Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Þetta kort Hafrannsóknastofnunar sýnir vel hvernig sókn íslenskra fiskiskipa í fiskimiðin í kringum landið er háttað. Vinsælustu miðin eru þar greinilega úti fyrir Vestfjörðum.
Þetta kort Hafrannsóknastofnunar sýnir vel hvernig sókn íslenskra fiskiskipa í fiskimiðin í kringum landið er háttað. Vinsælustu miðin eru þar greinilega úti fyrir Vestfjörðum.
Mynd / Hafrannsóknastofnun
Fréttaskýring 17. febrúar 2020

„Besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi“ hefur valdið þúsundum einstaklinga tjóni

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið, sem byggist á úthlutun kvóta eða aflamarks til skipa eftir ákveðnum formúlum, hefur af mörgum verið talin fyrirmynd þess hvernig ganga eigi um auðlindir hafsins. Það sé í raun eina fiskveiðistjórnunarkerfið í heiminum í dag sem verndi fiskistofna og tryggi sjálfbærni fiskveiða úr hafinu. Ekki er þó  allt sem sýnist í þeim efnum. Þrátt fyrir alla kostina sem nefndir hafa verið eru gallarnir líka fjölmargir og hafa valdið heilu byggðarlögunum og íbúum þeirra miklum skaða. 
 
Ljóst er að erlendar þjóðir hafa sóst eftir að kynna sér þetta kerfi. Hafa Íslendingar meira að segja reynt að flytja það út í formi þróunaraðstoðar og koma kvótakerfi á fót í löndum eins og Namibíu sem frægt er. Bertie Armstrong, framkvæmdastjóri skoska sjómannasambandsins, lýsti hrifningu sinni á kerfinu í heimsókn hingað til lands 2017. Ljóst er að Bretar þurfa að huga að nýjum leiðum í fiskveiðistjórnun eftir útgöngu sína úr Evrópusambandinu 31. janúar síðastliðinn. Þar á bæ hafa menn ekki verið hrifnir af umgengni annarra ESB-þjóða um fiskveiðilögsögu Breta og líta því mjög til Íslands. 
 
Á Íslandi er alls ekki pólitísk eining um fiskveiðistjórnunarkerfið. Lítið fer þó fyrir gagnrýni á ýmsa áhrifaþætti í kerfinu sjálfu eins og frjálsa framsalið á kvótanum sem ákveðið var með lögum sem samþykkt voru 1990. Ástæðan er trúlega sú að það mál er í sjálfu sér mjög viðkvæmt innan þeirra flokka sem helst hafa gagnrýnt kvótakerfið. Frekar hefur verið tekist á um það í stjórnmálaumræðunni á síðustu árum með hvaða hætti beri að skattleggja veiðiréttinn á Íslandsmiðum þannig að þjóðin, sem eigandi fiskimiðanna, fái þar sanngjarnan skerf. 
 
Rætt er um auðlindarentu, hversu há veiðigjöldin eigi að vera og einnig hefur verið uppi krafa um að allur afli renni í gegnum fiskmarkaði og sé þar seldur hæstbjóðendum. Í dag fara hins vegar tugir þúsunda tonna framhjá fiskmörkuðum og er verðlagður samkvæmt gögnum Verðlagsstofu, eða fer beint í vinnslu í landi og hluti aflans er líka fluttur óunninn úr landi. 
 
Það sem flestum þykir trúlega best við lögin um stjórn fiskveiða sem samþykkt voru 1990 er fyrsta  málsgrein þess frumvarps, en þar stendur: 
 
„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.“
 
Spurningin er hvort Íslendingar  séu sammála því að þessi fögru fyrirheit hafi gengið eftir. 
 
