Byggja á traustum grunni
Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir
Ungt hrossaræktarbú, Koltursey, vakti verðskuldaða athygli á Landsmóti hestamanna í sumar. Þrjár hryssur frá búinu röðuðu sér í verðlaunasæti kynbótahryssna meðan þrjú keppnishross tóku þátt í gæðingakeppni mótsins. Að ræktuninni stendur fjölskylda sem sameinast kringum aðaláhugamál sitt.
Þótt ræktunarsaga Kolturseyjar sé aðeins tólf ára gömul er búið nú þegar orðið farsælt. Frá árinu 2011 hafa 12 hryssur frá Koltursey hlotið fyrstu verðlaun fyrir dómi og árið 2012 var Hnit, þá fjögurra vetra, í 4. sæti á Landsmótinu í Reykjavík. Staka, undan Sölku frá Sauðárkróki og Stíganda frá Leysingjastöðum, hefur vakið athygli á sýningum og í keppni og Stingur frá Koltursey hefur verið að gera góða hluti með Hrafndísi Kötlu Elíasdóttur í yngri flokkum í keppni.
Reyndar er skjótur árangur þess ekki tilviljun háð, en stofnhryssur búsins, þær Kjarnorka, Fluga og Salka koma allar úr ræktun Sveins Guðmundssonar á Sauðárkróki. „Við njótum góðs af ótrúlegri hrossarækt og eigum allt okkar að þakka góðu ræktunarstarfi á Sauðárkróki. Við keyptum þessar hryssur af þeim, þá 5 og 6 vetra, og teljum þær okkar stærsta lán. Við værum ekki í þessu án þessara hrossa og hrossaræktenda,“ segir Elías Þórhallsson, sem ásamt systur sinni, Þórhildi Þórhallsdóttur, og fjölskyldum þeirra standa að baki hrossaræktarbúinu Koltursey.
Hrossaræktin var smá í sniðum í fyrstu, þeim fæddist framan af aðeins eitt sameiginlegt folald á ári undan Kjarnorku en fljótlega fór hvor fjölskylda fyrir sig að halda fleiri hryssum, þar á meðal Flugu, sem Þórhildur og Pétur höfðu keypt eftir kynnin af Kjarnorku, og Sölku sem Elías og Berglind höfðu fest kaup á. Fleiri hryssur bættust fljótlega í hópinn hjá hvorri fjölskyldu og á undanförnum tveimur árum hefur ræktunin veldisvaxið. „Þannig er að fyrsta stofnhryssan, Kjarnorka, hefur eingöngu gefið hryssur og er enn að, því hún eignaðist sína elleftu hryssu í sumar. Afkvæmin hennar eru svo góð að við tímum ekki að selja og þær fyrstu eru þegar komnar í ræktun,“ segir Þórhildur hlæjandi en í ár fæddust hátt í 20 folöld búinu.
Umfang ræktunarinnar er orðið svo mikið að fjölskyldan ákvað að tvískipta henni. Ræktun Elíasar og Berglindar Ingu Árnadóttur er staðsett í Mosfellsbæ en Þórhallur, sonur Þórhildar og Péturs Jónssonar, hefur tekið við kefli foreldra sinna og ræktar Kolturseyjarhross í Koltursey í Landeyjum ásamt sambýliskonu sinni, Söru Sigurbjörnsdóttur. Enn rækta báðar fjölskyldur undir sama nafni, enda byggir ræktunarhópurinn að hluta til á sömu stofnhryssum.
Hryssuljómar á Landsmóti
Árangur búsins á Landsmóti í ár er eftirtektarverður. Hryssan Jörð frá Koltursey, sem er undan Flugu frá Sauðárkróki og Óðni frá Eystra-Fróðholti, sigraði flokk 6 vetra hryssna með 8,67 í aðaleinkunn. Jörð er fyrsta afkvæmi Flugu sem kemur til dóms og eru ræktendurnir því að vonum spenntir að fylgjast með fleirum vaxa úr grasi. „Hún virðist ætla að verða sterk ræktunarhryssa og við erum að fá afskaplega falleg afkvæmi undan henni,“ segir Þórhallur.
