Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Markaður fyrir innlendar hafravörur er vaxandi og bændur sem hafa áhuga á að hefja hafrarækt fara fjölgandi. Því liggur beinast við að fjölga í ræktendahópnum og framleiða meira af íslenskum höfrum. Síðastliðinn tvö sumur hafa starfsmenn Jarðræktarmiðstöðvarinnar lagt út yrkjatilraunir til að kanna jarðræktareiginleika mismunandi arfgerða við íslenskar aðstæður með það að markmiði að finna hentugt yrki.
Markaður fyrir innlendar hafravörur er vaxandi og bændur sem hafa áhuga á að hefja hafrarækt fara fjölgandi. Því liggur beinast við að fjölga í ræktendahópnum og framleiða meira af íslenskum höfrum. Síðastliðinn tvö sumur hafa starfsmenn Jarðræktarmiðstöðvarinnar lagt út yrkjatilraunir til að kanna jarðræktareiginleika mismunandi arfgerða við íslenskar aðstæður með það að markmiði að finna hentugt yrki.
Mynd / ghp
Fréttir 8. nóvember 2021

Augljós tækifæri með aukinni hafrarækt

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Hafrarannsóknum Jarðræktarmiðstöðvar Landbúnaðarháskóla Íslands er ætlað að bera kennsl á bestu hafrayrki með tilliti til ræktunar, gæða og smekk til manneldis. Lagður hefur verið grunnur að kynbótum á höfrum fyrir íslenskar aðstæður.

Verkefnið Mannakorn – Hafrar og hámörkun gæða, sem Jarðræktar­miðstöð LbhÍ stendur að, hefur hlotið náð fyrir augum stjórnar Matvælasjóðs í báðum úthlutunum fyrir árin 2021 og 2022. Við fyrstu úthlutun fékk verkefnið tæpar 15 milljónir kr. og nú í september um 18 milljónir kr. sem reyndist stærsti landbúnaðartengdi styrkur Matvælasjóðs í ár. Verkefnið er leitt af Hrannari Smára Hilmarssyni, tilraunastjóra Jarðræktarmiðstöðvar LbhÍ, og er unnið í samstarfi við MATÍS, RML, Lífland og kornbændur víða um land.

„Æskilegast væri að kynbæta hafra fyrir íslenskar aðstæður. Hér á landi hefur ekki verið virkt kynbótaverkefni fyrir hafra eins og í byggi, en þetta verkefni sem Matvælasjóður styrkir leggur grunn að plöntukynbótaverkefni í höfrum. Skynsamlegast væri ef plöntukynbætur væru á föstum fjárlögum á einn eða annan hátt, til dæmis sem hluti af búvörusamningum eða í beinum samningum við ráðuneyti. Kannski ættu bændur að stofna kynbótafyrirtæki með aðkomu hins opinbera. Hvað sem verður þá er mikilvægt að gera eitthvað og það sem fyrst,“ segir Hrannar Smári.

 Ég á mér þann draum að landið sé prýtt gylltum höfrum á haustin og Ísland verði hafraheimsveldi,“ segir Hrannar Smári sem skoðar hér tilraunareiti hafra á Hvanneyri.

Ekkert fast fjármagn er tileinkað plöntukynbótum á fjárlögum. Í búvörusamningum eru u.þ.b. 250 milljónir eyrnamerktar kynbótum á húsdýrum, s.s. rekstur nautastöðvar og sæðingastarf. Hins vegar þarf að leita á náðir hagsmunafélaga til að fjármagna rannsóknir. Til hliðsjónar hafa Danir nýlega komið á fót nýjum sjóði, „Plantefond“, sem styður rannsóknir sem bæta loftslagsárangur. Einnig geta vísindamenn sótt fjármagn til einkaaðila og fengið opinbera styrki á móti. Slík kerfi eru ekki til staðar hér á landi.