Alvarlegar afleiðingar kallaðar staðlausir stafir og slúður
 
Þótt sumir kalli það kjaftæði  og slúður, þá hafa orðið alvarlegar afleiðingar af innleiðingu kvótakerfisins 1984 og síðan af þeirri ákvörðun Alþingis 1990 að heimila frjálst framsal á aflaheimildum sem tók gildi 1991. Fullyrt hefur verið af málsmetandi mönnum að ekkert samhengi sé á milli innleiðingar kvótakerfisins, frjálsa kvótaframsalsins og fækkunar íbúa. Það séu vart annað en staðlausir stafir og slúður, en opinberar tölur sýna þó annað. Á bak við þær tölur er líka venjulegt fólk sem oft og tíðum varð fyrir miklu fjárhagslegu tjóni án þess að fá það bætt á nokkurn hátt. 
 
Þannig má t.d. sjá skýra fylgni í tölum Hagstofu Íslands um neikvæða íbúaþróun á Vestfjörðum í tengslum við innleiðingu kvótakerfisins 1984 og frjálsa framsal aflaheimilda sem samþykkt var á Alþingi 1990. 
Fjöldi byggðarlaga víða um land hefur farið illa út úr viðskiptum með kvótann þegar hann hefur verið seldur þvert á hagsmuni íbúanna á staðnum. Þar má nefna fjölmarga staði eins og t.d. Sandgerði, Stöðvarfjörð og Akranes. Allir þessir staðir misstu miklar aflaheimildir og þar með grunnstoðir atvinnulífsins. Að vísu hefur Sandgerði notið þess að vera með Keflavíkurflugvöll í sínum bakgarði. Erfitt er líka að ímynda sér hver staðan væri á Akranesi ef bærinn nyti ekki nálægðarinnar við stóriðjuna í Hvalfirði. Sama má kannski segja um Stöðvarfjörð og nálægð við álverið í Reyðarfirði. Þeir eru þó fleiri útgerðarbæirnir þar sem íbúarnir höfðu ekki að neinu öðru að hverfa þegar kvótinn var seldur í burtu.
 
Fiskveiðilögsaga Íslands. Kortið sýnir 3 mílna landhelgina og fiskveiði­lögsöguna við Ísland eins og hún var frá 1901 til 1952. Síðan útfærsluna úr 3 í 4 sjómílur árið 1952. Þá útfærslu í 12 sjómílur 1958. Útfærslu í 50 sjómílur árið 1972 og í 200 sjómílur árið 1975. Mynd / Landhelgisgæslan
 
Háð pólitískum ákvörðunum
 
Greinilegt er að breytingar í sjávar­­útvegi, sem hefur verið uppistöðu­atvinnugrein, hefur haft mikil áhrif á þróun mála á Vestfjörðum og víðar. Um leið hefur kerfið sem innleitt var við stjórnun fiskveiða leitt til mikillar samþjöppunar og eignatilfærslu á fáar hendur sem sumir kalla hagræðingu. Vissulega er það fagnaðarefni þegar mönnum gengur vel í rekstri. Hins vegar hlýtur að fylgja slíkri velmegun samfélagsleg ábyrgð í þeim pláss­­um sem skópu umgjörðina að þeirri velmegun. Sumir hafa sinnt þeirri samfélagslegu ábyrgð nokkuð myndarlega og þar benda margir á menn eins og Róbert Guðfinnsson á Siglufirði. Ekki eru öll pláss þó svo heppin að eiga athafnamenn með slíkan þankagang, þegar ekkert hald og engin trygging fylgir því að vera með kvóta og fiskimiðin við bæjardyrnar. 
 
Væntingar bundnar við fiskeldi
 
Eftir langvarandi samdrátt í mörgum byggðarlögum í kjölfar innleiðingar kvótakerfisins hafa vakn­að væntingar vegna uppbyggingar í fiskeldi á Vest­fjörðum og á Austfjörðum. Það hefur verið að vekja trú fólks á að að hagur þessara landshluta muni vænkast að nýju. Allar þær væntingar velta þó eins og áður á pólitískum ákvörðunum. Það á líka við um fleiri þætti eins og opinbera þjónustu og samgöngumál. 
 
