Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Einar Freyr Elínarson, formaður Samtaka ungra bænda.
Einar Freyr Elínarson, formaður Samtaka ungra bænda.
Mynd / Hörður Kristjánsson
Fréttir 3. mars 2015

Formaður Samtaka ungra bænda flutti kröftugt erindi á Búnaðarþingi

Höfundur: Vilmundur Hansen
Einar Freyr Elínarson, formaður Samtaka ungra bænda flutti kröftugt erindi á Búnaðarþingi 2015 þar sem hann útlistaði nokkur markmið sem hann telur mikilvægt mikilvægt að hafa sem leiðarljós þegar gerðar verði breytingar innan landbúnaðarins.
 
„Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, formaður og stjórn Bændasamtakanna, ágæta búnaðarþing.
 
Winston Churchill sagði: Að bæta er að breyta, svo að fullkomna er að hafa gert margar breytingar Þó að fullkomnun náist aldrei, þá getum við alltaf haft hana sem markmið. Hún getur verið manni hvati til þess að bæta, og þ.a.l. að breyta.
 
Okkur er tíðrætt um sóknartækifæri í landbúnaði. Ég er fullkomlega sammála því að þau eru mörg, en til þess að nýta og gera sem mest úr þeim þá þurfum við að gera breytingar.
 
Við vitum þó að breytingar breytinganna vegna eru óæskilegar. Allar breytingar þurfa að vera vel ígrundaðar og eiga sér skýr markmið.
 
Hér eru nokkur markmið sem ég tel mikilvægt að hafa sem leiðarljós þegar við gerum breytingar innan landbúnaðarins.
 
1. Auka nýliðun í landbúnaði. Með nýju fólki koma nýjar hugmyndir og nýjar áherslur.
Nýsköpun þrífst best innan geira þar sem nýliðunar nýtur við. Nýliðunarstuðningur er því góð ráðstöfun á fjármunum ríkisins þegar horft er til jákvæðra afleiðinga aukinnar nýliðunar.
Aðgangur að fjármagni er okkar helsta fyrirstaða, sem betur fer fyrir ykkur því ef hann væri nægur væru ungir bændur allsráðandi og fyrir löngu búnir að kaupa ykkur öll.
 
2. Auka framleiðni í landbúnaði. Með aukinni framleiðni eykst geta okkar til að standa undir fjárfestingu og greiða okkur mannsæmandi laun fyrir reksturinn. Ég tel sóknartækifærin á þessu sviði gríðarlega mikil. Ef sumir bændur eyddu þó ekki væri nema helming þess tíma sem fer í að stúdera hrútaskrána og skoðuðu frekar rekstrartölur búsins mætti ná fram mikilli hagræðingu.
 
3. Auka markaðsvitund bænda. Ef við skynjum ekki og fylgjumst ekki með kröfum neytenda missum við traust þeirra. Ef við viljum halda í og geta réttlætt verndartolla þá verðum við að vera dugleg við að sinna neytendum. Með aukinni markaðsvitund aukast svo líkurnar á því að bændur finni sér nýjar leiðir til að auka tekjur búsins.
 
4. Endurskoðun stuðningskerfisins. Við þurfum að horfast í augu og bregðast við breytingum sem orðið hafa á framleiðsluumhverfi landbúnaðarins. Umbylting kvótakerfisins og öflugri gæðastýring er hugmynd sem ég er persónulega hrifinn af. Minni fjárfestingarþörf og öflugra eftirlit með gæðum framleiðslunnar eru breytingar sem ég tel að séu til mikilla bóta til lengri tíma litið.
 
5. Það fimmta og seinasta af þeim markmiðum sem ég ætla að telja upp er þetta:
Hættum að gengisfella stétt bænda. Hversu oft höfum við heyrt „Það er enginn bóndi til þess að græða á því“ eða „Sauðfjárbúskapur er bara áhugamál“.
 
 
Við sem störfum við landbúnað vitum betur. En þó eru þetta frasar sem heyrast allt of oft og ósjaldan frá bændum sjálfum.
 
Við heyrum ekki eigendur eða framkvæmdastjóra framleiðslufyrirtækja í öðrum geirum tala svona. Það á ekki að verða viðurkennd skoðun í okkar samfélagi að það séu bara bankarnir sem megi græða.
 
