Endurnýja ekki samning um skólabúðir að Reykjum
Samningur um rekstur skólabúðanna að Reykjum er runninn út og hefur sveitarstjórn Húnaþings vestra ákveðið að framlengja hann ekki í óbreyttri mynd við núverandi rekstraraðila.
Fram kemur í bókun sveitarstjórnar að samningurinn hafi tvívegis áður verið framlengdur og að rekstraraðili hafi lýst yfir áhuga á að halda rekstrinum áfram. Einnig að aðrir áhugasamir hafi gefið sig fram.
Samþykkti sveitarstjórn að framlengja samninginn ekki aftur heldur leita hugmynda og tilboða í framtíðarrekstur búðanna. Sveitarstjóra og byggðarráði var jafnframt falið að gera tillögu til sveitarstjórnar um hvernig auglýst skuli eftir samstarfsaðilum um rekstur búðanna, samningsdrög, hvaða kröfur skuli gerðar, hvaða skilyrði umsækjandi þurfi að uppfylla og hvernig valið verði milli umsækjenda.