ARR-arfgerðin fannst ekki á Kambi
Eftir að hin viðurkennda verndandi arfgerð ARR, gegn riðu í sauðfé, fannst í sex einstaklingum í Þernunesi í Reyðarfirði var hafist handa við að reyna að finna hvaðan arfgerðin hefði borist í Þernunes. Var strax horft til Kambs í Reykhólasveit, en þaðan kom kindin Njála sem er formóðir allra sex gripanna. Nýlega varð hins vegar ljóst að arfgerðin væri ekki þaðan komin, þar sem hún fannst ekki í þeim 45 sýnum sem tekin voru þar á bæ úr þeim einstaklingum sem skyldastir voru Njálu.
Eyþór Einarsson sauðfjárræktarráðunautur greinir frá þessum tíðindum á vef Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins og segir að þegar þetta varð ljóst hafi verið ákveðið að snúa sér aftur að Þernunesi og voru 95 sýni tekin þar 2. febrúar sem nú eru í greiningu.
Fimm hundruð bændur og 34 þúsund kindur
Þá segir Eyþór að samhliða sé átaksverkefnið um arfgerðargreiningar farið af stað, sem sé það umfangsmesta í sögu sauðfjárræktar á Íslandi. Um 500 bændur hafa sótt um að taka þátt í verkefninu fyrir rúmlega 34 þúsund kindur, þar sem leitað verður að arfgerðum sem geta mögulega talist verndandi gegn riðu.
Því er útlit fyrir að á næstu vikum og mánuðum muni skýrast hvaðan ARR-arfgerðin kemur og hversu útbreidd hún er í stofninum.