Ég hef oft heyrt fólk tala um að landbúnaðurinn eigi við ímyndarvanda að stríða. Ég er reyndar ekki sammála því. Ég tel að ímynd hins almenna íslendings á landbúnaðinum sé nokkuð góð. Ef eitthvað er þá mætti segja að ímyndarvandi okkar væri innanbúðarvandamál.
Við teljum okkur framleiða góðar afurðir. Ef svo er að þá eigum við ekki að skammast okkar fyrir það að vilja fá sæmilega greitt fyrir afurðirnar.
 
Skýra þarf markmiðin svo hægt sé að velja réttar leiðir. Réttar breytingar.
 
Ef við gerum ekki gangskör að því þá eiga hlutirnir það til að taka skyndilegum breytingum til hins verra – nema við gerum skipulegar breytingar til hins betra.
 
Ágæta búnaðarþing
Markmið samtaka ungra bænda er að sameina unga bændur um hagsmunamál sín, auka þátt ungs fólks innan landbúnaðarins og standa fyrir opinni umræðu um landbúnað.
 
Þarnæstu helgi höldum við hjá Samtökum ungra bænda okkar árlega aðalfund. Þar munum við móta áherslur okkar á komandi starfsári og líkt og Búnaðarþing gerir sendum við frá okkur ályktanir um þau mál sem helst brenna á okkur.
 
Við munum fá kynningu frá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins á verkefninu „Búseta í sveit“ sem felst í ráðgjöf til þeirra sem hyggjast hefja búskap. Þetta verkefni er þakkarvert og lýsandi fyrir þann stuðning sem við finnum með okkar málstað.
 
Þá munum við fá kynningu á tillögum samráðsvettvangs um aukna hagsæld sem snúa að landbúnaðinum. Okkur er það hollt að víkka sjóndeildarhringinn. Þessar tillögur eru nokkuð róttækar en ég hvet búnaðarþingsfulltrúa til að kynna sér þær en ekki síst þær tillögur sem aðalfundur SUB leggur fram.
 
Höldum opnum hug og munum að það er sama hvaðan gott kemur.
 
Áhugi ungs fólks á landbúnaði er mikill. Aðsókn í nám við búfræði eða búvísindi er mjög mikil og því ber að fagna. Það er líka skemmtilegt að starfa við landbúnað og gott að búa úti á landi.
 
Þessi áhugi er hins vegar ekki sjálfsagður. Hann er eitthvað sem við þurfum að rækta.
Einn liður í því að rækta þennan áhuga er að bjóða á nám sem nýtist við landbúnaðinn. Ef við viljum framfarir í landbúnaði þá þurfum við vel menntað fólk og öflugt rannsóknarstarf.
Ég skora því á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og stjórn bændasamtakanna og ykkur öll ágætu búnaðarþingsfulltrúar að beita ykkur af fullum krafti við að tryggja rekstrargrundvöll skólanna okkar á Hvanneyri og Hólum.
 
Það hefur verið sárt að fylgjast með aðförinni að skólastarfinu og nú við þurfum að blása til sóknar.
 
Það fylgir því mikil vinna og ábyrgð að hefja og standa fyrir búrekstri. Ungt fólk er tilbúið að leggja á sig þessa vinnu og axla þessa ábyrgð. Við óskum því eftir áframhaldandi stuðningi við málstað okkar og að í sameiningu leitum við fleiri leiða til að auka hlut ungs fólks innan landbúnaðarins.
 
Að lokum vil ég segja, vegna þess að það er öllum hollt að temja sér bjartsýni og framsækni, að ég ætla að verða bóndi – og ég ætla að græða á því.
 
Takk fyrir mig og eigið ánægjulegt og árangursríkt búnaðarþing.“
Jólakveðja
Fréttir 24. desember 2024

Jólakveðja

Ritstjórn Bændablaðsins óskar lesendum um land allt gleðilegra jóla og farsældar...

Lækkað áburðarverð
Fréttir 23. desember 2024

Lækkað áburðarverð

Fyrsta áburðarverðskráin hefur verið gefin út fyrir næsta ár.

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum
Fréttir 23. desember 2024

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum

Auðvelt er að gera sinn eigin „harðfisk“ heima í eldhúsi úr flökum smáfisks. Flö...

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...