Er geitin með í framtíðinni?
Hvar stendur geitfjárrækt í nútíma landbúnaði? Að sláturtíð liðinni flykkjast geitabændur á hvers kyns markaði með kjöt sem þeir hafa lagt ómælda vinnu í.
Engin afurðastöð kaupir geitakjöt af bændum, því lendir vinnan á bændum sjálfum, sem telja hana margir ekki eftir sér, en augljóst má öllum vera að hún dregur samt úr öðrum, þeim sem ekki hafa aðstöðuna eða tímann, en einnig dregur það úr enn frekari stækkun stofnsins. Þar eru möguleikar fyrir framsæknar afturðastöðvar með sína þekkingu að koma að borðinu. Afurðirnar eru eftirsóttar hjá þeim sem þekkja til og hafa veitingastaðir tekið afurðir inn á sín borð við góðan orðstír og oftar en ekki eftirspurnin meiri en framboð.
Um síðustu áramót voru opinberlega skráðar 1.835 geitur á 117 búum. Af þeim eru færri en 10 bú með 50 geitur eða fleiri, flestir eru með á milli 10–30 geitur. Fjölgun er um 2 huðnur á hverju búi að meðaltali undanfarin ár.
Stofninn er í bráðri útrýmingarhættu en hefur fjölgað hægt frá um 1960 þegar um 65 geitur voru í landinu. Árið 1930 var talið að um 3.000 geitur væru á landinu. Hvað gerðist á þessum 30 árum? Getur það komið fyrir aftur? Svarið er já og það nokkuð auðveldlega.
Hvað ætlum við að gera til að svo verði ekki aftur? Valdið er hjá þeim sem um peningana halda og stefnunni stýra. Hvernig ætla stjórnvöld að styðja við grein í erfiðri stöðu? Spurning sem hefur legið í loftinu í fjölmörg ár án fullnægjandi svars.
Aukið fé þarf að koma af hendi stjórnvalda sem hafa skuldbundið sig til að halda stofninum á lífi. Íslenska geitin er ekki til annars staðar og því einstakur og merkilegur stofn. Íslenskir geitabændur eru þeir einu sem halda stofninum á lífi og það í raun fyrir hönd stjórnvalda. Því verður viljinn að vera skýr frá þeirra hendi ef við viljum ekki lenda í sömu stöðu og 1960 aftur.
Í gegnum búvörusamninga kemur svipuð upphæð og kostnaður við eitt stöðugildi á ársgrundvelli. Hluti þess rennur til hafrastöðvarinnar í eigu Geitfjárræktarfélags Íslands sem tekur og frystir sæði til notkunar handa geitabændum að kostnaðarlausu. Annar hluti fer í gripagreiðslur, innvigtaða mjólk og fiðu. Ekkert fer í kjöt líkt og í öðrum greinum. Upphæðin kemur að einhverju leyti til móts við kostnað geitabænda en hættan á að bændur heltist úr lestinni er raunverulegur og áþreifanlegur á hverju ári.
Fundað hefur verið um fagráð í geitfjárrækt milli BÍ og matvælaráðuneytis. Fagráð sem myndi starfa með svipuðum hætti og önnur fagráð búgreina og aðilar eru sammála um að slíkt fagráð væri mikilvægt en peningana þyrfti að finna í verkefni fagráðsins og stendur sú leit yfir enn þá, þó bent hafi verið á hvar væri augljósast og best að leita.
Unnið er að undirbúningi að stærri arfgerðargreiningu á íslenska stofninum til að sjá hvar stofninn stendur gegn riðu. Niðurstöður af fyrri greiningum sýna að stofninn er viðkvæmur þó ekki hafi enn greinst riða í íslenskri geit. Mikilvægt er að sjá hvert sé hægt að stefna svo hægt sé að vinna samhliða sauðfjárbændum. Gangi allt eftir verður vonandi hægt að koma verkefninu af stað núna sitthvorum megin við áramót. Kostnaður er ákveðinn þröskuldur sem þarf að yfirstíga og þá hver eigi að bera hann.
Jákvæðar fréttir um framtíð greinarinnar er að nýlega var stofnað Geitavinafélagið Auður af framsýnum nemendum í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri.
Er það skipað nemendum sem eiga eftir að verða öflugir máttarstólpar í framtíð íslenska geitastofnsins ef fram fer sem horfir, ásamt verðandi nemendum. Nafnið gefur góð fyrirheit um þá vináttu sem geitin þarfnast í hvívetna og þann auð sem hún er fyrir íslensku þjóðina.
Vinnum saman að framtíð geitarinnar og bænda.
Því líkt og landnámsmenn og afkomendur þeirra hafa hugsanlega tautað í aldanna rás:
Með geitum skal land og framtíð byggja.