Forkólfar á Austurlandi sameinast í FKA
Konur á Austurlandi hafa nú stofnað Félag kvenna í atvinnurekstri á Austurlandi. Stofnfundur FKA Austurlands var haldinn eystra í lok maí og sóttu hann rúmlega hundrað konur af öllu landinu.
Markmiðið með stofnun félagsins, sem verður landsbyggðardeild í Samtökum kvenna í atvinnulífinu (FKA) ásamt Norðurlandi, Suðurlandi, Suðurnesjum og Vesturlandi, er að efla konur, stuðla að auknu samtali kvenna á milli, fjölga tækifærum kvenna í atvinnulífinu á Austurlandi ásamt því að tengjast öðrum félagskonum FKA óháð staðsetningu.
„Nú er það kvenna á öllu Austurlandi að ákveða hversu bratt þær mæta í fjörið í FKA en næstu skref eru að hrista hópinn saman og efla tengslin. Svo koma þær af krafti í starfið hjá félaginu sem er bæði blómlegt og fjölbreytt,“ segir Andrea Róbertsdóttir, framkvæmdastjóri FKA.
Í stjórn FKA Austurlands sitja sjö konur og tveir varamenn. Það kemur í hlut þeirra að móta starfið út frá gildum og markmiðum FKA en þróa starfsemina á þann hátt að gagnist konum á Austurlandi sem best.
Þess má geta að í ársbyrjun 2006 stofnuðu konur á Austurlandi samtökin Tengslanet austfirskra kvenna, TAK, sem enn er starfandi og var stofnað til að efla konur á Austurlandi til þátttöku og sýnileika hvarvetna í samfélaginu og við stjórnvölinn.