Þá voru tvær dætur Kjarnorku í verðlaunasæti í flokkum sínum. Hnit frá Koltursey undan Stála frá Kjarri, var í 3. sæti í elsta flokki hryssna með 8,53 í aðaleinkunn. Garún frá Koltursey undan Dug frá Þúfu í Landeyjum var í 2. sæti í flokki 5 vetra hryssna með 8,41 í aðaleinkunn. Þótt ólíkar séu segir Þórhallur þær hafa svipað geðslag. „Þær eru rosalega yfirvegaðar og rólegar týpur, kjarkmiklar og ekki hræddar við neitt.“ Alls hafa sjö afkvæmi Kjarnorku komið til kynbótadóms, sex þeirra hafa hlotið fyrstu verðlaun og sú sjöunda er rétt undir áttunni.
Auk þess komu Kolturseyjahross við sögu í gæðingakeppninni. Klemma tók þátt í A-flokki og Staka í B-flokki, undir stjórn Elíasar. Klemma og Staka eru báðar undan Sölku frá Sauðárkróki Þá tók dóttir Elíasar, Hrafndís Katla, þátt í unglingaflokki á Sting frá Koltursey.
Yfirvegað geðslag er eiginleiki sem hrossaræktendurnir vilja að hrossin frá Koltursey standi fyrir. „Við höfum leynt og ljóst hugað mikið að geðslagi þegar við pörum hryssurnar,“ segir Þórhallur. „Við viljum að hrossin séu mannelsk og komi fljótt til. Við tamningu vil ég ekki þurfa að sækja eiginleikana, heldur að þeir komi frá þeim,“ segir Elías. Þá bætir Þórhallur við að mikilvægt sé að hver sem er geti sest á bak hrossunum og notið þeirra.
Nú verður selt
Val á stóðhestum fyrir hryssurnar er, að sögn ræktendanna, efni í fjölmarga fjölskyldufundi árið um kring. Þórhallur og Elías segjast skoða mikið ættir hrossanna, og kjósa fremur langræktaða hesta. „Ég er ofsalega hrifinn af Ófeigi frá Flugumýri og finnst betra að hafa hann einhvers staðar í ættum. Markmiðið er alltaf að rækta reist og sjálfberandi hross,“ segir Þórhallur og bætir við að mikilvægt sé að bygging hestsins sé þannig að hún auðveldi hestinum að bera sig.
Elías segist frekar nota alhliðahesta en klárhesta. „Ég vel hesta með stórt og mikið skref og ég horfi alltaf fyrst og fremst á frábært tölt og að hestarnir séu heilsteyptir, gangskil séu góð og að þeir séu jafnvígir á öllum gangi. Einnig viljum við að þeir séu loftháir og framfallegir.“
Til að ræktunin vaxi ekki um of hefur fjölskyldan loks tekið ákvörðun um að selja hross. „Sara er sú eina í fjölskyldunni með peningavit og hefur lengi hvatt okkur til að selja,“ segir Þórhildur. „Hnit yrði okkur til sóma hvar sem er og mun færa hverjum sem er góð hross. Við viljum því að einhver annar fái að njóta hennar og þessarar ættar,“ bætir hún við. Garún mun heldur ekki vera sett í ræktun enn um sinn, Sara hefur sett blátt bann á slíkt. „Garún er mikill gæðingur og sérlega skemmtilegt að þjálfa hana svo mig langar að halda áfram með hana og njóta hennar svolítið lengur,“ segir Sara.
Samspil og samstarf
Svo skjótur og góður árangur í ræktun segir Elías orsakast af góðu samstarfi, bæði innan fjölskyldunnar sem og við þá sem koma að uppbyggingu hrossanna. „Árangurinn byggir á fleiru en að búa til flott folald. Það þarf að ala það, temja og þjálfa, allt þarf að haldast í hendur. Þar að auki er mikilvægt að hafa með sér góða samstarfsmenn til að vinna úr því sem maður hefur og ég nefni Daníel Jónsson í því samhengi sem hefur staðið sig frábærlega við að sýna fyrir okkur,” segir Elías.
Pétur segir vangaveltur og þau fjölmörgu verkefni sem fylgja ræktuninni sameina fjölskylduna og geri hana nánari fyrir vikið. „Við höfum í nógu að snúast allt árið um kring. Það er aldrei leiðinlegt hjá okkur og við eigum aldrei í vandræðum með umræðuefni.“
„Í hestamennsku og ræktun geta allir í fjölskyldunni fundið eitthvað sem þeir hafa gaman af og átt hlutdeild í enda sameinar þetta sport kynslóðirnar og skapar dýrmætar samverustundir,“ bætir Þórhildur við. Innt eftir því hvort þau mæli með hrossaræktun sem sameiginlegu fjölskylduáhugamáli svarar Elías: „Já, ef þú vilt vera hamingjusamur og fátækur.“