Leitin að réttu höfrunum

Hafrar eru þegar ræktaðir hér á landi en að afar litlu leyti. Stærsti einstaki framleiðandinn er bærinn Sandhóll í Meðallandi, en þar hafa verið ræktaðir hafrar samfleytt í minnst 12 ár. Umfang þeirrar ræktunar er talsvert og skilar það sér í haframjöli og tröllhöfrum sem nálgast má í flestum matvöruverslunum.

„Eins og stendur hefur reynsla bænda í Meðallandinu verið best af sænska yrkinu Cilla, en Cilla er aldarfjórðungsgamalt yrki frá Svíþjóð ætlað í fóður. Áhugi sænskra bænda á yrkinu hefur farið dvínandi og erfitt hefur reynst að fá sáðkorn af Cillu og svo gæti farið að það hverfi alfarið af sáðvörumarkaði. Því þarf að prófa og þróa ný yrki með aðferðum kynbótafræðinnar til þess að efla og tryggja örugga ræktun hér á landi,“ segir Hrannar Smári.

Hafrar henta vel til sáðskipta við bygg því þeir rjúfa sjúkdómshringrásina sem herjar á bygg. Séð yfir hafra- og byggtilraunir á Hvanneyri.

Síðastliðinn tvö ­sumur hafa starfsmenn Jarðræktarmiðstöðvarinnar því lagt út yrkjatilraunir til að kanna jarðræktareiginleika mismunandi arfgerða við íslenskar aðstæður.

„Fyrstu niðurstöður gefa til kynna að til sé á markaði yrki sem henta vel við íslenskar aðstæður. Mikill breytileiki var milli yrkja á eiginleikum, bæði hvað varðar uppskeru og gæði í tilraunum okkar. Öll eiga yrkin þó það sameiginlegt að vera lengi að þroskast og þurfa lengri vaxtartíma en bygg, en eru þó þeim eiginleika gædd að vera strásterk og standa vel af sér erfið veður á haustin. Niðurstöðurnar frá í fyrra sýndu að við gátum mælt með finnska yrkinu Perttu til ræktunar hér á landi en það hafði ekki verið áður prófað hér,“ segir hann og bætir við að notkun á yrkinu hafi verið algeng meðal hafraræktenda í sumar.

„Niðurstöður 2021 gefa sterkari mynd af því hvað við getum mælt með því þá hafa yrkin fengið meiri reynslu í tilraunum hér á landi.“

Mikil neysla og auðveld innleiðing

Íslendingar borða mikið af höfrum. Árið 2011 var neysla matvæla úr korni á Íslandi 91,3 kg á mann á ári. Hafragrautur var 12% af þessari neyslu og ljóst er að hafrar hafa verið í fleiri matvörum, eins og kexi og morgunkorni. Þess má t.d. geta að hið vinsæla Cheerios er haframorgunkorn og því rakið að framleiða múslí úr íslensku korni. Á árinu 2014 var heildarinnflutningur á korni 79 þúsund tonn (bæði til matvælaframleiðslu og fóðurs) en uppskera korns var tæplega 14 þúsund tonn og var nær eingöngu bygg.
Bygg hefur verið ræktað á rúm­lega 400 býlum hér á landi og því segir Hrannar ljóst að margir bændur búa yfir hæfni, tækjakosti og landrými til að rækta einnig hafra fái þeir til þess leiðbeiningar og yrki sem standast kröfur.

„Bændur þurfa ekki að fara út í stórkostlegar fjárfestingar. Sömu tæki nýtast við jarðvinnslu, sáningu og uppskeru og í byggi. Hafrar henta vel til sáðskipta við bygg því þeir rjúfa sjúkdómshringrásina sem herjar á bygg, það getur rofið sveppasmit milli ára sem dregur úr notkun á sveppavarnarefnum í landbúnaði og getur aukið uppskeru í byggi. Að auki hafa rannsóknir frá Noregi sýnt að hafrar eru sérstaklega færir um að taka upp fastbundinn fosfór úr jarðvegi sem er algengt einkenni íslenskrar túnræktar.“

