Endurmat á losun frá ræktarlöndum
Landgræðslunni hefur verið falin umsjón með endurmati á losun gróðurhúsalofttegunda frá ræktarlöndum bænda.
Tilgangurinn er að afla nýrra gagna með uppfærslu á losunarstuðlum fyrir mismunandi jarðvegsgerðir svo bæta megi losunarbókhald Íslands gagnvart alþjóðlegum skuldbindingum í loftslagsmálum.
Frá árinu 2018 hafa gögn Rannsóknastofnunar landbúnaðarins frá 1975 verið notuð til að áætla losun gróðurhúsalofttegunda í íslenskum steinefnajarðvegi, sem telst vera um 55 prósent alls ræktarlands Íslands.
Lífrænn jarðvegur á framræstu landi telst vera um 45 prósent ræktarlands. Stór hluti heildarlosunar gróðurhúsalofttegunda frá landnýtingarhluta landbúnaðarins er áætlaður frá þessum landnýtingar- flokki, en ekki er til íslenskur reiknistuðull fyrir losun frá þessu landi og því hefur verið notast við stuðla sem milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar gefur út.
Möguleikar á að telja sér bindingu til tekna
Samkvæmt skuldbindingum Íslands gagnvart Evrópusambandinu telst losun gróðurhúsalofttegunda frá íslenskum landbúnaði vera á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda. Landnýtingarhluti landbúnaðarins, sem innifelur uppgjör frá ræktarlöndum og skógrækt, er það hins vegar ekki í dag. Hann fellur í flokkinn landnotkun, breytt landnotkun og skógrækt (LULUCF). Þó þarf að gera grein fyrir þeirri losun í losunarbókhaldi Íslands gagnvart alþjóðlegum skuldbindingum í loftslagsmálum. Möguleikar eru á að telja bindingu koltvísýrings í þeim flokki að einhverju leyti sér til tekna í losunarbókhaldinu.
Nú liggur fyrir að Ísland þarf að gera upp skuldir sínar á þessu ári vegna skuldbindinga gagnvart seinni Kýótóbókuninni, tímabilið 2013 til 2020. Ísland losaði á tímabilinu tæpar 7,7 milljónir tonna koltvísýringsígilda (CO2- íg) umfram heimildir. Leyfilegt var að telja tæplega 4,3 milljónir tonna CO2-íg fram til frádráttar sem bindingareiningar.
Þar af leiðandi var losun Íslands á þessu tímabili um 3,4 milljónir tonna CO2-íg umfram losunarheimildir og bindingareiningar – og Ísland þarf að kaupa losunarheimildir fyrir þessu magni. Kaupverð á losunarheimildum liggur ekki fyrir en í fjárlögum 2023 er gert ráð fyrir 800 milljóna króna fjárheimildum vegna uppgjörsins.
- Sjá nánar í fréttaskýringu á blaðsíðum 20–21 í fjórða tölublaði Bændablaðsins sem kom út í dag