Brislingur er farinn að veiðast við Ísland
Brislingur er fisktegund sem er farinn að veiðast í auknum mæli við landið. Í nýlegu hefti Náttúrufræðingsins er grein um fisktegundina og þar segir að hún hafi fundist í vaxandi mæli við Íslandsstrendur frá árinu 2017.
Í greininni er getið um alla þekkta fundarstaði brislings við landið hingað til. Brislingur er fremur strandlægur fiskur og hefur nú fundist víða við sunnan- og vestanvert landið, flestir út af Rangársandi og Landeyjasandi, í Faxaflóa, Arnarfirði og Ísafjarðardjúpi. Langflestir brislinganna voru kynþroska fiskar.
Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Hafrannsóknastofnunar veiddist brislingur í fyrsta skipti við Ísland í ágúst 2017. Einungis einn fiskur veiddist og var hann 15 sentímetra langur og fékkst á 20 metra dýpi undan Eyjafjallasandi.
Brislingur (Sprattus sprattus) er smávaxinn fiskur af síldarætt, verður sjaldnast stærri en 16 sentímetrar. Hann líkist smásíld, en er auðgreindur frá síld á því að kviðrönd er með þunnan, snarptenntan kjöl og rætur kviðugga eru undir eða rétt framan við upphaf bakugga í stað þess að vera undir honum miðjum.
Brislingur er uppsjávarfiskur á grunnsævi, oft nærri ströndum og þolir vel seltulítinn sjó.
Útbreiðslan er víðáttumikil á landgrunni Norður-Evrópu og Afríku, einkum innan 50 m dýptarlínu. Hún nær frá
Atlantshafsströnd Marokkó og norður í Norðursjó og að strönd suðurhluta Noregs og inn í Eystrasalt. Þá finnst hann í Miðjarðarhafi, Adríahafi og Svartahafi.
Brislingur er mikilvæg stærð í vistkerfinu í Eystrasalti og Norðursjó og spennandi verður að fylgjast með hvernig honum muni reiða af hér við land.