Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Haustið 1955 var mikil smokkveiði í Ísafjarðardjúpi. Þessi mynd var tekin þegar skipverjar á Víkingi II eru að koma að landi með góðan afla og eru að landa við hafnarbakkann á Ísafirði. Myndin og upplýsingar um hana eru fengin úr bókinni: Frá línuveiðum t
Haustið 1955 var mikil smokkveiði í Ísafjarðardjúpi. Þessi mynd var tekin þegar skipverjar á Víkingi II eru að koma að landi með góðan afla og eru að landa við hafnarbakkann á Ísafirði. Myndin og upplýsingar um hana eru fengin úr bókinni: Frá línuveiðum t
Fréttaskýring 4. febrúar 2019

Kveiktu eld til að laða smokkinn á land

Höfundur: Kjartan Stefánsson

Smokkfiskur vandi komur sínar upp að Íslandsströndum hér á árum áður. Hann var kærkominn og var veiddur og nýttur í ferska beitu um 100 ára skeið og ríflega það. Hér var um spennandi og nokkuð ævintýralegan veiðiskap að ræða. Smokkurinn hvarf frá ströndum landsins á seinni hluta síðustu aldar.

Smokkfiskur er sérstætt sjávardýr og þrátt fyrir nafnið er hann ekki fisktegund heldur telst hann til lindýra sem eru ein fylking hryggleysingja á jörðinni. Nánar tiltekið er hann af flokki höfuðfætlinga líkt og frændi hans kolkrabbinn. Smokkfiskar eru með tíu arma með sogblöðkum sem koma fram úr höfðinu og tveir þeirra eru griparmar.

Ekki er vitað hvort smokkur fannst hér við land á fyrstu öldum Íslandsbyggðar en hans virðist fyrst getið í rituðum heimildum árið 1637 en þá rak mikið af honum á Vestfjörðum, að því er fram kemur í Íslenskum sjávarháttum eftir Lúðvík Kristjánsson. Stuðst er aðallega við frásögn Lúðvíks hér á eftir í umfjöllun um upphaf smokkfiskveiða við Ísland.

Söfnuðu rekasmokki

Lengi vel höfðu Íslendingar ekki lag á því að veiða smokkinn en hann rak víða á land og var hann þá hirtur í beitu og fékk hann nafnið beitusmokkur. Nokkuð var um rekasmokk víða á Vestfjörðum.

Norðanlands var einkum vart við rekasmokk í Hrútafirði, Miðfirði og Eyjafirði en oft með margra ára millibili.

Á haustin gekk smokkur alveg inn í botn Arnarfjarðar. Smokkur hænist mjög að rauðum lit og var hann notaður til að hafa áhrif á rekið. Einnig laðast hann að ljósi. Arnfirðingar kynntu bál á ströndinni og höfðu stundum gegnsætt tjald sjávarmegin við það. Brást þá ekki að eitthvað af smokk hljóp á land.

Fyrstu smokkönglarnir

Um 1870 urðu umtalsverð þáttaskil í beituöflun einkum á Vestfjörðum og víða norðanlands. Þá kom til sögunnar áhald eða öngull til þess að veiða með smokkfisk. Heimildum ber ekki saman um hvaða Íslendingur hafi orðið fyrstur til að smíða smokkfisköngla eða veiða með þeim en þar koma nokkrir Vestfirðingar við sögu. Voru önglarnir smíðaðir að franskri fyrirmynd.

Smokköngullinn er nokkuð sérstætt veiðarfæri. Hann er gerður úr sökku úr blýi með mörgum öngum. Eiginlegir önglar voru margir á hverri sökku og gengu inn í hana neðst. Sakkan var gjarnan rauð að lit.

Hlupu frá heyskap

Smokkfiskveiðar voru mest stundaðar í Arnarfirði, Ísafjarðar­djúpi og Steingrímsfirði. Smærri smokkur veiddist fyrst í stað og varð hans stundum vart strax í júlí. Stærri fiskar veiddust síðla sumars og á haustin.
Sagt er frá því að þegar smokkur var genginn inn í Arnarfjörð og Djúpið hefði verið uppi fótur og fit.

Menn hlupu jafnvel frá heyskap ef svo horfði við. Fjöldi fólks á öllum aldri tók þátt í veiðunum, jafnt konur sem karlar. Smokkbátar voru bæði fjögurra manna för og áraskip með 8 til 10 manns í áhöfn.

Veitt á rauðu ljósi

Venjulegast var smokkurinn veiddur skammt frá landi. Helst gaf hann sig til þegar tók að dimma á kvöldin og í birtuskilum á morgnana. Á hverjum báti var lugt og glerið rauðmálað. Lugtin var ýmist uppi í mastri eða við borðstokkinn og lýsti út frá bátnum. Erfitt var að veiða smokkinn á 20 faðma dýpi en rauða ljósið átti að laða smokkinn upp og gerði það. Stundum óð smokkurinn eins og síld við borðstokkinn. Gripu menn hann þá með höndunum ef færi gafst. Þá var eins gott að vera vel klæddur til að verjast blekgusum sem smokkurinn gat gefið frá sér.

