Eggjaskortur vegna dýravelferðar
Litlar birgðir á eggjum í verslunum má rekja til umfangsmikilla breytinga sem bændur hafa þurft að leggjast í vegna nýrra reglugerða sem skylda þá að breyta hefðbundnu búreldi í lausagönguhús.
Frá þessu greinir Halldóra Kristín Hauksdóttir, formaður búgreinadeildar eggjabænda, í aðsendri grein á síðu 56. Hún segir að þetta sé mikilvægt skref í átt til dýraverndar, en framkvæmdaferlið hefur víða tekið lengri tíma en til stóð vegna ytri þátta sem bændur hafi lítil áhrif á. Nefnir Halldóra í því samhengi meðal annars skipulagsmál. Íbúafjölgun og aukin neysla á hvern mann hefur jafnframt aukið eftirspurn.
Vonir standa til að jafnvægi náist á eggjamarkaðinum á næstu vikum. Halldóra vill þó benda á að íslenskir eggjabændur megi ekki viðhafa samráð um framleiðsluáætlun og sölu. Þetta er ólíkt því sem tíðkast víða í nágrannalöndunum þar sem stór eggjasamlög hafa yfirsýn yfir framboð og eftirspurn.