Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Oddur M. Gunnarsson hefur haldið um stjórnartaumana hjá Matís ohf. frá því í desember 2018 og hefur þurft að takast á við samdrátt í framlögum ríkisins.
Oddur M. Gunnarsson hefur haldið um stjórnartaumana hjá Matís ohf. frá því í desember 2018 og hefur þurft að takast á við samdrátt í framlögum ríkisins.
Mynd / smh
Fréttir 28. janúar 2020

Bæta þarf verulega í stuðning stjórnvalda til matvælarannsókna

Höfundur: smh
Í nóvember á síðasta ári var Oddur Már Gunnarsson ráðinn forstjóri Matís ohf. Hann hafði þá verið starfandi forstjóri Matís frá því í desember 2018, þegar Sveini Margeirssyni var sagt upp störfum. Oddur hefur í forstjóratíð sinni þurft að takast á við nokkur krefjandi verkefni, meðal annars samdrátt í framlögum ríkisins til félagsins, auk þess sem spjót bænda hafa staðið á honum á undanförnum mánuðum varðandi svokallað örslátrunarverkefni. Ákall er meðal þeirra um að skýrsla um verkefnið verði gefin út. 
 
Matís er opinbert hlutafélag og stór hlutur tekna félagsins kemur í gegnum þjónustusamning við atvinnuvega- og nýsköpunar­ráðuneytið en annað rekstrarfjármagn er sjálfsaflafé í formi styrkja frá innlendum og erlendum sjóðum og fyrirtækjum. Hlutfall framlags ríkisins í heildartekjum Matís minnkaði hratt fyrstu árin frá stofnun þess árið 2007, við sameiningu þriggja opinberra stofnana; Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Matvælarannsókna Keldnaholti og Rannsóknarstofu Umhverfisstofnunar.
 
Frá 2008 hafa framlög ríkisins staðið í stað og ekki fylgt vísitölu, sem hefur leitt til þess að draga hefur þurft úr umfangi rannsókna hjá félaginu. Um 37 milljóna króna tap varð á starfsemi Matís árið 2018, til ýmissa sparnaðaraðferða hefur verið gripið á árinu, til dæmis hefur ekki verið ráðið í stöður sem hafa losnað hjá félaginu og hillir undir hallalausan rekstur fyrir árið 2019.
 
Áhyggjur af þróun landbúnaðar
 
Oddur hefur starfað í Matís frá árinu 2008, sem sviðsstjóri viðskiptaþróunar áður en hann tók við forstjórastarfinu. „Áður en ég kom til Matís var ég hjá Rannís sem og Norrænu nýsköpunarmiðstöðinni og hafði í átta ár þar á undan starfað sem atvinnuráðgjafi Suðurlands,“ segir Oddur, en hann er rekstrartæknifræðingur að mennt.   
 
 „Ég er úr Rangárvallarsýslunni, en á skyldmenni víða á Suðurlandi; Grímsnesinu, Flóanum og Rangárvallarsýslunni. Föðurættin er úr Skaftafellssýslu. Afi bjó á Vatnshóli í Austur-Landeyjum, en brá búi þegar ég var sjö ára. Ég var hins vegar sem barn mikið hjá systrum mömmu á Hellu,“ segir Oddur þegar hann er spurður hvort hann eigi einhverjar rætur í sveitinni. Ég hef þannig skilning á stöðu fólks í dreifbýlinu sem hefur það ekki of gott, til dæmis sauðfjárbænda og vanda þeirra varðandi lágt afurðaverð. Ég hef áhyggjur af því hvernig þróun landbúnaðarins gæti orðið á næstu árum með breyttum innflutningsreglum á búvörum og lækkun tolla. Ef ríkið ætlar ekki að standa þétt með íslenskum landbúnaði gæti farið illa. Okkar eina náttúrulega vörn er í raun smæð markaðarins og svo auðvitað okkar góðu landbúnaðarafurðir,“ segir Oddur um sinn uppruna.
 
