Einkageirinn brýndur til einbeittari verka
Á COP29 á m.a. að hvetja einkageirann til meiri samvinnu við hið opinbera og loftslagsfjármálin verða tekin til kostanna.
Aðildarríkjaþing loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, COP29, fer fram 11. til 22. nóvember í Bakú í Aserbaísjan. Helstu umfjöllunaratriði þingsins nú, hins 29. í röðinni, eru að brúa bilið í loftslagsfjármálum fyrir sprota- og þróunarmarkaði, lausnir í hreinni orku og samgöngum, að efla hringlaga hagkerfishætti, þróa umbreytingarleiðir í hreint núllhagkerfi og sjálfbær landnýting og skógvernd.
Flýta verður framförum
Heimsloftslagsráðstefnan 2024 fer svo fram 17. nóvember. Lykiláherslan verður á loftslagsfjármál og framkvæmd þess að halda 1,5 gráða markmiðinu innan seilingar. Talið er að knýja þurfi hratt fram auknar fjárhagslegar skuldbindingar, frá bæði opinbera- og einkageiranum, til að flýta fyrir framförum. Þá er stefnt að sameiginlegri ákvörðun forystufólks aðildarríkjanna á ráðstefnunni um að auka orkugeymslugetu á heimsvísu í 1.500 GW fyrir árið 2030.
Ráðstefnan í Bakú miðar að því að efla verulega áhrif samvinnu hins opinbera og einkageirans til að ná fram þeirri stefnu, nýjungum og fjárfestingum sem krafist er í raunhagkerfinu til að ná 2030-umbreytingarmarkmiðum og nettó-núll og náttúrujákvæðum heimi fyrir 2050. Búist er við um 50 þúsund þátttakendum.
COP16 lokið
COP16, aðildarríkjaþing rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni, fór svo fram í Kólumbíu, 21. október til 1. nóvember undir yfirskriftinni Friður við náttúruna. Hún þótti skila takmörkuðum árangri og tókst aðildarríkjum t.d. ekki að koma sér saman um hvernig herða mætti á fjármögnun til tegundaverndar.
Ísland hefur skuldbundið sig til að vernda 30% land- og hafvistkerfa fyrir árið 2030.