Efnamengað kranavatn hjá 15 milljónum Bandaríkjamanna
Höfundur: HKr.
Kranavatn hjá 15 milljónum manna í 27 ríkjum Bandaríkjamanna er mengað af eitruðum efnum sem einnig eru þekkt sem PFC og PFA. Þau eru m.a. talin geta valdið krabbameini, sjúkdómum í skjaldkirtli og veikingu á ónæmiskerfi manna.
Svæði þar sem PFC efni hafa fundist í drykkjarvatni eru merkt með rauðu.
Þetta kemur m.a. fram í nýlegri tilkynningu EWG hópsins (The Environmental Working Group) sem er áhugamannasamtök um rannsóknir og aukna upplýsingagjöf um heilsusamlegra umhverfi fólks. Þau segja að neysla kranavatns í litlum mæli á þeim stöðum sem samtökin hafa kortlagt geti verið skaðleg fólki.
„Það er merkilegt að ríkasta land heims geti ekki tryggt þegnum sínum öruggt drykkjarvatn sem hefur ekki langvarandi neikvæð áhrif á heilsu manna,“ segir Bill Walker, sem er ein þeirra sem stendur að tilkynningunni.
Hættuleg efni í matvælaumbúðum og á steikarpönnum
PFC efni hafa þá eiginleika að vera vatnshrindandi og fráhrindandi efni og er þess vegna mikið notað við framleiðslu á margvíslegum vörum. Það er m.a að finna í fráhrindandi húð á steikarpönnum, útivistarfatnaði, matvælaumbúðum og í eldvarnarkvoðu. Þessi efnasambönd eru útlistuð á ensku sem „PFASs, eða per- and polyfluoralkyl substances.“ Þá eru þau líka nefnd PFC sem stendur fyrir „perfluorinated chemicals“.
Almenningur þekkir vel eiginleika þessara efna í húðuðum steikarpönnum sem hindra viðloðun. Einnig í vatnshrindandi efnum í útivistarfatnaði, í gólfteppum sem hrinda frá sér óhreinindum, í pokum utan um örbylgjupopp og í margvíslegum öðrum umbúðum utan um matvæli. Þessi efni er oft einnig að finna í húðsnyrtivörum og ýmsum öðrum vörum.
Lítið gert til að upplýsa fólk um hættuna
EWG samtökin og Northeastern University hafa kortlagt upplýsingar sem teknar eru úr opinberum gögnum um útbreiðslu EPA mengunar frá verksmiðjum, herstöðvum flughersins, almennum flugvöllum og æfingasvæðum slökkviliða. Þrátt fyrir gögn um aukinn fjölda tilvika sem sýna hættulega mengun af þessum toga, þá segja samtökin að engar reglur hafi verið settar um leyfilegt innihald þessara efna í drykkjarvatni. Þá séu 25 ár síðan Umhverfisverndarstofnun Bandaríkjanna (US EPA) hafi úrskurðað drykkjarvatn sem hættulegt samkvæmt lögum um öryggi drykkjarvatns.
Mest mengun frá her og iðnaði
Samkvæmt kortlagningu EWG hefur PFA mengunin mælst mest frá sameiginlegri herstöð, landhers og flughers (Joint Base McGuire-Dix-Lakehurst ) nærri Trenton í New Jersey. Þar voru mæld 580.000 ppt gildi af PFA efnum í grunnvatni mælt (ppt = billjónustu hlutar í einingu). Í grunnvatni nærri stöðvum flughersins í Dover í Delawer mældust 270.000 einingar.
Af 47 þekktum svæðum þar sem staðfest hefur verið PFA mengun eða grunur er um slíkt, eru 21 þeirra á vegum hersins og 20 eru iðnaðarsvæði. Þá eru 7 æfingasvæði slökkviliða. Á sumum svæðunum er um fjölþætta mengun eiturefna að ræða.
Samkvæmt gögnum Sjúkdómavarnarmiðstöðva Bandaríkjanna (Centers for Diescese Control and Preventation - CDC), þá hafa rannsóknir sýnt að nær allir íbúar landsins hafa eitthvað af PFC eða tengdum efnum í líkama sínum.
Magn þess sem fannst í hóprannsókn á 2.094 einstaklingum sem gerð var á árunum 2003 til 2004 var þó ekki talið í þeim mæli að það hafi verið hættulegt viðkomandi fólki. Reyndar fundust fjögur afbrigði af PFC efnum í fólkinu, eða PFOS, PFOA, PFHxS og PFNA. Ekki kemur þó fram hvar hættumörkin liggja hvað varðar innihalda efnanna í blóði manna.