Hagræða átti m.a. með fækkun skipa en raunin varð allt önnur
 
Rökin fyrir innleiðingu kvótakerfis voru m.a. að koma böndum á óhefta sókn í fiskistofna með sífellt stækkandi fiskveiðiflota. Þannig átti m.a. að létta álaginu af miðunum. Voru bankastofnanir komnar í vandræði vegna vonlausra veðtrygginga og fyrirsjáanlegra gjaldþrota sjávarútvegsfyrirtækja. Sátu þeir uppi með óseljanleg toppveðsett skip sem voru farin að hrúgast upp í höfnum landsins. Með kvótakerfinu var böndum vissulega komið á hámarksveiðar úr hverjum fiskistofni en það segir þó ekki alla söguna. 
Í grein sem Ágúst Einarsson ritaði 2016 um íslenskan sjávarútveg í alþjóðlegu samhengi kemur í ljós að þó ætlunin hafi verið í orði kveðnu að koma böndum á fjölgun skipa við innleiðingu kvótans, þá varð raunin allt önnur. 
 
Fjöldi skipa og báta fór úr 1.479 árið 1982 í 2.282 árið 1990 og minni skipum fjölgaði. Voru skipin samtals 112.900 brúttótonn árið 1982 en 124.400 brúttótonn árið 1990. Skipum fækkaði aðeins til ársins 2000, eða í 1.993, en þau stækkuðu verulega og voru þá orðin 180.200 brúttótonn. Þá bendir Ágúst einnig á að afkastageta veiðarfæra hafi stóraukist og að brottkast hafi verið vandamál í kerfinu
Það er því eðlilegt að menn spyrji um hvortkvótakerfið hafi skilað sér með hagræðingu í skipaflotanum. Þá var framkvæmd veiðistýringarinnar með innleiðingu kvótakerfislíka mjög umdeild. 
 
Íbúum fjölgaði samfara skuttogaravæðingunni en svo kom kvótakerfið
 
Þegar nánar er rýnt í íbúatölur á Vestfjörðum sést að fjórðungurinn náði vopnum sínum þegar bylting varð í sjávarútvegi með skuttogaravæðingunni sem hófst um 1970. Þá varð mikill uppgangur og íbúum fór að fjölga á ný. Sóknarþungi íslenskra fiskiskipa jókst gríðarlega eftir að erlend fiskiskip hurfu af miðunum í kjölfar fullnaðarsigurs í landhelgisdeilunni. Afla togaranna var hreinlega mokað á land og vissulega oft með meira kappi en forsjá. Árið 1980 voru íbúar fjórðungsins orðnir 10.479 og 10.513 árið 1981. Hélst íbúatalan síðan yfir 10.400 fram til 1994, eða sama ár og kvótakerfið var innleitt. Árið 1985 var íbúatalan komin niður í 10.217 og 9.798 árið 1990.
 
Við innleiðingu kvótakerfisins 1984 voru íbúar sveitarfélaga sem nú tilheyra Ísafjarðarbæ, þ.e. Ísafjarðar, Hnífsdals, Suðureyrar, Flateyrar, Þingeyrar og nærliggjandi sveita, samtals 5.065. Frá því kvótakerfið var sett á 1984 og til ársins 2000 fækkaði þeim um 17%. Mynd / HKr.
 
Mikil blóðtaka fyrir samfélagið á Vestfjörðum
 
Við innleiðingu kvótakerfisins 1984 voru íbúar sveitarfélaga sem nú tilheyra Ísafjarðarbæ, þ.e. Ísafjarðar, Hnífsdals, Suðureyrar, Flateyrar, Þingeyrar og nærliggjandi sveita, samtals 5.065 samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Það ár voru íbúar Vestfjarða 10.417.
 
Árið 1990 var íbúatala Vest­fjarða komin niður í 9.798 og íbúar sveitarfélaga sem nú til­heyra Ísafjarðarbæ voru orðnir 4.894. Íbúatala Ísafjarðarbæjar var svo komin niður í 4.225 árið 2000 og þá voru íbúar Vestfjarða í heild orðnir 8.719.
 
Á 16 árum frá innleiðingu kvóta­kerfisins hafði íbúum Vestfjarða fækkað í heild um 6% og íbúatala sveitarfélaga sem tilheyra nú Ísafjarðarbæ fækkaði um 17%. 
 
