Fyrsta fræið til að spíra á tunglinu dautt
Kínverjar hafa gert tilraun með að láta fræ spíra um borð í tunglflauginni Chang´e-4 sem lenti fyrir skömmu á dökku hlið tunglsins sem snýr frá jörðu. Tilraunin gekk vel og eitt fræanna spíraði fljótt og vel. Skömmu eftir að spírun hófst var tunglfarið sett í hvíld og fraus þá ungplantan og dó.
Fræið sem um ræðir og plantan sem upp af því óx var bómullarplanta og um leið fyrsta plantan sem ræktuð er á tunglinu. Fræ annarra tegunda sem Kínverjar sendu til tunglsins eru einnig farin að sýna fyrstu merki um að spíra og nú er bara að bíða og sjá hvort þau lifa þar til tunglfarið verður ræst að nýju.
Tunglflaugin Chang´e-4, sem nefnd er í höfuðið á kínverskri tunglgyðju, er fyrsta tunglfarið til að lenda á þeirri hlið tunglsins sem snýr frá jörðu. Á þeirri hlið er alltaf nístingskuldi eins og annarrsstaðar á tunglinu.
Tilgangur Chang´e-4 leið-angursins er að rannsaka yfirborð tunglsins á þeirri hlið sem fæstir hafa séð og að gera tilraunir með ræktun plantna í lokuðu rými tunglfarsins. Þrátt fyrir að rýmið sem er ætlað til ræktunartilraunanna sé ekki stærra en skúringarfata sem er 16 sentímetrar í þvermál og 18 á hæð er þar auk bómullarfræja að finna repju- og kartöflufræ og plöntu sem kallast gæsamatur, egg silkiorma og ger. Auk vatns og jarðvegs.
Gangi allt eftir munu plönturnar framleiða súrefni fyrir silkiormanna og silkiormarnir áburð sem gerið sér um að brjóta niður fyrir plönturnar þannig að úr verði lítið en sjálfbært vistkerfi svo lengi sem plönturnar fá ljós og yl frá tunglfarinu.
Áður hafa verið gerðar tilraunir með að rækta salat um borð í alþjóðlegu geimstöðinni sem er á sveimi umhverfis jörðina og árið 2015 smökkuðu geimfarar á fyrsta salatinu sem ræktað var í geimnum. Rannsóknir sýna einnig að þörungar hafa lifað í 530 daga utan á geimstöðinni.
Rannsóknir á ræktun plantna og matvæla í geimnum eru liður í því að geta sent mönnuð geimför í langar geimferðir sem taka mörg ár, áratugi og jafnvel aldir.
Tilraunir Kínverja með líf á tunglinu eru líklega merkilegustu rannsóknir sem gerðar hafa verið í geimnum frá því að Bandaríkjamönnum tókst að lenda mönnum á tunglinu.