Ekkert fæðuöryggi án landbúnaðar
Lesendarýni 5. nóvember 2024

Ekkert fæðuöryggi án landbúnaðar

Höfundur: Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG og fyrrverandi matvælaráðherra.

Íslendingar eru og hafa ætíð verið landbúnaðarþjóð. Ræktun lands og nytjar hafa verið samofin sögu okkar og forsenda fyrir því að hægt sé að búa í okkar fjölbreytta landi.

Í nýrri aðgerðaáætlun fyrir landbúnaðarstefnu Íslands til ársins 2040 var mörkuð skýr framtíðarsýn sem miðar að því að styðja og efla íslenskan landbúnað, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Rauði þráðurinn í matvælastefnunni er að styðja og efla íslenskan landbúnað og á sama tíma nýta auðlindir landsins á ábyrgan og sjálfbæran hátt.

Fæðuöryggi er eitt af grunnmarkmiðum landbúnaðarstefnunnar og án landbúnaðar er allt tal um fæðuöryggi innantóm orð. Stefnan skilgreinir lágmarksbirgðir og tryggir nauðsynlegar forsendur fyrir framleiðslu á hættutímum. Auk þess að framleiða mat þarf að tryggja að við sem samfélag getum staðið undir framleiðslunni. Verið sjálfum okkur nóg. Sérstök áhersla er lögð á aukna kornrækt, sem hefur of lítið verið nýtt til þessa. Kornrækt getur orðið öflug grein en til þess að svo megi vera þarf að styrkja stoðir greinarinnar, veita fjárfestingarstuðning og auka kynbætur.

Kraftaverkin gerast

Raunhæf markmið um útrýmingu riðu er eitt það merkasta sem gerst hefur í sauðfjárrækt lengi. Það er sennilega versta martröð hvers sauðfjárbónda að upp komi riða. Nú loksins sér þar til sólar og við getum tekið upp nýjar leiðir í baráttunni gegn riðu og vonandi útrýmt henni fyrir fullt og allt. Það er mikilvægt að allir sem kindur eiga taki þátt í þessu verkefni og rækti upp verndandi gen í sinni hjörð.

Nýsköpun er lykillinn að sjálfbærri framtíð í landbúnaði. Miklar framfarir hafa orðið á undanförnum árum á sviði tæknivæðingar og rannsóknarstarfs, sem opnar nýja möguleika til að auka afköst og sjálfbærni eins og mörg dæmi eru um, t.d. notkun kyngreinds nautgripasæðis, sem getur haft mikil áhrif á framleiðslu og arðsemi til framtíðar.

Engin tækifæri án áskorana

Landbúnaður er einn stærsti valdur að losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Þess vegna setur aðgerðaáætlunin loftslagsmál á oddinn. Innleiðing loftslagsbókhalds er mikilvægt skref, svo hægt sé að fylgjast með losun og draga úr henni. Á sama tíma er lögð áhersla á að auka rannsóknir á stöðu loftslagsmála í landbúnaði. Til að draga úr losun eru nýsköpun og rannsóknir lykilatriði. En til að allt þetta megi verða þarf að tryggja réttláta fjárhagslega afkomu bænda. Stuðningskerfi landbúnaðarins þarf í framtíðinni að hvetja til landbúnaðar sem byggir á sjálfbærri landnýtingu og minni losun.

Ný reglugerð um sjálfbæra nýtingu lands tekur gildi í haust og leggur grunn að sjálfbærri landnýtingu. Við getum gætt þess að landnotkun sé sjálfbær og það skulum við gera. Það er best að nýta auðlindir með það fyrir augum að ganga ekki á möguleika komandi kynslóða og þess vegna leggur þessi nýja reglugerð áherslu á verndun vistkerfa og gróðurþekju sem og beitarstjórnun.

Muna að deila með sér

Við eigum Ísland ekki ein, við deilum landinu með fjölmörgum tegundum og landið er ríkt af einstökum vistkerfum og það er okkar að vernda þau og endurheimta þegar við höfum gleymt okkur í gleðinni. Landbúnaður þarf að blómstra í jafnvægi og sátt við líffræðilega fjölbreytni og verndun vistkerfa.

Með landbúnaðarstefnuna að leiðarljósi tryggjum við að íslenskur landbúnaður verði ábyrgur, sterkur og hér til framtíðar á styrkum stoðum. Íslenskur landbúnaður verður undirstaða fæðuöryggis, búsetu víða um land og mikilvægt tæki í baráttunni við loftslagsvána.

Tryggjum nýliðun bændastéttarinnar
Lesendarýni 26. nóvember 2024

Tryggjum nýliðun bændastéttarinnar

Samkvæmt Stjórnarráði Íslands þá á „Ríkissjóður Íslands [á] alls um 450 jarðir o...

Fjandsamlegt vaxtaumhverfi
Lesendarýni 25. nóvember 2024

Fjandsamlegt vaxtaumhverfi

Áherslur lýðræðisflokksins í landbúnaðarmálum eru í stuttu máli sem hér segir.

Öflug innlend matvælaframleiðsla
Lesendarýni 22. nóvember 2024

Öflug innlend matvælaframleiðsla

Kosningar í lok þessa mánaðar munu ekki einungis skera úr um hverjir sitja á Alþ...

Kosningarnar snúast líka um landbúnað
Lesendarýni 21. nóvember 2024

Kosningarnar snúast líka um landbúnað

Frá upphafi hefur landbúnaður gegnt lykilhlutverki í að móta íslenska menningu o...

Af virðingu við landið
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Af virðingu við landið

Í aðdraganda kosninga erum við ítrekað minnt á að margar stærstu áskoranir samfé...

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni

Eru hjúkrunarheimili á landsbyggðinni með viðunandi fjármögnun? Er tilefni til a...

Vegleysur á Vestfjörðum
Lesendarýni 18. nóvember 2024

Vegleysur á Vestfjörðum

Sem frambjóðandi á ferð fór ég akandi um Vestfirði um helgina. Vegur um Strandir...

Kosningar og hvað svo?
Lesendarýni 15. nóvember 2024

Kosningar og hvað svo?

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins birtu Bændasamtök Íslands áskorun til frambjóð...