Glatt á hjalla

Glatt var á hjalla þar sem bátar voru í hnapp og margir menn við smokkfiskveiðarnar. „Smokkdráttur þótti hvorki létt né þrifaleg vinna en samt var eftir því sóst að fara til smokks. Þar fór saman skemmtileg tilbreyting og von um meiri og skjótfengnari tekjuauka en almennt gerðist einkum eftir að sala á beitusmokki hófst. Afli reyndist að vísu misjafn en ekki var ótítt að einn maður drægi 700-1100 smokkfiska yfir nóttina og dæmi voru um smálestarafla hjá einum manni á sólarhring. Þyngd færasmokks gat verið frá ¼ kg þegar hans varð fyrst vart og allt upp í 2 kg síðla haust,“ segir í Íslenskum sjávarháttum.

Margir veiddu smokkfiskinn eingöngu til að afla beitu fyrir eigin útgerð en hann var einnig seldur. Verslun með smokk hófst ekki að ráði fyrr en upp úr aldamótunum 1900. Ef mikið barst að landi var hann einnig saltaður og hertur í einhverjum tilvikum.

Vex hratt

Lítið er vitað um beitusmokkfiskinn og lífsferil hans. Smokkurinn er úthafstegund og kom hingað í fæðuleit. Smokkur­inn er það kvikindi sjávar hér við land sem vex hvað hraðast. Talið er að smokkurinn nái kynþroska og fjölgi sér á aðeins rúmlega einu ári og þar með sé lífshringnum lokað og dýrin deyi flest eftir þessa fyrstu hrygningu. Smokkfiskurinn finnst við strendur Evrópu allt frá Barentshafi í norðri og meðfram Afríkuströndum. Einnig hefur orðið vart við hann við úthafseyjar eins og Ísland.

Beitusmokkfiskurinn gekk jafnan að ströndum Norður-Evrópu og þar með til Íslands í ágúst og hvarf síðan síðla hausts. Allt voru þetta göngur ókynþroska ungsmokks og hér við land hefur aldrei fengist kynþroska beitusmokkur.

Hvarf frá ströndum Norður-Evrópu

Áður fyrr gekk smokkfiskur nokkuð reglulega að landinu en það var samt ekki árvisst. Eins og áður er getið hófust veiðar á smokkfiski á áttunda áratug nítjándu aldar. Göngur voru algengastar vestanlands en um 1970 tók fyrir þær. Þó komu tvær göngur eftir það, árin 1979 og 1984, og var smokkurinn þá veiddur á ný. Við norðanverðar Evrópustrendur, þar sem smokkgöngurnar voru árvissar, gerðist það sama og hér. Haustgöngurnar hættu smám saman að koma.

Engar viðhlítandi skýringar hafa verið settar fram um hvað olli því að smokkurinn hvarf en ofveiði er ekki kennt um.

Mest veitt 1.600 tonn

Veiðarnar þróuðust smám saman en afli á beitusmokki hér við land hefur verið illa skráður í gegnum tíðina enda veiddu margir hann í beitu til eigin nota. Á tímabilinu 1958 til 1966 veiddust nokkur hundruð tonn á ári en mest var veiðin um 900 tonn árið 1966.

Veiðin var góð þegar smokkurinn kom hér aftur árið 1979 og 1.600 tonn veiddust árið 1984. Aldrei hefur veiðst meira en árið 1984 en þá voru komnar til sögunnar véldrifnar færavindur sem ef til vill má að stórum hluta þakka þennan metafla frekar en mikilli smokkgengd.

Eftir það hefur ekki orðið vart við göngur smokkfisks inn á firði hér við land.

Finnst í haustralli

Vel er fylgst með því hvort smokkfiskur láti sjá sig í árlegum stofnmælingum Hafrannsóknastofnunar, bæði í leiðöngrum að hausti og vori. Lengst af hefur lítillega fundist af smokki í haustrallinu á eða yfir landgrunnsköntunum úti fyrir Suður- og Vesturlandi og úti á Reykjaneshrygg. Smokksins hefur hins vegar lítt orðið vart uppi á landgrunninu og því síður inni á fjörðum.

Nokkuð eftir síðustu aldamót fannst heldur meira af smokki en árin á undan þótt aldrei væri það mikið. Árið 2008 skar sig þó úr en þá veiddust tæplega 400 smokkfiskar í haustrallinu á 97 stöðvum.

Leiðangur á Dröfninni

Haustið 2010 var farið í leiðangur á Dröfn RE til að kanna hvort smokkfiskur veiddist hér við land á handfæri. Skipið var vel búið veiðarfærum og tilheyrandi ljósum. Svæðið suður og vestur af landinu var kannað en lítil sem engin veiði var. Helst veiddust nokkrir smokkar við Suðurlandið.

Beitusmokkfiskur gæti hugsanlega orðið nytjafiskur á ný hér við land ef réttu skilyrðin skapast. Til mikils er að vinna því erlendur beitusmokkur er árlega keyptur inn fyrir hundruð milljóna króna. Um er að ræða smokk sem aðallega er veiddur við Falklandseyjar á handfæri.

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...