Í Bolungarvík var íbúatala 1984 í kringum 1.282. Árið 1990 voru íbúarnir orðnir 1.187 og árið 2000 hafði þeim fækkað í 948. Það er rúmlega fjórðungs fækkun íbúa frá innleiðingu kvótans.  
 
Svipaða sögu var að segja úr öðrum sjávarplássum á Vest­fjörðum, þ.e. Súðavík, Bíldudal, Tálknafirði, Patreks­firði, Hólma­vík og Drangs­nesi. 
 
Efnahagslegar hamfarir
 
Samfara samdrætti í sjávarútvegi á Vestfjörðum fylgdi samdráttur í rekstri þjónustufyrirtækja, upp­sagnir og fólksflótti eins og tölur Hagstofunnar sýna. Það þýddi líka að íbúar urðu fyrir umtalsverðri eignaupptöku vegna hruns í verði fasteigna. Fjöldi fyrirtækja og einstaklinga urðu gjaldþrota af þessum sökum. Má sannarlega líkja þessu við efnahagslegar hamfarir í fjórðungnum. Engri neyð var þó lýst yfir vegna þessara áfalla og fólkið sjálft var látið taka á sig þann skell. 
 
Það sama hefur gerst í fjölmörgum sjávarplássum víðar á landinu.  
 
Sóknarmarkskerfið
 
Miklar deilur stóðu um innleiðingu þess kvótakerfis sem ætlað var að koma betri stýringu á veiðarnar og auka verðmæti þess afla sem að landi barst. Töldu sumir Vestfirðingar að sóknarmarkskerfi væri heppilegri leið í fiskveiðistjórnun, þar sem nálægð útgerðarstaða við fiskimið og hagkvæmni sem því fylgdi myndu nýtast vel. Í því fælist þjóðhagsleg hagkvæmni og minni olíueyðsla við að sækja hvert kíló af fiski. Virðast Vestfirðingar gjalda þess nú að loftslagsumræðan skyldi ekki vera komin í hámæli á þeim tíma, enda er eldsneytissparnaður af veiðum á nærmiðum byggðarlaganna augljós. 
 
Tuga þúsunda tonna brottkast?
 
Þá var einnig fullyrt af and­stæðingum kvótakerfisins og ýmsum sérfræðingum innlendum og erlendum, að kvótakerfið myndi leiða til mikils brottkasts á fiski. Kvótahafar myndu leitast við að hámarka afraksturinn og koma aðeins með að landi verðmætasta fiskinn. Þessi ótti hefur því miður verið staðfestur margsinnis síðan eins og fram hefur komið í fréttum. SKÁÍS gerði könnun meðal sjómanna árið 1990. Þar kom fram að um 40 þúsund tonnum væri hent fyrir borð. Þá gerði Gallup umfangsmikla könnun 2001 meðal sjómanna um hvað hæft væri í þessum staðhæfingum. Niðurstöður hennar sýndu að allt að 25.600 tonnum af bolfiski var hent árlega. Þetta þóttu ógnvænlegar tölur og hafa þær verið raktar beint til kvótakerfisins. 
 
Sagt staðleysur en er samt viðurkenning á gagnrýninni
 
Hagfræðingarnir Axel Hall, Ásgeir Jónsson, Sveinn Agnars­son og Tryggvi Þór Herbertsson reyndu að slá á gagnrýni Vestfirðinga á kvótakerfið í grein sem þeir rituðu og var birt í Morgunblaðinu í júní 2001. Sögðu þeir gagnrýnina snúast um staðleysur. Ef sóknarmark yrði tekið upp í fiskveiðum við Ísland yrðu áhrifin eftir landshlutum mjög mismunandi. Þeir útgerðarstaðir sem eru næstir miðunum gætu hagnast á kostnað þeirra staða sem fjær eru.
 
Rökin fyrir sóknarmarks­kerfinu voru af  hagfræðingunum greinilega ekki talin nógu heppi­leg. Samt var þá þegar ljóst að í krafti fjármagns myndi kvóta­kerfið smám saman flytja veiðiréttinn frá þeim byggðum sem næst miðunum voru og í stærstu byggðakjarna landsins. Vestfirðir voru þar engin undan­tekning þó þeir lægju næst feng­sælustu og verðmætustu fiski­miðum landsins. 
 
Í grein þeirra fjórmenninga viður­­kenna þeir þó að eðlilegt sé að Vestfirðingar hafi verið hallir undir sóknarmarkskerfi, einmitt af þeirri ástæðu að stutt er á góð þorskmið frá Vestfjörðum. Sögðu þeir hins vegar að sóknarmark gæti aldrei leitt til byggðastefnu sem landið í heild gæti sætt sig við.
 
Þessi fullyrðing hlýtur að leiða af sér þá spurningu í dag hvort allir landsmenn sætti sig þá við kvótakerfið eins og það hefur verið útfært. 
 
Stórfellt brottkast kallað „eðlileg afföll“
 
Fjórmenningarnir ræða einnig í grein sinni um könnun Gallup um mikið brottkast sem rakið hafi verið beint til kvótakerfisins. Þeir telja að brottkastið ætti samt ekki að skipta sköpum um viðgang fiskistofna, jafnvel þótt það væri ívið meira. Þá telja þeir heldur ekki víst að brottkastið dragi úr hagkvæmni kvótakerfisins. Líkja þeir þessu við „eðlileg afföll“ sem verði í öðrum framleiðslugreinum eins og við ræktun grænmetis og mjólkurframleiðslu. Þannig gera þeir í raun lítið úr þessu brottkasti og segja m.a.:  
„Enn fremur, er ljóst að sá fiskur sem hent er aftur í sjóinn er yfirleitt verðlítill eða verðlaus vegna t.d. sjúkdóma, holdafars eða stærðar og því ekki mikið verðmætatap þótt hann komi ekki að landi,“ sögðu hagfræðingarnir fjórir. 
 
Fjórmenningarnir benda einnig á að frá 1985 og fram til 1990 var öllum skipum gefinn kostur á að velja á milli sóknar- og aflamarks og mörg hafi nýtt sér fyrri kostinn. Ný lög um stjórn fiskveiða voru síðan sett árið 1990.
 
 
„Mikil hagræðing“ en skuldirnar jukust
 
Þeir félagar segja í grein sinni að kvóta- eða aflamarkskerfið hafi leitt til mikillar hagræðingar. Þeir staðfesta samt að á árunum frá 1990 til 2000 hafi skuldir sjávarútvegs vaxið mikið að krónutölu sem rekja megi til kvótakerfisins. Þá benda þeir á að með tilkomu kvótakerfisins hafi lánastofnanir fengið tryggari veð fyrir lánum. Þetta staðfestir í raun það sem ýmsir hafa haldið fram að einn helsti tilgangur kvótakerfisins hafi verið að verja eignir fjármagnseigenda. Eða eins og fjórmenningarnir segja sjálfir:  
 
„Í stuttu máli er sagan sú að hagkvæmari útgerðir kaupa þær óhagkvæmari út úr sjávarútvegi. Í kjölfarið fækkar störfum en skuldir vaxa. Greinin notar meira fjármagn, en ekki á sama hátt og áður. Helstu verðmætin felast nú í kvótastöðu – ekki skipum og vinnsluhúsum.“
 
Kvótasetningin lagði grunn að nýju viðskiptahagkerfi 
 
Samkvæmt grein fjórmenn­inganna gátu kvótahafar ýmist veitt kvótann eða leigt hann frá sér ef svo bar við. Með öðrum orðum viðskipti með kvóta og fyrirtæki sem „eiga“ kvóta hefur búið til viðskiptahagkerfi sem áður var ekki til. 
 
