi verið minni en vænta mátti.

Beitarálag hefur snarminnkað á síðustu áratugum

Hluta ársins gengur sauðfé og að hluta til hross á afrétt, upp til fjalla og inn til dala. Beitarálag hefur snarminnkað á síðustu áratugum og beitinni er stjórnað betur en áður var. Flestir bændur vinna eftir ákveðinni gæðastýringu sem meðal annars miðar að því að fara vel með landið. Minna álag er á viðkvæm afréttarlönd og víða hafa menn náð að græða upp og styrkja rýr svæði. Fækkun sauðfjár hefur haft sitt að segja en einnig hafa búskaparhættir breyst. Stærsta breytingin er að vetrarbeit sauðfjár hefur lagst af, en hún olli miklu álagi á landið á meðan hún tíðkaðist. Fleiri bændur beita fé sínu á heimalönd eða upprekstrarheimalönd, en talið er að tæpum fjórðungi sauðfjár sé beitt á afréttarlönd.

Moldin er auðlind

Það er fagnaðarefni að umræða um mikilvægi jarðvegsins sé nú komin á flug. Við þurfum í sameiningu að fræða og auka vitund um mikilvægi þessa málaflokks. Þjóðin tók vel undir um miðjan níunda áratuginn þegar skógrækt og landgræðsla voru í deiglunni hjá fjölmiðlum og í þjóðfélaginu öllu. Fólk var meðvitað um gildi þess að rækta og bæta landgæði. Þá stemmingu þurfum við að endurvekja. Um leið þarf að ræða til hlítar um landnýtingu og hvernig við viljum umgangast þá auðlind sem felst í moldinni.

Skylt efni: Jarðvegur | Landgræðsla

Ákvörðun felld úr gildi
Fréttir 21. nóvember 2024

Ákvörðun felld úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að nýlega samþykktar undaþágu...

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...

Pólar hestar fyrirtæki ársins
Fréttir 19. nóvember 2024

Pólar hestar fyrirtæki ársins

Markaðsstofa Norðurlands hefur valið hestaleiguna Pólar hestar sem fyrirtæki árs...

Byggja stóra íþróttamiðstöð
Fréttir 18. nóvember 2024

Byggja stóra íþróttamiðstöð

Í Árnesi er verið að byggja fyrstu íþróttamiðstöðina í Skeiða- og Gnúpverjahrepp...

Afstaða framboða til landbúnaðarmála
Fréttir 15. nóvember 2024

Afstaða framboða til landbúnaðarmála

Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði til alþingiskosninga, sem fram fara 30. ...

Nýjar höfuðstöðvar
Fréttir 15. nóvember 2024

Nýjar höfuðstöðvar

Samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðher...