Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Fréttir 30. apríl 2019
Geitfjárræktarfélags Íslands stefnir að fjölgun félaga
Höfundur: smh
Aðalfundur Geitfjárræktarfélags Íslands var haldinn 23. mars í Landnámssetrinu í Borgarnesi. Að sögn Önnu Maríu Flygenring formanns er mikil gróska í félaginu. Hún segir að talsvert hafi verið rætt á fundinum um leiðir til að ná til þeirra geitabænda sem ekki eru í félaginu, sem væri nauðsynlegt til að styrkja starfið.
Anna María segir að engin breyting verði á stjórn félagsins og áfram sitja þau Guðni Ársæll Indriðason, Anna María Lind Geirsdóttir, Birna Kristín Baldursdóttir og Guðný G. Ívarsdóttir. „Ný stjórn á eftir að funda og skipta með sér verkum, en ég vona að verkaskiptingin verði bara eins og hún er því hún hefur reynst vel,“ segir Anna María.
Anna María Flygenring er formaður Geitfjárræktarfélags Íslands.
Alþjóðleg skráning og skýrsluhald fyrir íslenska geitfjárkynið
Að sögn Önnu Maríu lagði Ólafur Dýrmundsson tillögu fyrir fundinn um skýrsluhaldsforritið Heiðrúnu, sem fundarmenn samþykktu. Þar er stjórn Geitfjárræktarfélags Íslands falið að beita sér fyrir endurskoðun og framþróun Heiðrúnar þannig að það verði bæði aðgengilegt og nýtilegt öllum eigendum íslensku geitarinnar. Við endurskoðunina verði hugað að litaskráningu, bæði á litum og litaafbrigðum – og leitað sérfræðiaðstoðar eftir þörfum.
Þá er í tillögunni þeim tilmælum beint til Bændasamtaka Íslands að skýrsluhaldskerfið skuli þróað á þann veg að það nýtist til alþjóðlegrar skráningar.
Aukið verðmæti geitaafurða
Anna María segir að félagið hafi átt í áhugaverðu samstarfi við Matarauð Íslands, sérfræðinga á vegum Matís og Hótel- og matvælaskólann, þar sem verkefnið væri að bæta geitakjötsmat og efla þekkingu kjötvinnslumanna á vinnslu geitakjöts. Tilgangurinn sé að auka verðmæti geitaafurða. „Það var eins konar uppskeruhátíð þessa samstarfs á dögunum í Hótel- og matvælaskólanum, þar sem saman komu aðilar frá þeim sem lögðu til kjöt í rannsóknir Matís á innihaldi geitakjöts, kjötiðnarmenn og fjölmennt lið kokkanema, þjónanema, stjórnar GFFÍ, Matísmanna og verkefnastjóra Matarauðs Íslands. Vel var að verki staðið þar og bornir fram alls kyns réttir, allir úr geitakjöti en ýmsu öðru bætt við eftir hugmyndaflugi nemanna.
Það er mikil lyftistöng fyrir geitabændur að fá þetta upp í hendurnar, því að allt svona er gríðargóð kynning á afurðunum. Allir réttirnir brögðuðust feikna vel. Uppskriftirnar má finna á vef Matarauðs Íslands (mataraudur.is).“