Hafa margir einstaklingar þannig orðið sterkefnaðir og inn­leyst hagnað með sölu eignarhluta í kvótafyrirtækjum, en við þau viðskipti hefur skuldastaða fyrir­tækjanna gjarnan aukist. Fyrirtækin hafa samt takmarkaða getu til að kaupa eigendur sína út úr kerfinu. Því hefur verið róið á ný mið m.a. við að fá ýmsa sjóði inn sem eigendur. Þeir sem selt hafa sinn hlut hafa síðan gert sig gildandi á öðrum sviðum atvinnulífsins. Hefur þetta valdið titringi í samfélaginu og nefnt sem dæmi um vaxandi ójöfnuð meðal þegna landsins sem geti ekki endað með öðru en harkalegu uppgjöri.
 
Margir kvótahafar seldu og inn­leystu þannig „eign“ sína í kerfinu í kjölfar innleiðingar frjálsa framsalsins á kvótanum. Hundruð milljarða hurfu á nokkrum árum út úr greininni og skuldsetning útgerðarinnar óx.
Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands voru skuldir íslenskrar útgerðar 1.080 milljarðar í árslok 2007, skömmu fyrir hrun bankanna.
 
Munu Íslendingar tapa fiskimiðunum í hendur útlendinga?
 
Nýjasti snúningurinn í þessum efnum er að sumir stórútgerðarmenn sjá ekki lengur fyrir sér að nægilega sterkum eignaraðilum standi til boða á íslenskum markaði að kaupa þá út sem vilja. Því er byrjað að leita eftir heimildum innan íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja til að selja útlendingum þar eignarhluti. Þegar svo er komið hljóta Íslendingar sem þjóð að spyrja sig hvort það sé ekki vísasta leiðin til að selja fiskveiðiauðlindina frá þjóðinni. Jafnvel þó að í lögum standi enn að „nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar“. 
 
Sú hugsun læðist óneitanlega að mönnum að þarna sé verið að skala upp það sem gerðist með frjálsa framsalinu 1991. Þá voru fiskveiðiheimildir seldar frá heilu byggðarlögunum. Kannski verður veruleikinn sá að í náinni framtíð þurfi íslenska þjóðin að horfa á eftir sjávarauðlindum sínum í hendur erlendra fjárfesta. 
 
Íslendingar hafa barist hart fyrir yfirráðarétti þjóðarinnar yfir fiskimiðunum við landið. Þannig náðist réttur yfir þriggja sjómílna landhelgi 1901. Hún var færð í 4 sjómílur 1952, í 12 sjómílur 1958, í 50 sjómílur 1972 og loks í 200 sjómílur 1975. Í þeirri baráttu stóð þjóðin saman. Einhverjir kunna því að spyrja til hvers sú barátta hafi verið háð ef lagatilbúnaður á Alþingi muni mögulega gera mönnum kleift að selja veiðiréttinn burt frá þjóðinni?
 
Fólkið á gólfinu mátti taka skellinn
 
Þegar rýnt er í opinberar tölur er ekki annað að sjá en að fólkið á gólfinu hafi verið látið taka á sig drjúgan hluta af samfélagslegum kostnaði af „hagræðingunni“ sem fólst í tilfærslu veiðiheimilda á fáar hendur. Afleiðingin var eignaupptaka hjá stórum hópi fólks á sama tíma og bankar og fjármagnseigendur fengu öruggar veðtryggingar í auðlindum hafsins fyrir sínum fjármunum til langs tíma.
 
Eitthvað varð að gera, en völdu menn þar endilega réttu leiðina?
 
Þrátt fyrir allt þetta viðurkenna flestir að eitthvað hafi þurft að gera í þeirri stöðu sem uppi var upp úr 1980. Þar var hins vegar deilt um aðferðarfræðina og þær leiðir sem farnar voru, samfara alvarlegu sinnuleysi gagnvart þeim áhrifum sem þetta hafði á óbreytta borgara. Staðreyndin er að fjöldi fólks missti aleigur sínar vegna ákvarðana sem teknar voru um þessi mál á Alþingi Íslendinga.
 

Hafa misst 75% af hlutfalli aflaheimilda

Vestfirðingar stóðu hvað harðast gegn setningu kvóta­laga 1983 sem tóku gildi 1984. Vildu margir fremur veðja á sóknarmarkskerfi en aflamarks­kerfi og var Vestfirð­ingum gefið undir fótinn með það af stjórnmálamönnum að kvótakerfið væri ekki komið til að vera. 
 
