Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Volga hefur alla tíð verið Rússum mikilvæg til vöru- og farþegaflutninga. Hér er dráttarskipið Volga Shipping Company að   flytja fullhlaðna flutningapramma um fljótið. Lækkun vatnsborðsins getur hæglega valdið vandræðum við slíka flutninga.
Volga hefur alla tíð verið Rússum mikilvæg til vöru- og farþegaflutninga. Hér er dráttarskipið Volga Shipping Company að flytja fullhlaðna flutningapramma um fljótið. Lækkun vatnsborðsins getur hæglega valdið vandræðum við slíka flutninga.
Mynd / Volga Shipping Company
Fréttaskýring 4. júlí 2019

Lágt vatnsyfirborð Volgu veldur miklum áhyggjum

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Miklar rigningar og flóð í helstu maís- og sojaræktarríkjum Bandaríkjanna munu óhjákvæmi­lega leiða til mikils samdráttar í uppskeru með tilheyrandi áhrifum á kornmarkað og efnahagskerfi heimsins. Nú horfir í að þurrkar á áhrifasvæði Volgu í Rússlandi geti mögulega líka valdið uppskerubresti á hveiti á þeim slóðum og magnað upp verðáhrif með tilheyrandi efnahagsniðursveiflu á heimsvísu.
 
Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) telur nú að  framleiðsla á öllum kornvörum  í heiminum dragist saman frá fyrri spám um 15,5 milljónir tonna. Þannig verði framleiðslan um 2.685 milljónir tonna sem er samt 1,2%, eða 26 milljónum meira en  2018/19.
 
Nýjustu fregnir um yfirvofandi uppskerubresti á maís í Bandaríkjunum hafa líka veruleg áhrif samkvæmt spá FAO. Búist er við að maísframleiðslan þar í landi verði 330 milljónir tonna sem er 45 milljónum tonnum minni en á síðasta framleiðsluári. Þá fer birgðastaða lækkandi í flestum korntegundum, ekki síst í grófkorni, vegna aukinnar eftirspurnar og uppskerubrests. Fleiri þættir gætu líka spilað þarna inn í eins og staðan í Rússlandi. 
 
Hættulega lág vatnsstaða sögð í Volgu
 
Fregnir hafa borist af hættulega lágri vatnsstöðu í hinni 3.520 kílómetra löngu Volgu frá svæðum eins og Tver, Kostroma, Tolyatti, Saratov, Astrakhan og víðar. Í Tolyatti hefur yfirborð miðlunarlóns lækkað um 49 metra og er farið að trufla siglingar um vatnasvæði Volgu. Á þessu svæði urðu verstu þurrkar í áratugi árið 2010 og skemmdist þá meira en helmingur kornuppskerunnar á 11 svæðum og um 32% af heildaruppskeru landsins. 
 
Volga er sannarlega engin lækjarspræna, heldur 3.520 kílómetra langt stórfljót sem tengist gríðarstóru vatnakerfi. 
 
 
Slagæð landbúnaðarins að þorna
 
Á vefsíðu fréttamiðilsins Radio Free Europe – Radio Liberty (RFE/RL), sem er með yfir 600 starfsmenn í Prag og Washington og um 750 lausapenna í gegnum 20 skrifstofur, var fjallað um stöðuna á Volgubökkum í grein 3. júní sl.  Greinin er eftir Sergei Gogin, Maksim Fyodorov og Robert Coalson. Þar segir m.a. að lágt vatnsyfirborð Volgu veki spurningar um hvort Rússum takist að hafa stjórn á þessari slagæð sem er afar mikilvæg fyrir landbúnað og efnahagslíf Rússlands. 
 
Minni kornuppskeru spáð í ár
 
Í frétt sem Polina Devitt og Olga Popova skrifuðu fyrir Reuters í Moskvu í desember á síðasta ári, var því spáð að þurrkar myndu valda bresti í kornuppskeru Rússa sem hafa verið einhverjir mestu hveitiútflytjendur heims. Þannig geti uppskeran fallið enn meira en hún gerði 2018. Þá var uppskeran 105 milljón tonn eftir að hafa komist í 135 milljónir tonna metárið 2017 samkvæmt tölum Reuters. 
 
