Gróska eða stöðnun?
Lesendarýni 7. nóvember 2024

Gróska eða stöðnun?

Höfundur: Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í landbúnaði.

Árið 2018 vann KPMG skýrslu fyrir þáverandi landbúnaðar­ráðherra þar sem sviðsmyndir um mögulega framtíð íslensks landbúnaðar voru greindar.

Margrét Gísladóttir.

Lykilspurningin sem sett var fram var: Hver verður framtíð íslensks landbúnaðar árið 2040? Frá því þessi vinna hófst eru liðin 6 ár og því rétt að spyrja sig hver staðan sé í dag og hvert við viljum stefna.

Þróunin undanfarin sex ár

Árið 2018 var metár í mjólkurframleiðslu á Íslandi þegar framleiddir voru 152,5 milljón lítrar til samanburðar við 151,5 milljón lítra árið 2023. Þó lítur út fyrir að metframleiðsla verði í ár en fyrstu 9 mánuði ársins er framleiðslan 1,8% yfir framleiðslunni á sama tímabili í fyrra.

Grænmetisframleiðsla hefur vaxið á sama tímabili; kartöflur, tómatar og paprika um 20% og gúrkur um 9% svo dæmi séu tekin. Mikil sóknartækifæri eru fyrir greinina enda sér garðyrkjan einungis fyrir um 43% af framboði grænmetis hérlendis í dag.

En frá árinu 2018 hefur því miður ríkt stöðnun í innlendri framleiðslu í svína-, alifugla- og nautakjöti og framleiðsla kindakjöts hefur dregist saman um 20% (2018–2023). Á sama tíma hefur innflutningur aukist allverulega, um 60% í svína- og nautakjöti og um 76% í alifuglakjöti. Markaðshlutdeild innflutnings hefur þannig hækkað á tímabilinu og er rúmlega fjórðungur svína-, alifugla- og nautakjöts í dag.

Gróskan tryggð

Undanfarin ár hafa verið landbúnaðinum erfið með hækkandi aðfanga- og vaxtakostnaði og afkoma bænda hefur ekki verið glæsileg. Stjórnvöld hafa gripið til viðbótargreiðslna í lok árs til þeirra greina sem standa hvað höllustum fæti og ljóst er að núverandi staða býður ekki upp á mikinn sveigjanleika í rekstri framleiðenda til að mæta óvæntum áföllum. Það mun falla í skaut næstu ríkisstjórnar að semja um framtíðar stuðningsfyrirkomulag greinarinnar en núgildandi búvörusamningar renna sitt skeið í lok árs 2026. Á næstu árum munum við einnig sjá auknar kröfur tengdar loftslags- og sjálfbærnimálum og þar er gríðarlega mikilvægt að stíga skynsamleg skref, taka tillit til aðstæðna hér á landi og tryggja að við séum ekki að skapa óþarflega íþyngjandi regluverk sem gengur lengra en þekkist annars staðar og dregur úr getu og hvata til framþróunar og nýsköpunar.

Með heimild til aukinnar hagræðingar í slátrun og vinnslu fyrr á þessu ári voru stigin mikilvæg skref í átt að skilvirkara landbúnaðarkerfi. Við erum einnig að sjá aukið jafnvægi í framleiðslu og sölu kindakjöts sem leiðir af sér hærra afurðaverð til bænda. Gott gengi í útflutningi á skyri skilaði sér í arðgreiðslum til mjólkurframleiðenda fyrr á þessu ári og þá hefur útflutningur á grænmeti til Færeyja og Grænlands aukist töluvert á undanförnum árum. Það er því ýmislegt jákvætt í gangi sem gefur til kynna bjartari framtíð.