Hlutverk Matís og stefna
 
Í samþykktum Matís segir meðal annars að tilgangur félagsins sé að sinna rannsóknum og nýsköpun á sviði matvæla í þágu atvinnulífsins, lýðheilsu og matvælaöryggis. Oddur játar að umfang rannsókna og verkefna tengdum sjávarútvegi hafi verið mun fyrirferðarmeiri hjá Matís en rannsóknir sem tengjast landbúnaði. „Við höfum þó unnið að fjölda slíkra verkefna  í samstarfi við ýmsa aðila, þar sem markmiðið hefur verið að auka fjölbreytni starfa til sveita með nýsköpun og verðmætaaukningu. Ég get nefnt verkefnið í Seglbúðum sem dæmi, en það var frumkvöðlaverkefni um byggingu og rekstur á litlu sláturhúsi í Landbrotinu.
 
Það verkefni var erfitt að ýmsu leyti, en það tókst að fá það samþykkt og það var talsvert afrek.“
 
Örslátrunarskýrslan stóðst ekki kröfur Matís
 
Talið berst að svokölluðu örslátrunarmáli sem hefur verið talsvert til umræðu meðal bænda og áhugafólks um bættan hag sauðfjárbænda á undanförnum misserum. Örslátrunarverkefni Matís fólst í því að lömbum var slátrað á bænum Birkihlíð í Skagafirði, samkvæmt tillögum sem Matís gaf út í september árið 2018 og sendi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Kjötafurðirnar voru síðan seldar á bændamarkaði á Hofsósi. 
 
Tilgangurinn var meðal annars að benda á mikilvægi þess að sauðfjárbændur hefðu betri möguleika á að auka verðmæti afurða sinna með heimaslátrun, -vinnslu og til sölu beint frá býli eða á bændamarkaði.
Í tillögum Matís er ekki gert ráð fyrir beinni aðkomu dýralækna við slátrunina, sem brýtur í bága við lög ef afurðirnar eru settar á markað. Fyrrverandi forstjóri Matís var ákærður fyrir að hafa staðið að því að selja kjöt af dýrunum sem ekki voru skoðuð af dýralækni fyrir slátrun. Málaferli standa nú yfir. Ekki hefur verið gefin út skýrsla um verk­efnið og segir Oddur að það séu nokkrar ástæður fyrir því. „Ég hef  skilning á þeirri stöðu sem sauðfjárbændur eru í, það væri æskilegt að þeir gætu gert sjálfir meiri verðmæti úr sínum afurðum. Það þarf að hjálpa þeim á þeirri vegferð því leiðin virðist vera þyrnum stráð. Verkefnið var sett af og um leið vefurinn matarlandslagid.is, sem var hugsaður sem vettvangur fyrir neytendur til að kynna sér uppruna afurðanna sem þeir hefðu áhuga á að kaupa. Það verkefni hefur legið niðri vegna þess að fjármagn hefur vantað, en við erum ekki búin að loka því. Ég er hlynntur eins miklu gegnsæi að þessu leyti og mögulegt er. Það ættu allar upprunaupplýsingar að vera tiltækar neytendum.
 
Ég get aldrei samþykkt að tilraunaverkefnið í Birkihlíð hafi verið af hinu góða, því það virðist blasa við að þar var farið á svig við lög. Ég gæti frekar séð fyrir mér aðra möguleika fyrir bændur, þar sem bændur gætu jafnvel slátrað sjálfir – en þó með eftirliti dýralækna. Það er aldrei hægt að gefa afslátt af slíkum heilbrigðiskröfum hjá sauðfjárbændum frekar en í annarri matvælaframleiðslu. Það verður að fara að lögum,“ segir Oddur. Hann bætir því við að þó að skýrsla um verkefnið verði ekki gefin út á næstunni þá geti vel hugsast að mæliniðurstöður úr verkefninu nýtist í öðrum verkefnum. „Skýrslan er hins vegar ekki tilbúin til birtingar því hún stóðst ekki kröfur Matís. Þar voru til dæmis dregnar ályktanir sem sérfræðiálit segja að gangi ekki upp. Það mætti líka spyrja um tilgang verk­efnisins, hvað átti það að leiða í ljós? Það er alveg sama hvað við mælum mikið örveruflóru á skrokkum eða meyrnimælum, það hefur ekkert með heimaslátrun að gera eða öryggi hennar. Það að afurðir seljist einu sinni á bændamarkaði á Hofsósi, á viðburði sem er auglýstur, er ekki raunveruleg markaðsrannsókn. Í þessari tilraun voru aðstæður líka eins og best verður á kosið – og alls ekki hægt að heimfæra upp á aðstæður alls staðar þar sem heimaslátrun myndi eiga sér stað. Með öðrum orðum þá er ég að segja að tilraunin gefur mjög takmarkaðar upplýsingar og alveg ómarktækar sem vísindalegar niðurstöður sem hægt er að draga ályktanir út frá.
Ég er hins vegar alveg til í að setjast niður með fólki og skoða hvernig hægt sé að nota niðurstöður mælinganna sem þarna eru gerðar.“
 
Stefnumótunarvinna í gangi
 
Að sögn Odds er Matís í stefnumótunarvinnu núna sem gengur út á það að móta stefnu fyrir eigandann – sem er íslenska þjóðin. „Þetta er langtímastefnumótun til fimm ára þar sem ákveðið er hvernig verkefni verða valin inn, frekar en hvaða verkefni veljast hingað. Stefnumótunarvinnan tekur á því hvernig við ætlum að starfa áfram – og til dæmis taka á því að starfsmenn Matís hafa aldrei verið færri en þeir eru í dag. Meira að segja 2008 voru þeir fleiri. Í krónum talið fáum við það sama í dag frá ríkinu í gegnum þjónustusamninginn og við fengum árið 2008. Þetta setur okkur óhjákvæmilega þrengri skorður og skýtur skökku við á þessum tímum þegar mikið er talað um fæðu- og matvælaöryggi og aukna verðmætasköpun í matvælaframleiðslunni til dæmis,“ útskýrir Oddur.
 
„Matís virðist eiga að sækja meira fjármagn með útseldri ráðgjöf og styrkjum. Staðan er hins vegar þannig núna að það er orðið erfiðara fyrir okkur að taka frumkvæðið í stórum rannóknum, það eru tækifæri til þess en gjarnan er það þannig að við þurfum að hafa samstarfsfélaga. Í viðræðum við stjórnvöld varðandi fjármagn fyrir þetta rekstrarár þá leggjum við á borðið þau verkefni og þær áætlanir sem við myndum vilja hrinda í framkvæmd, en ráðuneytið ákveður svo hvaða þjónustu það vill kaupa af okkur – auðvitað eftir samningaviðræður.  Á meðan þessari vinnu eru ólokið er rekstraráætlun dálítið í lausu lofti, en við getum þó reynt að  átta okkur á stöðunni með því að lesa í tiltekna liði fjárlaganna. Auðvitað myndum við vilja fá leiðréttingu á framlögum miðað við þróun verðlags á undanförnum árum.“
 
 
Góður tækjabúnaður sem nýtist illa
 
Oddur segir að Matís sé ákveðinn vandi á höndum varðandi hlutverk félagsins þegar kemur að matvælaöryggi í landinu, þar sem það er skýrt orðað í samþykktum Matís að félagið eigi að starfa í þágu þess en svo er ekkert minnst á Matís í sjálfri matvælalöggjöfinni. „Við erum með talsverðan viðbúnað og kostnað sem fylgir honum, til að geta mætt neyðarástandi sem getur skapast – til dæmis vegna alvarlegra tilfella sýkinga. Það er tilkomið frá þeim tíma þegar við vorum með samning við ríkið í gegnum Matvælastofnun um að geta sinnt tilteknum mælingum. Þessum samningi var sagt upp en  við sitjum engu að síður uppi með ákveðnar skyldur án þess að geta sótt fjármagn til að standa straum af því hlutverki. Matvælastofnun ber þannig ekki að láta okkur sinna mælingum ýmiss konar. Aðrir geta komið þar að, en Matís er þó með  besta alhliða tækjabúnaðinn hvað varðar efnamælingar og tilteknar erfðarannsóknir. 
 
Í tengslum við verkefnið Örugg matvæli var settur upp mjög öflugur tækjakostur hjá Matís og rannsóknarstofa verkefnisins formlega opnuð í maímánuði 2014.  Tilgangurinn var að gera íslenskum yfirvöldum betur kleift að framfylgja löggjöf um matvælaöryggi og neytendavernd sem búið var að innleiða á Íslandi. Með þeim tækjabúnaði var Matís gert mögulegt að greina 300 varnarefni í matvælum í stað 60 sem áður var skimað fyrir. „Reksturinn á þessum tækjum er mjög dýr,“ segir Oddur og bætir við að það verði ekki framhjá því litið að þau eru illa nýtt. „Það þarf að skilgeina betur hlutverk okkar hvað opinberar mælingar snertir, til dæmis hvernig þessi dýri tækjabúnaður skuli vera notaður. Ég vonast til þess að við getum skýrt þau mál í yfirstandandi viðræðunum við ríkið. Á undanförnum árum hefur samningurinn kannski verið of opinn, því þar er í raun ekkert tilgreint sérstaklega um hlutverk Matís umfram það sem stendur í lögum um félagið. 
 
Matvælaeftirlitið fylgist með að farið sé eftir lögum og reglugerðum, ekki ósvipað umferðaeftirliti. En samfara nýjum innflutningsreglum er mikilvægt að fylgst sé vel með þróuninni á matvælamarkaði, hvort nýjar vörur hafi aukna áhættu í för með sér fyrir neytendur.
 
Það er ekki tíminn til að draga úr fjárveitingum til matvælarannsókna, hvorki í landbúnaði né sjávarútvegi.  Ég bind vonir við að Matvælasjóður verði nægilega burðugur til að geta stutt vel við matvælarannsókir, en það er ljóst að það hefur verið dregið stórlega úr fjárframlögum bæði til AVS, rannsóknarsjóðs í sjávarútvegi, og til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins.“
 
Eðlileg framþróun með auknu opinberu fjármagni
 
Oddur segir að nauðsynlegt sé að halda vöku sinni gagnvart sjávarafurðum okkar og rannsóknum á þeim, til að missa ekki forskot Íslendinga í þeim efnum. „Við erum  á toppnum núna og þaðan er bara leiðin niður ef við gætum ekki að okkur. Við höfum tekið þátt í mörgum farsælum verkefnum í kringum sjávarútveginn og vildum halda því áfram.
 
Landbúnaðurinn hefur kannski eðli málsins samkvæmt ekki verið jafn fyrirferðarmikill innan okkar starfsemi. Fjármagn hefur verið meira í sjávarútveginum til að styðja við nýsköpun og þróunarvinnu, enda hafa þar verið gríðarlegir hagsmunir í húfi – til dæmis varðandi fullvinnslu og nýtingu afurðanna. Ég er hins vegar alveg sannfærður um að margar þeirra rannsókna, sem við höfum unnið með sjávarútveginum, geti nýst landbúnaðinum. Við höfum verið gagnrýnd, kannski að vissu leyti með réttu, að hafa kannski ekki gefið okkur nægilega mikið að fyrirtækjum sem tengjast landbúnaði – ekki kynnt okkur nægilega vel eða leitað eftir samstarfi. Við höfum heldur ekki haft sama bolmagn til að styðja þessar rannsóknir og fjölga verkefnum. Það er alveg ljóst að það verður engin eðlileg framþróun í rannsóknum – hvorki í landbúnaði né sjávarútvegi – nema til komi aukið opinbert fjármagn. Ég gæti nefnt fiskeldið og fóðrun í því, sem er nú aðalkostnaðurinn, þar er margt óunnið og margir möguleikar sem þyrfti að rannsaka. Til dæmis hvort ekki sé hægt að framleiða gott og umhverfis­vænt fiskeldisfóður hér á Íslandi. Í fiskeldinu er líka talsvert um sóun á verðmætum og vantar betri nýtingu á afurðunum, talsvert af afskurði, roði og slógi er þar enn þá hent.“
 
Myndum gjarnan taka þátt í fleiri verkefnum á sviði landbúnaðar
 
„Við myndum gjarnan vilja koma meira að nýsköpunarverkefnum í landbúnaði, en við erum þó alltaf með eitthvað í gangi. Núna er til dæmis áhugavert verkefni sem við vinnum með háskólanum í Reading á Englandi sem gengur út á að minnka metangas-myndun í meltingu nautgripa, með fóðrun á þangi og þörungum. Það er verkefni sem gæti haft heilmikið að segja fyrir íslenskan landbúnað og kolefnissporið. 
Það er sterkt teymi innan Matís sem hefur sinnt land­búnaðarverkefnunum vel, ég get nefnt samstarfið við búgreinafélögin um gerð Kjötbókarinnar – auk smærri samstarfsverkefna við einstök félög. Svo rekum við vinsælt tilraunaeldhús, þannig að hér er, þrátt fyrir allt, nokkuð frjór jarðvegur fyrir nýsköpun í landbúnaði,“ segir Oddur að lokum. 
Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...