Samkvæmt tölum Worldatlas hefur Rússland verið þriðji stærsti hveitiframleiðandi heims. Í öðru sæti hafa Indverjar verið, en þar horfa menn líka fram á uppskerubrest í ár. Kínverjar eru sagðir stærstir í framleiðslu á hveiti og í eðlilegu árferði með um 134 milljónir tonna. Bandaríkin eru síðan í fjórða sæti og Frakkland í fimmta sæti. 
 
Nokkurs misræmis gætir í spátölum um heildarframleiðslu landa heimsins á hveiti eftir því hver gefur þær út. Þannig er landbúnaðarráðuneyti Banda­ríkjanna (USDA) með talsvert aðrar og lægri tölur en Reuters og Worldatlas. Samt segir USDA að hveitiframleiðslan í Rússlandi muni aukast um 9% milli ára og fara í 78 milljónir tonna 2019/20.
 
Skjámynd af videoupptöku RFE/RL sem sýnir uppþornaðan uppþornaðan hliðarfarveg við Volgu. 
 
Minni uppskera gæti haft veruleg áhrif á fjármálamörkuðum
 
Ljóst þykir að vandræði geti orðið í hveitiframleiðslu í Rússlandi og hrísgrjónaframleiðslu á Indlandi vegna þurrka. Eins á maísframleiðslu í Bandaríkjunum á sama tíma vegna flóða. Þurrkarnir á Indlandi eru sagðir þeir verstu í áratugi. Þetta ástand getur líka haft áhrif  á framleiðslu á öðrum korntegundum. Afar líklegt er að þegar slíkar hremmingar herja á nokkra af stærstu framleiðendum heims þá muni það hafa veruleg áhrif á heimsmarkaðsverð á kornvöru bæði til manneldis og í skepnufóður. Keðjuverkun getur því hæglega orðið varðandi marga þætti matvælaframleiðslunnar og iðnað. Slík þróun er líka fljót að skila sér út í efnahagslífið þar sem spákaupmennska getur spanað upp áhrifin á örskömmum tíma. 
Vonir um aukna framleiðslu í Suður-Ameríkuríkjum gætu samt slegið eitthvað á þennan vanda, en þau eru þó ekki að framleiða „nema“ um 23 milljónir tonna af hveiti samanlagt.
 
Aukin úrkoma gefur vísbendingu um hlýnun
 
Í frétt á vefsíðu I science þann 30. maí sl. segir að 12 mánaða spá sem nær fram í janúar 2020 geri ráð fyrir hærri hita á lægri svæðum Volgu nærri Kaspíahafi og Volgigrad, sem og um miðbik Volgu nærri Nizhny Novogrod. Það virðist því hálfgerð þversögn að á síðustu 50 árum hefur úrkoma í Rússlandi aukist að meðaltali um 2% á áratug. Þá hafi verið aukning á stórrigningum frá 2016 sem loftslagsvísindamenn Russian Academy of Sciences telja gefa vísbendingar um loftslagshlýnun. Eins hafi jöklar í Mið-Asíu verið að tapa ísmassa um 1,6 sinnum hraðar á hverju ári en snjósöfnunin er á vetrum. Um 800 milljónir manna í fjallahéruðum þess svæðis eru að hluta háð leysingavatni. 
 
Vatnsmiðlunarlón í Volgu að þorna upp
 
Í gegnum árin hafa Rússar reist fjölda vatnsmiðlunarlóna á vatnasvæði Volgu, bæði til orkuframleiðslu og til vatnsmiðlunar. Vegna þurrka er vatnsmagnið í fljótinu orðið það lítið að vatnsskortur til miðlunar er farinn að valda vandræðum, að því er segir í grein RFE/RL.
 
Í borginni Ulyanovsk í Mið-Rússlandi, sem er vinsæll strandbaðstaður, þurfa gestir  nú að ganga 200 metra á þurrum vatnsbotni áður en þeir komast að vatninu í Kuibyshev-uppistöðulóninu. 
Nærri Kazan, höfuðborg rússneska lýðveldisins Tatarstan, er gangstígur frá keisaratímanum nú á þurru, en hann fór undir vatn þegar Volga var stífluð á sjötta áratug síðustu aldar. Nú má sjá þarna fólk með málmleitartæki á stígnum í leit að miðaldafjársjóðum. 
 
Óvenjulegt ástand og vatnsmiðlanir duga ekki til
 
Greinarhöfundar RFE/RL geta þess að embættismenn segi að ástandið sé óvenjulegt en ekki skelfilegt. Sum lón í farvegi Volgu safni t.d.  vatni vegna minni miðlunar. Samkvæmt svæðisútibúi skógrækt­ar­ráðuneytisins í Samara hafi vatns­hæðin í Kuibyshev-uppistöðu­lóninu verið áætluð 52,5 metrar í byrjun júní. Aðrir eru hins vegar áhyggjufullir yfir því að þeim sem beri ábyrgð á stjórnun flókinna vatnsmiðlana hafi ekki tekist að laga sig að breyttum aðstæðum. 
 
Leysingavatnið hvarf í jarðveginn og skilaði sér ekki í Volgu
 
Þó að snjókoman í fjöllum við upptök Volgu hafi verið meiri en í meðalári hefur veturinn einnig verið verulega hlýrri á öllu svæðinu en venjulega.
 
„Undanfarin 20 ár hefur jörðin frosið og snjórinn safnast á frosna jörð. Snjóbráðin á vorin hefur síðan runnið í Volgu,“ segir Sergei Simak, formaður grænu hreyfingarinnar í Rússlandi [Russian Green League]. Segir hann að vatnasérfræðingar hafi búist við svipaðri stöðu í vetur, en yfirborð jarðar fraus ekki og því hafi stór hluti af snjóbráðnuninni farið beint niður í jarðveginn í stað þess að renna út í Volgu. Það sé reyndar gott fyrir jarðveginn, en vegna þess að vatnasérfræðingarnir hafa misreiknað sig er staðan nú verri í vatnsmiðlun við Volgu en annars væri. 
 
Hagsmunir vatnsorkuvera, landbúnaðar og fiskveiða fara ekki alltaf saman
 
Volga er lengsta fljótið í Evrópu, um 3.520 km frá Tver-svæðinu í norðvesturhluta Rússlands til Kaspíahafsins í suðri. Vatnasvæði Volgu spannar yfir 1,35 milljónir ferkílómetra og nær nánast yfir allan Evrópuhluta Rússlands. Á þessu svæði eru 11 af 20 stærstu borgum landsins. Þar eru líka 13 vatnsorkuver sem nýta vatnsflæðið úr Volgu. Syðst myndar Volga gríðarstórt ármynni sunnan borgarinnar Astrakhan áður en fljótið rennur út í Kaspíahaf. 
 
Áhrifasvæði fljótsins er mikilvægt fyrir landbúnað, skógrækt og fiskveiðar, auk þess sem Volga er mikilvæg flutningsleið.
 
Fram að þeim tíma sem skrifstofa vatnaeftirlits landsins fyrirskipaði lokun vatnsmiðlunar úr uppistöðulónum 14. maí, hafði vatnsmiðlunin aðeins verið opin í 23 daga í vor. Aleksandr Epifanov, sérfræðingur við Vatnsforðastofnunina um miðbik Volgu, segir að ákvörðun hafi verið tekin um að miðla vatni einungis til lægra Volgu-svæðisins til að auðvelda styrjuhrygningu fyrir kavíarframleiðslu svæðisins. Hann segir að þetta hafi venjulega verið gert í lok apríl og í byrjun maí, en á þessu ári hafi vorleysingavatn ekki komið í lónin í stað þess vatns sem hleypt var úr þeim. Því hafi orðið að takmarka útrennslið.
 
Epifanov viðurkennir í samtali við RFE/RL að fiskveiðum á vatnasvæðum um miðbik Volgu hafi nú verið fórnað í þágu mikilvægari fiskiðnaðar í suðri. 
 
„Þetta er sannleikurinn, en við neyddumst til að gera þetta. Enginn hefur getað komið með lausn sem gefur góða stöðu á einum stað og frábæra á öðrum. Ef það er góð staða fyrir fiskveiðar um miðja Volgu, þá verður tapið gríðarlegt fyrir svæðin sem liggja lægra og neikvæðu áhrifin yrðu í það minnsta þreföld,“ segir Epifanov.
 
