Fjarlæsingarbúnaður aftrar rússneskum þjófum
Undanfarnar vikur hafa borist fregnir af því að rússneskir hermenn fari ránshendi um hernumin svæði í Úkraínu.
Hafi þeir m.a. stolið landbúnaðartækjum, korni og jafnvel byggingarefni. En stórtækur þjófnaður á verðmætum landbúnaðartækjum endaði vandræðalega á dögunum.
Fréttastöðin CNN birti frétt þess efnis að John Deere búnaður hafi verið fjarlægður frá umboðinu Agrotek í Melitopol, sem hefur verið hernumið af Rússum síðan í mars. Þýfið er metið á um 5 milljónir bandaríkjadala, þar á meðal voru tvær kornþreskivélar sem kosta um 300.000 dollara hver en samtals var um að ræða 27 búvélar.
Vélarnar voru fluttar með herflutningabílum af svæðunum. Á meðan hluti vélanna var fluttur til nærliggjandi þorps fóru aðrar í langt ferðalag til sjálfstjórnarríkisins Téténíu um 1.130 kílómetra leið. Hátæknibúnaður landbúnaðarvéla er orðinn slíkur að hægt var að fylgjast með ferð vélanna með innbyggðum staðsetningarkerfum alla leið til þorpsins Zakhan Yurt.
Kornþreskivélarnar sem ferjaðar voru til Téténíu bjuggu einnig yfir fjarstýribúnaði. Haft er eftir viðmælanda að þegar hermennirnir ætluðu að nota vélarnar á leiðarenda gátu þeir ekki einu sinni ræst þær, því þær höfðu verið fjarlæstar.
Vélarnar sitja því sem fastast og ónotaður en líklegt þykir að ræningjarnir geti komið búnaðinum í verð sem varahlutir.
Samkvæmt fregn CNN mun þjófnaðurinn líka hafa náð til stórra kornbirgða sem geymd voru í sílóum á svæði sem framleiðir mörg hundruð þúsund tonn af korni á ári sem hafa verið flutt til Krímskaga með herflutningum.