Hollustugildi hafra

Fjöldi næringafræðilegra rann­sókna styðja fullyrðingar þess að hafrar séu í reynd úrvalsmatur. Þeir innihalda B-vítamín og hollar fitur. Prótein og amínósýrusamsetning þeirra er einkar hentug til manneldis. Hafrar hafa sýnt jákvæð áhrif á hjarta- og æðasjúkdóma, þyngdarstjórnun og sykursýki II. Hafrar eru einnig ríkir af trefjaefnunum beta-glúkan, sem er talin náttúruleg vörn gegn sýkingum af völdum vírusa, baktería og sveppa í mönnum. Einnig hafa þeir sýnt fram á að lækka blóðsykurshlutfall og kólesteról í blóði fólks sem neytir þeirra.

Vaxandi eftirspurn

Hafrar hafa fleiri notkunarmöguleika en aðeins sem haframjöl í grauta. Verið er að þróa leiðir til að gera haframjólk úr íslenskum höfrum og hafraskyr, sem einnig hlutu styrk úr Matvælasjóði. Margir aðrir möguleikar eru í boði fyrir frekari úrvinnslu og verðamætasköpun á höfrum sem hráefni, t.d. var verið að setja á markað hafrapasta í Finnlandi. Þess má geta að Finnar eru næststærstu útflytjendur hafra í heiminum.

Stærsti innlendi framleiðandinn er bærinn Sandhóll í Meðallandi, en þar hafa verið ræktaðir hafrar í minnst 12 ár. Umfang framleiðslunnar er talsverð og skilar sér í haframjöli og tröllhöfrum sem nálgast má í matvöruverslunum. Hér er verið að þreskja hafra á Sandhóli í sumar. Mynd/JS

Markaður fyrir innlendar hafra­vörur er vaxandi og bændum, sem hafa áhuga á að hefja hafrarækt, fer fjölgandi. Því liggur beinast við að fjölga í ræktendahópnum og framleiða meira af íslenskum höfrum.

„Það er líka mikilvægt að breiða út hafraræktun til ólíkra sveita sem eykur öryggi framboðs á höfrum til vöruframleiðslu og þróunar á þeim árum sem uppskera getur brostið í einum landshluta en ekki öðrum. Hafrar eru einnig gott skepnufóður og því má ætla að sú hafrauppskera sem ekki nær gæðum manneldissjónarmiða geti nýst sem fóður,“ segir Hrannar Smári en hluti af niðurstöðum verkefnisins verða leiðbeiningar fyrir bændur um ræktun hafra til þroska og manneldis.

Verðum að berjast gegn innflutningi plöntusjúkdóma

Í síðustu viku sátu vísindamenn og plöntukynbótafræðingar frá stofnunum og fyrirtækjum beggja vegna Atlantsála í pallborði í Reykholti í Borgarfirði til þess að ræða framtíð hafraræktunar á norðlægum slóðum. Aðalfyrirlesari var Jean-Luc Jannink, prófessor við Cornell-háskóla, sem einnig starfar hjá Landbúnaðarstofnun Bandaríkjanna (USDA). Fundurinn var fjármagnaður af samnorrænu ráðherranefndinni um landbúnaðar- og matvælarannsóknir, NKJ, en tilgangurinn var að skapa vettvang til að deila reynslu og þekkingu auk þess að styrkja tengslanet sérfræðinga á þessu afmarkaða sviði.

Alþjóðlegur fundur sérfræðinga um hafrarækt í Reykholti í síðustu viku leiddi af sér stofnun samstarfs sem ber heitið „Arctic Oats Consortium“ og hefur það að markmiði að bæta gæði hafra á norðlægum slóðum. Hér má sjá þátttakendur verkefnisins. Frá vinstri: Alf Ceplitis, Juho Hautsalo, Fluturë Novakazi, Morten Lillemo, Hrannar Smári Hilmarsson, Espen Sörensen og Jean-Luc Jannink. Mynd/HSH

„Eitt vandamál sem hefur verið í sviðsljósinu undanfarið eru sveppasjúkdómar sem herja á kornið í axinu og mynda sveppaeiturefni (mycotoxin) sem eru eitruð mönnum og valda því að ekki er hægt að nota kornið til manneldis. Sveppurinn Fúsaríum er illgreinanlegur á velli og þess vegna kemur það ekki fram hvort kornið er orðið sjúkt af sveppnum fyrr en eftir uppskeru, þegar það er greint. Þetta hefur valdið því að stundum eru vörur innkallaðar eftir að þær eru komnar í búðir,“ segir Hrannar en þessi óværa var mikið rædd á fundinum.

