Fólksbílaflotinn ber ábyrgð á 64% losun og hópferðabílar 6%
Ríkisstjórn Íslands hefur sett loftslagsmál í forgang og kynnt sérstaka aðgerðaáætlun þar að lútandi.
Stjórnvöld hafa sett sér markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 55% eða meira til 2030 og stefnt er að kolefnishlutleysi árið 2040 með markvissum aðgerðum.
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra segir að til þess að ná þessu marki þurfi samhent átak stjórnvalda og stofnana með þátttöku allra í samfélaginu, ekki síst öflugra fyrirtækja.
Einstaklingar taka einnig þátt í verkefninu með ýmsum hætti en gera einnig skýrar kröfur um að tekið verði fast á málum. Með auknum umsvifum á síðustu árum, ekki síst í ferðaþjónustu, hefur bílafloti hópferðafyrirtækja stækkað.
„Samkvæmt ökutækjaskrá hjá Samgöngustofu eru alls 3.148 hópbifreiðar í landinu en undir þann ökutækjaflokk falla raunar bæði rútur og allir almenningsvagnar. Við vitum líka að nær allur hópbifreiðaflotinn hefur verið knúinn með dísel, eða 2.996 ökutæki, en 120 eru bensínbílar. Nokkrar rútur eru knúnar með metan eða lífdísil og fimmtán strætisvagnar eru rafknúnir eftir því sem ég veit best,“ segir Sigurður Ingi.
Hann segir að heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgöngum hafi verið metin og árið 2021 báru hópferðabílar ábyrgð á 6% af heildarlosuninni.
Flutningabílar bera ábyrgð á 19% og sendibílar 11% en býsna stór fólksbílafloti landsmanna ber ábyrgð á 64% af heildarlosuninni.