Ekki ástæða til að fyllast svartsýni þótt víða hafi verið orðið þurrt
„Heyskapur er á fullu þessa dagana en því er ekki að neita að bændur eru að verða aðeins áhyggjufullir þar sem spretta er víðast hvar slök, maí og júní voru frekar svalir, auk þess er það orðið mjög þurrt þótt engin séu harðindin samt,“ segir Sigurgeir Hreinsson, formaður Búnaðarsambands Eyjafjarðar, um heyskapinn í Eyjafirði.
Á Suður- og Vesturlandi var ekki hægt að kvarta yfir kulda, en óvenjumikið sólskin og þurrviðri setti hins vegar strik í reikninginn og spretta því lítil. Heldur glaðnaði þó yfir bændum nú í vikunni þegar aðeins tók að rigna og spáð er skúrum og rigningu víða á vestanverðu landinu jafnvel fram yfir helgi.
Sigurgeir bendir á að margir eigi fyrningar og stutt sé liðið á sumarið, „þannig að ekki er ástæða til að fyllast svartsýni, þótt maður verði síður fyrir vonbrigðum ef búist er við því versta sem hugsast getur.“
Heyskapur er ekki byrjaður af neinum krafti í Þingeyjarsýslum og eins ekki langt kominn í Svarfaðardal svo dæmi séu tekin.
Þokkaleg gæði en minni uppskera
Baldur Helgi Benjamínsson á Ytri-Tjörnum segir að fyrri sláttur í framanverðum Eyjafirði sé í hámarki um þessar mundir, þeir allra fyrstu séu búnir en flestir í miðju kafi. „Ég geri ráð fyrir að klára núna seinni partinn í vikunni,“ segir hann. Gæði eru að sögn þokkaleg, en uppskera með minna móti miðað við hin síðari ár. Vart sé þó réttlætanlegt að miða við síðasta sumar sem var einstakt hvað magn varðar.
„Það var lítið hægt að heyja hér í síðustu viku, það rigndi alltaf smávegis af og til, en svo um helgina var hægt að fara að sinna heyskap af krafti og margir sjá fram á að ljúka fyrri slætti núna um mánaðamótin,“ segir Baldur Helgi.
Kúabændur á Vesturlandi að ljúka fyrri slætti
Haraldur Benediktsson, bóndi í Vestri-Reyni, segir kúabændur á vestanverðu landinu flesta vera langt komna með heyskap og þeir fyrstu sjái fram á að ljúka fyrri slætti um þessar mundir, en þar hefur grasið oft verið meira.
„Kúabændur eru allir byrjaðir fyrri slátt, margir langt komnir, en sauðfjárbændur eru aðeins byrjaðir að kroppa, eru rétt að byrja,“ segir hann.
Sprettan er að sögn Haraldar misjöfn eftir svæðum, gæðin eru ágæt en hafa verið betri og sama gildir um magnið, það hefur áður verið meira en nú.
„Veðurfarið var með þeim hætti að grasið fór snemma í skrið, apríl byrjaði ljómandi vel og allt fór vel af stað en öll spretta stöðvaðist í kuldakastinu í maí. En við eigum eftir að sjá hvernig sumarið kemur út í heild þegar heyskap lýkur. Við erum aðeins að ljúka fyrri slætti, sá síðari er eftir og þá kemur niðurstaðan í ljós,“ segir Haraldur Benediktsson, bóndi og alþingismaður.