Það ber þó til tíðinda að samkvæmt efnagreiningum og mælingum á sveppaeiturefnum, sem gerð voru á öllum sýnum úr hafratilraunum hér á landi er niðurstaðan sú að engin merki eru um slík efni í íslenskum höfrum.
„Þessi sveppategund þrífst ekki á Íslandi. Það gefur okkur sérstaka stöðu á heimsvísu til hafraræktunar til manneldis. Við verðum því að leggja allt á vogarskálarnar til að hindra að þessi sjúkdómur berist til landsins.“

Ísland verði hafraheimsveldi

Niðurstöður Mannakorns-verk­efnisins geta orðið margþættar. Þær verða notaðar til að velja hentugustu hafrayrkin til ræktunar hér á landi auk þess að vera leiðbeinandi fyrir þá bændur sem hyggjast fara út í hafrarækt. Þá mun það leggja grunn að kynbótum á höfrum til framtíðar en einnig mun rannsóknin vera undirstaða frekari nýsköpunar á matvælum úr höfrum.

„Umfang hafraræktar á Íslandi er að aukast og verkefnið hefur það að markmiði að skapa þekkingu til nýs geira innan kornræktarinnar. Til þess að hafrarækt geti vaxið og skapað störf verða bændur að eiga þann möguleika að geta selt kornið sitt til úrvinnslu. Slík mylla gæti haft það hlutverk að koma vörum á markað til neytenda, ekki ósvipað mjólkursamlagi. Eftir að við höfum orðið sjálfum okkur nóg um hafra og náð góðum tökum á ræktuninni gæti umframframleiðslan verið til útflutnings. Ég á mér þann draum að landið sé prýtt gylltum höfrum á haustin og Ísland verði hafraheimsveldi,“ segir Hrannar Smári.

Sveppasjúkdómur sem herja á kornið í axinu og mynda sveppaeiturefni (mycotoxin) sem eru eitruð mönnum og valda því að ekki er hægt að nota kornið til manneldis. „Þessi sveppategund þrífst ekki á Íslandi. Það gefur okkur sérstaka stöðu á heimsvísu til hafraræktunar til manneldis. Við verðum því að leggja allt á vogarskálarnar til að hindra að þessi sjúkdómur berist til landsins,“ segir Hrannar Smári. Tilraunareitir í sólsetri á Hvanneyri. Mynd/JS

Breytileikinn T137 verði viðurkenndur sem verndandi
Fréttir 22. nóvember 2024

Breytileikinn T137 verði viðurkenndur sem verndandi

Formlegt erindi liggur nú í matvælaráðuneytinu þar sem óskað er eftir því að arf...

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga
Fréttir 22. nóvember 2024

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga

Áherslur framboða í málefnum tengdum landbúnaði er umræðuefni hlaðvarpsins „Á hl...

Lán að ekki fór verr
Fréttir 22. nóvember 2024

Lán að ekki fór verr

Um sex þúsund varphænur drápust í eldsvoðanum sem varð í eggjabúi hjá Nesbúeggju...

Aldrei fleiri umsóknir um nýliðunarstuðning
Fréttir 22. nóvember 2024

Aldrei fleiri umsóknir um nýliðunarstuðning

Matvælaráðuneytið hefur úthlutað nýliðunarstuðningi í landbúnaði fyrir árið 2024...

Ákvörðun felld úr gildi
Fréttir 21. nóvember 2024

Ákvörðun felld úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að nýlega samþykktar undaþágu...

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...