Hins vegar þarf sífellt að vera vakandi fyrir áskorunum og finna lausnir á þeim jafnóðum. Hér má nefna hækkun raforkuverðs en raforka er einn stærsti kostnaðarliður garðyrkjubænda. Í núverandi stjórnarsáttmála var lagt upp með að festa niðurgreiðsluhlutfall á dreifingu og flutningi raforku til garðyrkjunnar en það hefur því miður ekki enn verið gert, þrátt fyrir að frumvarp þess efnis hafi verið lagt fram í fjórgang á kjörtímabilinu. Þá er nokkuð ljóst að verð á raforku á almennum markaði mun hækka sökum mikillar eftirspurnar og í dag hafa matvælaframleiðendur hvorki tryggt aðgengi að raforku né á ákveðnu verði sem gæti stuðlað að því að halda niðri matvælaverði. Stjórnvöld þurfa að huga alvarlega að þessari þróun ef stefna á að áframhaldandi vexti í greininni.

Endurskoða þarf tollasamning Íslands við Evrópusambandið sem tók gildi árið 2018, en eftir því hefur verið kallað frá samþykkt hans. Stjórnvöld hafa viðurkennt að forsendur samningsins hafi breyst og ójafnvægi sé á milli samningsaðila, íslenskum framleiðendum í óhag. Reyndar er í núverandi stjórnarsáttmála kveðið á um að endurskoðun samningsins skyldi lokið á þessu kjörtímabili en líkt og með niðurgreiðsluhlutfall raforku til garðyrkjubænda hefur ekki enn verið ráðist í það verkefni.

Eftirfylgni er allt sem þarf

Þörf er á mjög svo aukinni matvælaframleiðslu í heiminum á næstu áratugum sökum fólksfjölgunar og breyttrar neyslu. Það ætti því að vera áherslumál fyrir íslensk stjórnvöld að bæta sjálfsaflahlutfall okkar í þeim landbúnaðarvörum sem auðvelt er að framleiða hérlendis. Við þurfum ekki að stefna á að framleiða allt sjálf, enda óraunhæft miðað við legu landsins, en vel er hægt að skapa greininni gott starfsumhverfi sem veitir henni tækifæri til að auka framleiðslu og bæta samkeppnisstöðu sína. Til þess þarf einungis að taka ákvarðanir – og fylgja þeim eftir.

Gróska eða stöðnun?
Lesendarýni 7. nóvember 2024

Gróska eða stöðnun?

Árið 2018 vann KPMG skýrslu fyrir þáverandi landbúnaðar­ráðherra þar sem sviðsmy...

Þjóðarátak í samgöngumálum
Lesendarýni 6. nóvember 2024

Þjóðarátak í samgöngumálum

Íslenskt samfélag stendur á tímamótum þegar kemur að samgöngumálum. Vegakerfi la...

Ekkert fæðuöryggi án landbúnaðar
Lesendarýni 5. nóvember 2024

Ekkert fæðuöryggi án landbúnaðar

Íslendingar eru og hafa ætíð verið landbúnaðarþjóð. Ræktun lands og nytjar hafa ...

Kvenfélagið Freyja 90 ára
Lesendarýni 1. nóvember 2024

Kvenfélagið Freyja 90 ára

Það var í júní árið 1934 sem nokkrar konur komu saman að Krossi í Austur-Landeyj...

Leitum samstarfsaðila fyrir landsbyggðarverkefni
Lesendarýni 31. október 2024

Leitum samstarfsaðila fyrir landsbyggðarverkefni

Landsbyggðin lifi leitar eftir samstarfi við framfarafélög, þorp, bæjarfélög eða...

Íslandsmót í rúningi
Lesendarýni 18. október 2024

Íslandsmót í rúningi

Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu (FSD) hyggst endurvekja Íslandsmeistaramótið í r...

Ráðstefna evrópskra frjótækna á Selfossi
Lesendarýni 15. október 2024

Ráðstefna evrópskra frjótækna á Selfossi

Árið 1981 voru samtök fag- og stéttarfélaga frjótækna í Evrópu stofnuð í Strasbo...

Hvað ber framtíðin í skauti sér?
Lesendarýni 9. október 2024

Hvað ber framtíðin í skauti sér?

Á meðan trén vaxa ræða skógarbændur framtíðina. „Það er víst lítið annað að gera...