Miklar áhyggjur af fiskstofnum
 
Kirill Lunin, sérfræðingur samtakanna, segir að fiskstofnar sem lifa um miðbik Volgu, eins og hin forna aborrategund Pike sem lifir á grunnsvæði, Bream og Carp geti orðið illa úti vegna þess að þeir hafa nú þegar hrygnt á svæðum sem nú eru að þorna upp. Vatnið hafi farið að minnka strax við lok
hrygningartímans. Ljóst sé að mikil afföll verði á næstu kynslóð þessara tegunda sem muni hafa mikil áhrif á stofnana. Lunin segir að meira en 3.000 hrygningarsvæði á vatnasvæði um Mið-Volgu hafi orðið fyrir áhrifum af þurrkunum.
 
Líka vandræði vegna drykkjarvatns
 
Árið 2010, þegar vatnsborð Volgu var einnig hættulega lágt vegna mikilla þurrka, upplifðu íbúar borgarinnar Tolyatti að mengun jókst mjög í drykkjarvatni. Um það bil helmingur neysluvatnsins kemur úr Volgu.
 
Vistfræðingur Simak segir að núverandi ástand muni ekki valda hörmungum, en borgir eins og Tolyatti verði að eyða meiri fjármunum en ella til að hreinsa drykkjarvatn. Þá geti almenningur orðið var við neikvæð áhrif vegna íblöndunar á klór í vatnið sem nauðsynlegt er til að drepa þörungablóma.  Þar af leiðir að gæði vatnsins minnka. 
 
Vandinn liggur í gróðasjónarmiðum vegna raforkuframleiðslu
 
Verkfræðingur Yevgeny Burdin hefur skrifað nokkrar bækur um sögu vatnsorkuþróunar í Volgu. Hann bendir á að lágmarksstaða vatnsins hafi farið versnandi vegna þess að öllum stíflunum í Volgu sé  stjórnað af Rusgidro-ríkisfyrirtækinu sem er stýrt af stjórnvöldum. Hagnaður af raforkuframleiðslunni renni til Moskvu og peningaelítu landsins.  Þeim sé sama um allt nema hagnaðinn af því að búa til og selja rafmagn. 
 
„Sú staðreynd að við höfum engan fisk eða hreint drykkjarvatn er afleiðing þessa hugarfars,“ segir Burdin.
 
Vísbending um það sem koma skal
 
Líffræðingur Mikhail Shustov, sem lærði vistfræði Volgu-svæðisins í rússnesku vísindaakademíunni, segir að ástand vatnasvæðis Volgu á þessu ári gæti verið vísbending um það sem koma skal. Hann efast um getu ríkisstjórnarinnar til að laga sig að breyttum aðstæðum.
 
„Því miður hafa margar áætlanir sem ríkisstjórnin hefur kynnt í fortíðinni reynst árangurslausar,“ sagði hann í nýlegu viðtali við Ulyanovsk-útgáfu af hinu vinsæla vikublaði „Deilumál og staðreyndir“ [????????? ? ????? eða Argumenty I fakty]. 
 
Athyglisvert er að þessi gagnrýnu ummæli skuli birtast þar, því blaðið sem var komið í eigu Promsvyazbank var keypt upp af stjórnvöldum í Moskvu í mars 2014. Hafa þau kaup verið nefnd sem dæmi um hnignun frjálsra fjölmiðla í Rússlandi. Árið 1990 komst blaðið í heimsmetabók Guinnes fyrir að hafa mesta útbreiðslu vikublaða í heiminum og var þá dreift í 33,5 milljónum eintaka og lesendur voru taldir vera um 100 milljónir. 
 
Búum okkur undir enn verri atburði
 
„Ef núverandi áætlun um að bæta stöðuna við Volgu hlýtur sömu örlög og fyrri opinberar áætlanir þá verðum við að venjast því að sjá Volgu eins og hún er í dag. Við ættum því að búa okkur undir enn verri atburðarás,“ sagði Shustov. 

12 myndir:

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...