Ég passa þig og þú passar mig
Það er ekki hægt annað en að hæla tryggingafélaginu Vís fyrir frábæra auglýsingaherferð þar sem stórleikarinn Ingvar E. Sigurðsson fer á kostum sem umhyggjusamur frændi og vinur í að gefa slökkvitæki, eldvarnarteppi, hjálm, reykskynjara í boðum sínum sem gestur hjá vinum og frændfólki í lokaorðunum: Látum öryggið passa.
Vel gerð auglýsing (fyrir mér auglýsing ársins enn sem komið er) og kemur manni til að hugsa um ýmsar tilgangslausar gjafir sem maður hefur gefið í gegnum tíðina í stað þess að hafa gefið eins góðar gjafir og Ingvar E. gaf í auglýsingunni. Allavega hefur þessi auglýsing tilætluð áhrif á mig gagnvart því að hugsa mig um áður en ég kaupi næstu tilgangslausu gjöf og gefi í staðin umhyggjusama forvarnargjöf.
Heimavörn frá öryggis-
fyrirtækjum víða á heimilum,
en ekki alltaf virkjuð
Margir eru með öryggiskerfi frá Securitas sem eiga að vakta heimili og fleira, kerfi sem hafa bjargað mörgum frá miklu tjóni. Það er ekki nóg að vera með öryggiskerfi, það þarf að hugsa um þau og muna eftir að virkja kerfin þegar heimili, vinnustaður eða annar staður sem útbúinn er með öryggiskerfi er yfirgefinn.
Líkt og tryggingafélagið Vís þá er Securitas með auglýsingaherferð í gangi um „öryggisapp“. App sem hægt er að tengja í farsímann sérsniðið að heimilinu, en samkvæmt auglýsingunni þá er þetta „app“ bráðsniðugt fyrir þá sem eru tæknisinnaðir og kunna að nýta sér svona tækninýjungar.
Endurmenntun atvinnubílstjóra, er ekki eitthvað rangt við hvað kennt er?
Allir þeir sem hafa aukin ökuréttindi hafa tekið skyndihjálparnámskeið sem tók 16 kennslustundir, en ef þeir eru atvinnubílstjórar þá þurfa þeir að fara á fimm ára fresti á endurmenntunarnámskeið til að viðhalda atvinnuréttindunum.
Á þessum endurmenntunarnámskeiðum er skylda að taka þrjár námsgreinar: Lög og reglur, Umferðaröryggi-Bíltækni, Vistakstur, Öryggi í akstri, en ekki skyndihjálp. Undarlegt að mönnum, sem eru alltaf í umferðinni út um allt, sé ekki frekar kennt það nýjasta í skyndihjálp frekar en t.d. bíltækni, vistakstur eða umferðarreglur sem flestir með bílpróf kunna.
Ég hafði samband við Pál, ökukennara hjá Ökuskóla Austurlands, en hann sagði mér að hann bjóði upp á aukanámskeið sem er m.a. skyndihjálp og þau eru alltaf fjölmennust.
Einkunnarorð Slóðavina
í skyndihjálp: Ég læri fyrir þig
og þú lærir fyrir mig
Síðustu 12 ár hef ég verið félagi í Ferða- og útivistarfélaginu Slóðavinir, félagsskapur sem ferðast á fjórhjólum, léttum torfærumótorhjólum og stórum „ferða-mótorhjólum“. Félagið heldur reglulega skyndihjálparnámskeið fyrir félagsmenn félagsins (helst á hverju ári, en hámark á þriggja ára fresti). Einkunnarorð Slóðavina í þessu námskeiði er að þeir sem mest ferðast saman fari á námskeið undir einkunnarorðunum: Ég læri fyrir þig og þú lærir fyrir mig.
Frá því að ég gerðist félagi í þessu ferðafélagi hef ég farið á a.m.k. 4 skyndihjálparnámskeið hjá fjórum mismunandi kennurum (Slóðavinir passa upp á að vera aldrei með sama leiðbeinandann á þessum námskeiðum), og alltaf lærir maður eitthvað nýtt og fræðandi. Ég vil hvetja sem flesta til að fara á skyndihjálparnámskeið, en það kostar ekki mikið að fá leiðbeinendur til að koma í kvöldstund (í saumaklúbbinn, búnaðarfélagið, bolta-hittinginn eða á íþróttaæfingu) og kenna grunnatriðin í skyndihjálp.