Togaraútgerðin sem víða var orðin mjög skuldsett gaf eftir í kjölfar innleiðingar kvótakerfisins og krókabátar urðu snar þáttur í útgerðinni. Hlutur vestfirskra skipa í veiðiheimildum krókabáta jókst um rúm 30% frá 1995-2001 og sóknardagabátum á Vestfjörðum fjölgað á sama tíma um rúmlega 50% samkvæmt úttekt Byggðastofnunar. 
 
Á árinu 2000 lönduðu krókabátar 49% alls þorsks á Vestfjörðum, 65% af ýsu, 32% af ufsa og 64% af steinbít. Þá var ákveðið að kvótasetja líka þær fisktegundir sem voru utan kvóta og krókabátarnir höfðu nýtt sér. Kné var enn á ný látið fylgja kviði sem bitnaði illa á vestfirskum útgerðum, afli dróst verulega saman og störfum við veiðar og vinnslu snarfækkaði. Verkaður afli á Vestfjörðum dróst saman um helming á árunum 1990 til 2000, eða úr um 60.000 tonnum í 31.912 tonn.
 
50% samdráttur í aflamarki Vestfirðinga á tæpum áratug
 
Á fiskveiðiárinu 1991/1992 var úthlutað aflamark á skip frá Vest­fjörðum samtals 15,5 prósent af heildarafla fiskveiðiflotans. Vestfirðingum var þá heimilt að veiða um 54 þúsund þorsk­ígildistonn samkvæmt samantekt Landssambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) og birt var í Fréttablaðinu 11. apríl 2007.  Hlutfallið var komið niður í 7,7% á fiskveiðiárinu 2000/2001. Þetta var um 50% samdráttur í aflaheimildum, eða um 27.000 þorskígildistonn. Á sama tíma hafði aflamark skipa á höfuðborgarsvæðinu aukist úr 14,5% í 16,4% og Norðurlands eystra úr 20,6% í 23,6%. 
 
Þessum breytingum fylgdi gríðarleg tilfærsla verðmæta. Eftir aldamótin fóru nokkur fyrirtæki á Vestfjörðum hins vegar að kaupa til sín kvóta, en þá var skaðinn þegar skeður fyrir fjöldann allan af fólki. Árið 2007 var kvótahlutfallið komið í tæp 12% og vantaði þá talsvert á að stöðunni frá 1991 hafi verið náð. Síðan hefur aftur sigið á ógæfuhliðina. 
 
Úr 15,5% af aflaheimildum árið 1991  í 5,17% árið 2020
 
Við skoðun á tölum Fiskistofu um úthlutað aflamark á skip eftir heimahöfn í upphafi fiskveiði­ársins 2019/2020 kemur hrikaleg staðreynd í ljós. Af heildaraflamarki upp á rúmlega 371.960,6 þorskígildistonn sem úthlutað var á 466 skip og báta eru 60 með vestfirskum skráningar­númerum. Þessi vestfirsku skip og bátar eru skráðir fyrir kvóta upp á samtals 19.252,5 þorskígildistonn. Það er aðeins um 5,17% af úthlutuðu aflamarki á landinu. Af þessum fjölda eru 6 vestfirskir bátar skráðir fyrir einu þorskígildiskílói hver, sem jafnast á við einn smáþorsk eða „bútung“ eins og verið var að selja Rússum heilfrystan og hauslausan fyrir um 40 árum. 
 
Hafa misst 75% af hlutfalli aflaheimilda síðan 1991
 
Samkvæmt tölum um úthlutað aflamark hefur sá  landshluti sem næst er bestu og eftirsóttustu fiskimiðum landsins, samkvæmt korti Hafrannsókna­stofnunar, tapað um 75% hlutfalli af sínum veiðiheimildum eftir tilkomu frjáls framsals á aflaheimildum sem innleitt var 1991. 
Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...